Untitled

Stilla úr Desperate Living (1977), John Waters, ásamt broti úr handriti. Glímukempan Mole McHenry, sem nýverið hefur skipt um kyn vegna þess að hún taldi ranglega að ástkona hennar vildi heldur að hún væri karlmaður, heldur um byssuna. Rassinn er í eigu Peggy Gravel, fyrrum taugaveiklaðrar húsmóður sem nú er orðinn næstráðandi drottningar. Það er Peggy sem segir orðin vinstra megin á myndinni skömmu áður en Mole hleypir af. 

***

Transgressjón er eitt og perversjón er annað.

Perversjón er eitt og frávikshegðun er annað.

Og samt hangir þetta að einhverju leyti á sömu spýtunni.

Sá sem brýtur á siðferðislegum reglum samfélagsins – réttlátum eða ranglátum – gerir það, eðlilega, annað hvort vegna þess að hán vill það eða hán þarf þess. Viljinn og nauðsynin eru svo ekki algerlega aðskild; viljinn getur verið óumflýjanlegur – þörfin nauðsyn.

Siðferðisreglur samfélagsins eru settar til þess að viðhalda almennri röð og reglu, eða í það minnsta tilfinningunni að það sé allt í lagi. Til þess að viðhalda kerfum sem við búum til, til þess að finnast einsog við skiljum heiminn og/eða höfum á honum nokkra stjórn. Frávikin – allt frá því að byrja á vitlausum gaffli í matarboði og upp úr – eru ill einfaldlega vegna þess að þau eru frávik (frá normi sem er auðvitað skáldskapur, en samt rökmiðja). En ekki t.d. vegna þess að það skipti praktísku eða eðlislægu máli með hvaða gaffli maður borðar hvaða rétt. Þá eru þessi kerfi ekki alls staðar eins – New York búum finnst, svo dæmi sé tekið, barbarismi að borða pizzu með hníf og gaffli, og skiptir engu máli hvaða gaffli á meðan það er ekki guðsgaffallinn, hinn eini sanni gaffall.

Frá örófi alda, reikna ég með, hefur það svo verið í boði að segja sig frá hinu stífa, óttaslegna kerfi, segja sig frá röð og reglu, og gerast utangarðsmaður. Utangarðsmaðurinn segir sig ekki bara frá skyldum sínum – hættir að taka þátt í smáborgaraskapnum, gafflasamsærinu – heldur missir hann þá samtímis rétt sinn til hins örugga faðms. Honum er kannski boðið í mat á páskadag – vegna þess að hollustan við klanið er hluti af lykilgildum smáborgaralega samfélagsins – en mæti hann fylgir því eins konar skírn og tímabundin endurreisn gildanna, áminning um hvar gafflarnir eiga að vera („mætirðu svona klæddur?“ „á nú ekkert að fara að festa ráð sitt/koma með kríli?“ o.s.frv.). Hvort öryggi samfélagsins stendur nokkur ógn af frávikshegðuninni er hugsanlega aukaatriði; ógn þarf ekki að vera raunveruleg, hún er viðbragð sem byggir á öryggisleysi sem orsakast af upplausn.

Þessari smáborgarahegðun er ýmist mætt með semingi – og svo kvabbi við vini þegar heim er komið, þegar maður er kominn aftur í sinn eigin samfélagssáttmála (því flestir finna sér bara nýjan sáttmála með nýjum siðferðisviðmiðum og nýju fólki) – eða skætingi, ákafri undirstrikun á afstöðu sinni, hugsanlega til þess að reyna að endurmóta veruleikann sem maður yfirgaf. Svo þar verði lifandi á ný? Og maður geti snúið aftur? Eða bara af einhverjum prinsippástæðum?

God knows.

Aðrir utangarðsmenn eru svo þeir sem ætla sér ekki að vera utangarðs en er vísað út þvert á vilja sinn – vegna þess að eitthvað skilur þá að, sem þeir fá ekki ráðið við, eða vegna þess að gamlar syndir fyrnast ekki og fyrirgefast ekki – en þeir bregðast líka, eðlilega finnst mér, oft við með því að segja móralistunum bara að fokka sér. Og lenda þar með líka í fyrri flokknum – þau fara öll á sama barinn að kvöldi dags og drekkja sama harminum.  Sumu utangarðsfólki er reyndar sérstaklega annt um að viðhalda félagslegum stöðugleika í kringum sig, viðhalda sinni heild.

Og þetta móralska yfirvald, þessi veifandi fingur, getur fyrirfundist hvar sem er – veröldin er ofin saman úr hópum sem fara með og takast á um þetta vald og reglur þeirra allra eru mistilgangslausar og mismikilvægar og þeim stendur öllum gríðarlega mikil ógn af öllu andófi. Leysist siðferðið upp hættir hópurinn að vera sá sem hann er – þá losna vinatengslin, hverfur ástin, virðingin og svo framvegis. Annað hvert tvít sem ég les er innlegg í umræðuna um hvað sé eðlilegt að finnast, segja eða gera – einhvers konar metasamræða, eitthvað siðferðislegt mat á öðrum eða bending um hvað almennilegu fólki eigi að finnast, árétting til annarra um að haga sér vel. Um að vera woke.

Ég las einhvers staðar nýlega reyndar að þetta orð – woke – sem er ýmist notað til að lýsa einhverjum sem er með samtímann á hreinu, eða í kaldhæðni um einhvern sem virðist halda að hann sé með samtímann á hreinu – sennilega sambærilegt við að vera hip á pre-hippatímanum, vera með á nótunum, uppljómaður og beat – væri lýsandi fyrir póst-pólitískan veruleika ídentítetspólitíkurinnar (þar sem orðið er í mestri notkun). Að sterkasta pólitíska lýsingarorðið núorðið væri beinlínis að hafa orðið fyrir vakningu. Og það væri trúarlegt – og viðkomandi taldi hið trúarlega vera andsnúið hinu pólitíska. Í hinu pólitíska er alltaf samræða, í hinu trúarlega er bara sannfæring. Femínistum er svo tamt að tala um „gleraugu“ – að sjá heiminn upp á nýtt – og andfemínistar eru með rauðu pilluna úr Matrix á heilanum, sem þjónar sama tilgangi. Vakningin er alfa og omega pólitískrar samræðu.

Það sem ég vildi sennilega sagt hafa: Það eru ekki allir á sömu fíkniefnunum í þessu partíi og væri ágætt að hafa það í huga þegar við veljum næsta lag.

***

Annars finnst mér tímanna tákn að Björk Guðmundsdóttur finnist framlag sitt til íslenskrar tónlistar vanmetið, einsog kom fram á RÚV í gær. Í senn segir það eitthvað um hlutskipti listamannsins – sem er alltaf hungraður, alltaf sveltur – og eitthvað um samtímann þar sem maður hreinlega nær ekki máli nema maður rammi það inn sem sjálfsvorkunn. Ég fullyrði þetta: Það hefur aldrei verið listamaður á Íslandi sem er jafn mikils metinn og Björk Guðmundsdóttir, og verður aldrei – það er ekki hægt að mynda um snilligáfu sína meiri konsensus en Björk hefur verðskuldað myndað um sína.

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png