Untitled

Föstudagsmyndin, sem í dag var á laugardegi, var kvikmyndin Barnyard – Bondegården, heitir hún á sænsku, sem er tungumálið sem við horfðum á hana á (börnin mín eru tvítyngd). Aðalsöguhetjan í Bondegården er beljan Otis. Otis er ekki kvenbelja – hann er karlbelja. En samt ekki naut. Einsog sjá má á myndinni er hann með júgur. Þetta varð okkur Aram að tilefni til þess að ræða stuttlega – en þó – hvað það sé að vera intersex.

Ein þeirra athugasemda sem stundum eru gerðar við sögur sem sagðar eru af minnihlutahópum – eða jafnvel meirihlutahópum, ef þeir eru ekki í kastljósinu og ekki jafn „hreinn strigi“ og við „hvítu fullfæru heilsuhraustu vesturlensku sísheterókarlmennirnir í efri-millistétt eða ofar, á miðjum aldri eða neðar“ – er að sögurnar um einstaklinga sem tilheyra þeim hópum snúist bara um þau ídentítet. Þið fattið – saga af homma er bara hommasaga, saga af konu er konusaga o.s.frv. Saga af pípara er saga af hvítum síshet […] eða neðar sem auk þess er pípari. Ef maður er sögupersóna fær maður bara eitt ídentítet sem maður getur svo smurt ofan á grunnformið, sem er þessi þarna svokallaði hreini strigi. Hvers vegna, spyrja sumir, er ekki bara sögð saga af homma/konu/innflytjanda þar sem ídentítetið er aukaatriði – kemur ekki einu sinni upp. Ég sá þessu fagnað í umsögn um einhverja sci-fi bók nýlega – þar kemur í ljós um miðja bók að einhver „kona“ pissar standandi og sá sem tekur eftir því bara ypptir öxlum og segir „já einmitt“ og svo kemur það ekki frekar við sögu.

En sagan af Otis – sem er raunar arfaslæm, þetta var mjög leiðinleg mynd og ef Aino væri ekki bara fjögurra ára hefði ég átt erfiðara með að fyrirgefa henni fyrir að láta mig sitja undir henni – er einmitt saga þar sem þetta intersex eða kynsegin ídentítet er (nærri því) algerlega látið vera. Sagan af Otis fjallar um allt annað en það hvers vegna hann (og fósturpabbi hans, og raunar sonur líka í lokin) er með júgur eða hvað það þýði í félagslegu samhengi bóndabæjarins.

Höfundurinn hefur látið hafa eftir sér að þetta sé merkingarlaust. Honum hafi bara fundist júgur fyndin – börn þekkja beljur, þær eru með júgur, fyrir börnum eru naut önnur dýrategund, segir hann. En á einum stað sitja þeir nú samt saman Otis og Ben, pabbi hans, og horfa á stjörnur. Ben rifjar upp við Otis að einu sinni hafi hann oft setið þarna með systur hans og horft á þessar sömu stjörnur. „En ég á enga systur“, segir Otis. „Nú, þá hlýtur það að hafa verið þú“, segir pabbinn. Og þeir hlæja dátt.

Svona getur nú sköpunarverkið oft verið gáfaðra en höfundur þess. (Það var fyrst og fremst allt annað við þessa mynd sem var leiðinlegt, nema kannski 90’s retróið, og kannski var ég bara illa upplagður, ég tek þetta allt til baka þetta var áreiðanlega fín mynd).

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png