Untitled

Hans Blær fjallar kannski, einsog ég hef hugsanlega sagt einhvers staðar, alls ekki um að vera intersex eða trans – en það er þó mikilvægur faktor í bókinni. Hans Blær fjallar um ídentítet og sjálfsmynd, hvernig hún verður til og hvernig maður bregst við því að láta þvinga henni upp á sig – hvernig maður streitist á móti og hvernig maður spilar með, spriklar, djöflast. Öllum sjálfsmyndum fylgja fordómar og öllum sjálfsmyndum fylgja jákvæðar og neikvæðar steríótýpur – bæði sem koma að utan og aðrar sem maður internalíserar. Einu sinni hefðu allir verið vissir um að svartir transmenn ætu börn – nú skiptist heimurinn meira í þá sem telja að svartir transmenn séu móralskt rangir og þá sem telja að svartir transmenn hljóti allir að vera frjálslyndir vinstrimenn.

***

Nema hvað. Ég er svolítið fókuseraður á intersex hlutann þessa dagana vegna nokkurra bóka sem ég er að lesa.

***

Ef ég skil rétt það sem ég hef lesið í Bodies in Doubt: An American History of Intersex, sem fjallar um sögu intersex í Bandaríkjunum, þá mætti skipta  þeirri sögu niður í þrjú skeið (eða fjögur, ef við viljum skilgreina samtímann líka).

Fyrsta skeiðið lýsir sér í yfirnáttúrulegri eða trúarlegri sýn á líkamann. Líkaminn kemur frá guði og á sér þannig fullkomna mynd – karl eða kona, sköpuð í guðs mynd – og allt sem liggur þar á milli er einfaldlega óskapnaður. Óskapnað læknar maður ekki eða bætir en maður getur varað við honum eða undirstrikað hann og gert hann útlægan (borið hann út eða brennt hann á báli). Hér mætti nefna líka meðferðina á Thomas/ine Hall sem var intersex manneskja sem hafði lifað sem bæði kona og karl og skipti reglulega. Þegar upp um hán komst, árið 1629, var hán beinlínis dæmt til þess að ganga í karlmannsfötum en með skuplu og svuntu. Í einhverjum skilningi er verið að banna hán að „villa á sér heimildir“ þarna og ætlaðar afleiðingarnar voru áreiðanlega félagsleg útskúfun (eða það þótti í það minnsta fullkomlega eðlilegur fórnarkostnaður). Hán er svipt réttinum til þess að skilgreina kyngervi sitt sjálft – sem raunar allir voru sviptir á þessum tíma, konur gengu ekki í buxum og karlar ekki í kjólum. Það er ekki vitað hvort hán var í raun útskúfað því það spyrst ekkert til háns frekar. Afdrif háns eru auðvitað getgátur, en það má ímynda sér að hán hafi bara látið sig hverfa og lifað lífinu undir öðru nafni annars staðar.

Annað skeiðið er náttúrulegt eða lífvísindalegt. Þá leitast vísindamenn við að finna hið „rétta“ líffræðilega kyn intersex fólks út frá náttúrulegri eða vísindalegri aðferð. Í mörgum tilvikum var hægt að velja einhver einkenni til að ganga út frá og draga svo bara línu – en það hafa alltaf komið upp tilvik þar sem jafnvel ströngustu skilgreiningar hafa ekki dugað læknum til að skipa fólki í boxin sín, og þau eru algengari en margir ímynda sér (intersex fólk er um 1,7% mannfjöldans, álíka margir og eru rauðhærðir, og um einn af hverjum tvö þúsund er með óljós eða margræð ytri kynfæri). Læknarnir tókust á um skilgreiningar algerlega án tillits til félagslegs samhengis eða vilja skjólstæðinga sinna. Lengst af er (merkilegt nokk, þótti mér) ekki miðað við ytri kynfæri heldur kynkirtla – eggjastokka eða eistu. Þannig var fólki með píkur og eistu (innanísér) gert að vera „karlmenn“, alveg sama hvort það var vant því að lifa sem karlar eða konur. Að einhverju leyti voru gerðar tilraunir til þess að láta líkamann „samræmast“ sjálfum sér með uppskurði en það var líka afar umdeilt, ekki síst vegna þess að á fyrirhluta þessa tímabils (sem er kannski frá 1800 og fram að seinna stríði) lifði ekkert æðislega mikið af fólki af sína uppskurði.

Þriðja skeiðið er þá súpranáttúrulegt eða sálfræðilegt. Þráhyggjur líflækna eru lagðar til hliðar eftir því sem félagsvísindin og sálfræðin verða sterkari. Nú skiptir innra byrði líkamans – hinn duldi sannleikur líflækninganna – minna máli og hið ytra byrði, það hvernig líkaminn hefur litið út og hvernig skjólstæðingurinn og þeir sem nærri honum standa hafa upplifað hann, meira máli. Einstaklingur með píku og eistu er þá miklu frekar kona en karl. Meira að segja vilji skjólstæðingsins fer að skipta miklu máli, sérstaklega eftir því sem líður á 20. öldina. Hið félagslega dómínerar hins vegar með áherslu sinni á normalítetið – og á sama tíma fer líflæknum mjög fram í skurðtækni. Líffærum einstaklinga – oftar og oftar barna – er breytt í samræmi við það sem læknar (og/eða foreldrar) meta vera næst lagi. Það er námundað að næsta kyni, svo að segja, út frá útliti kynfæra og möguleikum til breytinga í aðra hvora áttina.

***

Upp úr 1950 fer sálfræðingurinn John Money á John Hopkins að láta til sín taka í þessum heimi, með alls konar kenningar, meðal annars um sveigjanleika kyngervis barna fram að átján mánaða aldri. Hugmyndir hans urðu frekar fljótt að grunnafstöðu heilbrigðiskerfisins í Bandaríkjunum, með einhverjum (misgáfulegum) tilbrigðum. Sennilega hefur hann unnið alls kyns kraftaverk þegar kemur að hugmyndum okkar um kyngervis í dag – að það gæti yfir höfuð verið sveigjanlegt var alveg nýtt. Hann skrifaði líka margt mótsagnakennt um tvíhyggju kynjakerfisins – ég hef ekki pælt mig í gegnum frumritin en mér sýnist fljótt á litið hann hafa litið svo á að þótt kynin þyrftu í „prinsippinu“ ekki að vera bara tvö (heldur gætu verið á rófi) þá væri félagslegur veruleiki skjólstæðinga hans langt í frá tilbúinn fyrir slíkt, þeir yrðu áreiðanlega fyrir aðkasti og svo framvegis (sem var svo engan veginn í samræmi við hans eigin gögn eða einu sinni túlkun hans á þeim gögnum). Og þar með væri best að stefna bara að hreinum línum.

Þá var Money líka vinsæll meðal femínista enda þóttu kenningar hans ýta stoðum undir þær hugmyndir að uppfóstrun væri sterkari en líffræðin – að, einsog Simone de Beauvoir orðaði það, maður fæddist ekki kona heldur yrði maður kona. (Eða, þú veist, kona yrði kona, eða nei, því hán var ekki orði … gleymiðessu).

Money varð frægastur fyrir aðgerð sem hann vann á átta mánaða gömlum dreng sem hafði orðið fyrir óhappi (trigger warning!) við umskurð svo hann missti liminn. Hann sannfærði foreldra drengsins um að best væri að breyta honum bara í stelpu og gerði það. Brenda, einsog hann hét, átti hins vegar ekki sjö dagana sæla, og eftir að foreldrar hans sögðu honum frá öllu saman fór hann í (aðra) kynskiptiaðgerð og gerðist karl. Hann tók svo saman höndum við einhvern óvinaprófessor Moneys seint á tíunda áratugnum, þeir birtu ritgerð til að afsanna kenningarnar. David Reimer, einsog hann hét á fullorðinsárum, framdi svo sjálfsmorð árið 2004.

Money er sá sem ábyrgastur er fyrir öllum þeim kynfæralimlestingum – einsog við köllum þær nú – sem framdar eru á intersex ungabörnum, með þeim rökum að þau muni upplifa sig í samræmi við kyn sitt ef gripið er í taumana fyrir 18 mánaða aldur (en annars verða fyrir fordómum samfélagsins og þjást af geðsjúkdómum – sem, bara svo ég endurtaki það einu sinni enn, er alls ekki raunin skv. rannsóknum). En Money er líka sá sem ber einna mesta ábyrgð á uppgangi trans-lækninga á seinni hluta 20. aldarinnar – sá sem bjó til flest hugtökin og barðist fyrir stofnun The Gender Idenity Clinic á Hopkins spítala árið 1966. Ein af mótsögnunum í kenningum hans hefur þá með það að gera hversu mikla virðingu hann bar fyrir fullorðnu fólki sem kaus að leiðrétta kyn sitt eða skipta (á meðan hann trúði því samtímis að slík leiðrétting eða skipti hjá börnum eldri en 18 mánaða myndi gera börnin vansæl og/eða klikkuð). Hann er hálfgert illmenni í intersexheiminum en hetja í transheiminum.

Money er líka mikill óvinur femínistans Janice Raymond, sem skrifaði The Transsexual Empire og kemur nokkuð fyrir í Hans Blævi. Raymond fagnar því í formála endurútgáfu bókarinnar 1994 að upprunaleg útkoma hennar, 1979, hafi orðið til þess að John Hopkins hafi lokað The Gender Identity Clinic. Og sennilega var það rétt, bókin var gríðaráhrifamikil og Raymond fagnað sem femíniskri hetju alveg fram yfir aldamót. Hún nefnir reyndar líka að skrif Moneys um pedófílíu hafi sett blett á stofnunina og það var áreiðanlega líka rétt. Hann var sem sagt ekki alfarið mótfallinn kynferðislegu samneyti fullorðinna við börn – þetta er þá önnur bókin sem ég les í röð þar sem slíkar hugmyndir koma fram (hin var Gaga Feminism eftir transmanninn J. Jack Halberstam).

Svona er nú fólk margbrotið.

***

Fjórða skeiðið væri þá núna. Kannski mætti kalla það félagslega skeiðið, félagsnáttúrulega skeiðið. Og gengur þá (loksins, loksins, segja að minnsta kosti flestir nútímamenn, en ætli framtíðinni finnist við ekki samt skökk og rugluð) út á að lækna fremur samfélagið af fordómum sínum en intersex fólkið af kynfærum sínum eða kynkirtlum.

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png