Untitled

Á finnsku tilgreinir maður ekki kyn með persónufornafni. Hann og hún er sama orðið – hän. Á sænsku var orðið hen tekið upp í Orðabók sænsku akademíunnar fyrir þremur árum, en það var fyrst stungið upp á því árið 1966, með vísan til finnskunnar, sem stendur sænskunni menningarlega nærri þótt tungumálið sé óskylt.

Orðið hen er orðið fremur algengt í sænsku og því bregður fyrir í flestum stóru dagblöðunum, a.m.k. annað veifið, en þá sjaldnar einsog hán á íslensku – hán er, enn sem komið er a.m.k., fyrst og fremst notað yfir kynseginfólk, á meðan hen er fyrst og fremst notað sem kynhlutlaust persónufornafn. Ef mig langar ekki að gefa upp kyn einstaklings – t.d. leynilegs heimildarmanns – þá vísa ég til hans (einstaklingsins) sem hen. Þetta er að því leytinu til auðveldara á sænsku að nafnorð eru almennt ekki kynjuð. Á íslensku er manneskja hún, vegfarandi er hann, fólk er það o.s.frv. Á sænsku getur människa verið han, hon, hen eða den.

Hen er sannarlega líka notað til þess að vísa til kynseginfólks. Ég velti því fyrir mér hvort það sé vandamál á finnsku að geta ekki vísað til einstaklinga sem karlkyns, kvenkyns eða kynsegin. Það getur vel verið – það er oft ástæða til þess að hafa flokkana frekar en að flokka bara alla sem „manneskjur“ (út á það gengur ídentítetspólitíkin, að undirstrika, gera áberandi, svo fordómarnir verði jafn áberandi út á við og þeir eru inn á við). Þegar það er ekkert hann, hún, hán – ekkert box – getur verið erfitt að orða hlutina rétt. Öll orð eru í senn heftandi og frelsandi.

***

Hán er alla jafna beygt einsog lán.

  1. Hán

  2. um hán

  3. frá háni

  4. til háns

– og hefur þannig hvorugkynsblæ.

Hans Blær beygir orðið eftir eigin sérvisku í báðar áttir, fylgir kven- og karlbeygingu.

  1. Hán (eins hann eða hún)

  2. um hána (einsog hana)

  3. frá hánum (einsog honum)

  4. til hánar (einsog hennar).

Þetta gerir hán meðal annars til þess að skilja sig frá kynseginsamfélaginu en líka til þess að undirstrika að hán er ekki hvorugt heldur bæði – eða öllu heldur, stundum eitt, stundum annað, og oft allt í senn.

***

Hán hefur svo auðvitað afleiðingar út í allt beygingarkerfið, sem hen gerir ekki. Hann er glaður, hún er glöð og hán er glatt; en hen/han/hon är bara glad. Mér finnst þetta skemmtilegt, af því mér finnst tungumálið skemmtilegt og vegna þess að mér finnst fjölbreytni skemmtileg, en það verður sennilega mikill klaufaskapur í kringum þetta fyrstu árin og áratugina – að því gefnu að það komist í almenna notkun. Ég held það sé sennilegra að notkunin verði almenn ef því verður beitt meira einsog í sænsku, því jafnvel í kynseginsamfélaginu (sem er ekkert æðislega stórt, þótt það sé stærra en margir halda) er minnihluti sem kýs að nota það. Orðið kemur þannig fyrir í Óratorreki þar sem vísað er til persónugerðs eldislax – og svo er það í Hans Blævi auðvitað (yfirleitt til að vísa til Hans Blævar en líka á stöku stað í hlutlausa skilningnum).

***

Ég sá í dag einhvers staðar að … stúdentaráð? … hefði verið að skipta út ýmsum heitum. Þar fór sennilega mest fyrir því að orðinu maður væri skipt út í samsetningum einsog formaður. Það held ég reyndar að mörgum konum ofbjóði að vera sagt að þær séu ekki menn – átökin um merkinguna þar er, spái ég, langt í frá lokið (mér finnst báðir hafa nokkuð til síns máls en er annars afstöðulaus, sem er slæmt því það veldur klaufagangi í máli mínu). Hins vegar sló mig að orðinu formennska væri skipt út fyrir forsæti. Það er ansi grófgerður skilningur á orðinu mennska að það eigi ekki við um konur – þær séu hreint út sagt ekki mennskar.

Tungumálið er auðvitað gegnsýrt af þeim skilningi að maður og afleidd orð eigi við um allt fólk. Börn eru þannig mennsk, jafnt þótt skilningur manns sé sá að drengir séu ekki orðnir menn. Við tölum um mannlegt eðlimannúð, kvenmenn og ég held ég fari með rétt mál að orðin menning þýði það sem menn gera og menntun að gera einhvern að manni.

Ef konur eru ekki mennskar – eða skilningur okkar er sá að einungis karlmenn geti gegn formennsku – þá þarf ansi mikla hreinsun í tungumálinu (kæri maður sig um að gæta samræmis, sem er svo auðvitað alls ekkert víst).

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png