Untitled

Í gærkvöldi horfði ég á In Einem Jahr mit 13 Monden eftir Rainer Werner Fassbinder. Kvikmyndagagnrýnandi New York Times sagði að fyrir óinnvígða Fassbinderáhorfendur væri þetta sennilega einsog að horfa á „martröð um martröð“ – og það má til sanns vegar færa, að minnsta kosti um hluta af myndinni, sem er bæði fýsískt og andlega brútal.

Myndin fjallar um Elviru / Erwin. Ég veit ekki hvernig væri best að kynja Elviru / Erwin – öll fornöfn eru hugsanlega röng, en hér nota ég hán í krafti þess að það geti líka verið meira hlutlaust fornafn en þriðjakyns.

Í opnunarsenunni er hán í karlmannsfötum að reyna að kaupa kynlífi af vændiskarli. Þau fara í hörkusleik en þegar vændiskarlinn uppgötvar að hán er ekki með typpi verður hann reiður og hann og vinir hans í hórbransanum berja Elviru/Erwin, sem hrökklast heim til sín þar sem háni mætir kærastinn. Sá hefur verið fjarverandi síðustu sex vikurnar og verður reiður að sjá hán í karlmannsfötum, þau rífast og hann kallar hána aumingja og viðurstyggð og feita og ljóta, pakkar svo saman og fer. Elvira/Erwin eltir hann út í örvæntingu, endar uppi á húddi bílsins, kastast af og er svo hughreyst af vændiskonunni Rote Zore.

Þau fara að spjalla saman og kemur upp úr kafinu að hán hefur áður starfað sem slátrari. Það finnst Zore vera dauðabransi, en Elvira/Erwin mótmælir, og býðst til að fara með hana í sláturhús. Sláturhússenan er fáránlega brútal – kýrnar fara lifandi í vél, eru hengdar dauðar upp og skornar á háls svo blóðið fossar út úr þeim, og svo eru þær húðflettar og verkaðar. Það er ekkert gert til að hlífa áhorfandanum – og allan tímann flytur Elvira/Erwin ljóð eftir Goethe yfir konsert eftir Händel.

Næst fara þær að mig minnir í klaustur þar sem Elvira/Erwin var sem ungur drengur og ræða við nunnuna. Nema að senan þar sem barnsmóðir Elviru/Erwins kemur hafi verið næst. Þá kastar hún blaði með viðtali við hán í hán – þar sem hán hefur sagt alls konar hluti um einhvern valdamikinn mann, sem hán lofar að fara að tala við og lempa svo dóttir þeirra þurfi ekki að óttast („hefur hún ekki mátt þjást nóg!“ æpir móðirin).

Á endanum kemst hán til þessa valdamikla manns, sem reynist vera samstarfsfélagi háns úr slátrarabransanum. Dag einn, í gamladaga, hafði hán játað ást sína á honum og hann svarað: Ef þú bara værir stelpa. Þá tók hán sig til og fór til Casablanca og lét breyta sér.

Ég ætti kannski ekki að segja allan söguþráðinn? Þetta endar í öllu falli ekki vel og það er erfitt að henda reiður á öllu, ekki endilega vegna þess að söguþráðurinn sé svo flókinn heldur vegna þess að senurnar eru oft svo skrítnar og ógurlega hlaðnar – maður veit aldrei með hverju maður á að vera að fylgjast.

Kvikmyndagagnrýnandi New York Times, sem ég vitnaði í áðan, skrifaði dóm 1979 sem var áhugaverður að mér þótti – ekki bara vegna þess að hann sé að mörgu leyti skynugur og ástríðufullur, heldur líka vegna þess hve sjónarhornið er gamalt. Þannig eyðir hann púðri í að tala um að Elvira/Erwin sé vaxið einsog „quarterback“ og því geti engir hormónar breytt, sem er í senn auðvitað transfóbískt en líka bara líffræðilegur misskilningur. Þótt Hollywood stjörnur árið 1978 hafi verið næstum jafn grannar og fitt og þær eru í dag (en samt ekki alveg – einsog sjá má á muninum á leikurunum í Rocky Horror 1975 og 2016, meira að segja hinn fimmtugi Páll Óskar er ábyggilega í betra formi en hinn 29 ára Tim Curry) þá voru konur samt alveg jafn alls konar í laginu þá og nú, og þótt karlar séu heilt yfir sennilega kubbslegri, þá hef ég líka þekkt fullt af kubbslegum konum í gegnum tíðina.

Hitt sem sló mig er að gagnrýnandinn kallar Elviru/Erwin alveg umbúðalaust skrímsli. Það sló mig vegna þess að ég hafði velt því fyrir mér sérstaklega á meðan ég horfði á myndina hvort hán væri presenterað sem slíkt og komist að öndverðri niðurstöðu. Hán er vissulega kaos og jafnvel úrhrak – en úrhrak er maður fyrir sakir þess að aðrir sjá mann sem skrímsli, ekki vegna þess að maður sé skrímsli í eðli sínu eða ákvörðunum. Hán er fórnarlamb nær óskiljanlegrar hvatvísi, sennilega ástsjúkt og bælt og guð veit ekki hvað – en hán er samt ekki skrímsli og (að mínu afar faglega mati) ekki heldur geðsjúklingur af neinu tagi, heldur bara þjáð. Þá verður skrímslaeinkunnin enn óskiljanlegri þegar tekið er tillit til þess að kvikmyndin er viðbragð við sjálfsmorði eins af elskhugum Fassbinders, Armins Meiers, sem mun hafa drepið sig eftir að honum var ekki boðið í 33 ára afmæli meistarans.

Myndin er meistaraverk og sympatísk – en ég veit ekki hvort það er hægt að tala um að hún fjalli beinlínis um trans eða kyn, nema sem aukabúgrein sorgarinnar og líkamans. Elvira/Erwin er fyrst og fremst samkynhneigður karlmaður – hán kaupir sér kynlíf klætt einsog karl vegna þess að þá skammast hán sín síður, háni finnst það eðlilegra – sem tók mjög afdrifaríka og örvæntingarfulla ákvörðun. „One way ticket“ sagði alltaf læknirinn heimildamyndinni Made in Bangkok, sem ég horfði á um daginn – það er að vísu ekki alveg satt, en það er sama. Kynskipti – og þetta hljóta að teljast kynskipti frekar en nokkur „leiðrétting“ – eru ekki fullkomlega óafturkræf en maður snýr aldrei aftur í sama líkama og maður yfirgaf. Þá er erfiðara að búa til limi en píkur, skilst mér.

Hún spyr samt auðvitað að kyni. Ég t.d. veit ekkert hvað ég á að segja um kyn háns. Það kemur heldur hvergi beinlínis fram að hán vilji ekki vera kona – ekki frá hán að minnsta kosti, þótt aðrar sögupersónur ræði það. Rote Zore neitar t.d. þeirri kenningu vinar síns að Elvira/Erwin hafi alltaf verið kona innra með sér. Verður maður kona bara fyrir að vera með píku? Verður maður trans bara fyrir það að skipta um líkamskyn? Ég bara veit það ekki. En það þarf svo sem ekki að vera hægt að svara öllum spurningum heldur.

En myndin fjallar fyrst og fremst um örvæntingu og sorg og einmanaleik – og, einsog margir hafa sosum bent á, fjallar hún líka um sálarlífið í eftirstríðs Þýskalandi (einsog næstum allt sem gerðist þar í fimmtíu ár). Um eftirköst helfararinnar í lífi gerendanna, að vera úrhrak meðal þjóða, um klofna þjóð, um frið og stríð og kaos og kreppta hnefa, grátur og gnístran tanna.

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png