Untitled

Í gær var ég kynnir í Norræna húsinu, þar sem Ásta Fanney, Lommi, Haukur I og Fríða Ísberg komu fram. Ég gisti svo hjá Hauki og eyddi deginum í að leita að Pokemonum í Reykjavík. Í þrjá tíma þrammaði ég um í rigningunni einn með frekar þráhyggjukenndum hugsunum mínum án þess að finna Pokemonana sem ég var að leita að. Svo skæpaði ég við son minn sem útskýrði fyrir mér hvaða Pokemon hann vildi þá fá í staðinn fyrst hinir voru ekki til. Hann verður sjálfsagt ekki síður glaður að vita að einn af þeim sem afgreiddu mig í Nexus var Jón Geir Jóhannsson, ísfirðingur og trymbill Skálmaldar, þótt mér verði kannski ekki fyrirgefið að hafa ekki fengið hjá honum eiginhandaráritun.

***

Kannski er ég hættur að gítarblogga. Ég gæti samt viljað gera einhvern pedalasamanburð hérna bráðum. Ég er svolítið farinn að spila meira aftur á hina gítarana mína. Það er mjög undarlegt hvernig einn gítar getur inspírerað mann mjög mikið einn daginn og verið í algeru uppáhaldi til þess eins að deyja í höndunum á manni þann næsta. Nú er ég mikið að taka í Telecasterinn – djásnið. Ég spila ábyggilega hátt í klukkutíma á dag – að meðaltali – og nýt þess mikið. Oftast er það bara glamur – ég að elta einhverja hljóma og æfa spuna, það er mjög hugleiðandi, róandi.

***

Gærkvöldið leystist upp í annars vegar einlægni vs. kaldhæðni ruglið og hins vegar stelpur vs. strákar ruglið. Hvorutveggja er lúið.

Ég meina samtalið á sviðinu í Norræna húsinu. Ég var eitthvað að reyna að spyrja þau hvernig þau teldu straumana í íslenskri ljóðlist hafa breyst síðustu 15 árin og vakti upp gamlan draug. Niðurstaðan er líka alltaf sú sama – kaldhæðni og einlægni eru alls engar mótsagnir og við erum að smætta sjálf okkur skáldskap hvers annars með því að láta einsog þau séu það.

Hins vegar virðist fólk lítið flækja fyrir sér kynjapælingarnar. Fólk talar alveg hindrunarlaust um „bækur eftir konur“ eða „bækur eftir karla“ einsog það séu skýr hugtök með skýra fagurfræði á bakvið sig og reynsla kvenna og karla tilheyri ólíkum heimum. Það finnst mér í besta falli mikið overstatement – en það er líka mjög algengt overstatement og sennilega þægilegur staður til að taka afstöðu út frá. Ég veit samt ekki hvort það er einhver slagur sem mig langar að taka.

Upplestrarnir voru frábærir.

***

Í vikunni var ég eitthvað að hugsa um muninn á bókmenningu á Íslandi og í Frakklandi – þar sem ég þekki ekki mikið til en samt pínu. Upplifun mín á bókafólki í Frakklandi er að það sé stöðugt að ýta að manni einhverjum obskúr bókum sem maður hefur aldrei heyrt minnst á – það sé beinlínis kúltúrkapítal í því að vera alltaf með eitthvað óþekkt á vörunum. Á meðan að íslenskt bókafólk spyr alltaf hvort maður sé búinn að lesa bókina sem allir eru búnir að lesa. Þannig verður til sameiginlegt samtal um nokkrar (vinsælar) bækur á Íslandi en í Frakklandi verður samræðan alltaf um eitthvað nýtt og óþekkt. Hvorutveggja hefur sína kosti.

***

Það slær mig annars að ein ástæða þess að við lendum svo oft í að ræða þessi óskýru box – nýhil og partus og einlægni og kaldhæðni og strákar og stelpur o.s.frv. – sé sú að það er ekkert skrifað um íslenska ljóðlist. Það eru bókstaflega engar ritgerðir til um Nýhil eða Partus eða fagurfræði í ljóðlist síðustu 20-30 árin – sem margir virðast engu að síður álíta mjög frjóan tíma í íslenskri ljóðagerð. Það er lítið skrifað af krítík – lítil afstaða, sérstaklega allra síðustu árin – en það er líka bara mjög lítið skrifað uppi í háskóla um nokkra einustu ljóðlist og alls ekki þessa. Það er svo lítið búið að flækja og greina málin – og allt endar í einföldun. Nýhil verður kaldhæðin andfeminísk pulsuveisla þrátt fyrir skáldskap Kristínar Eiríksdóttur eða Þórdísar Björnsdóttur og Meðgönguljóð verður feminín einlægniverksmiðja þrátt fyrir skáldskap Ástu Fanneyjar – nú eða Bergs Ebba.

Mér fannst samræðurnar samt skemmtilegar. Mér finnst samræður eiginlega alltaf skemmtilegar – og held að vandamál þeirra sé frekar að þær séu of sjaldséðar (og við öll of óvön því að setja okkur í þessar stellingar, svara fyrir okkur, skilgreina okkur inn og út úr hvert öðru, átakafeimin) frekar en að það sé of mikið af þeim. Og fjórmenningarnir þarna – og fólkið úti í sal, sem tók virkan þátt í þessu – eru ekki beinlínis neinir vitleysingar, þvert á móti. En ég kann ekkert að stýra umræðum – hef aldrei gert þetta áður og lætur það ekki vel.

***

Ég fékk uppgjör fyrir Hans Blævi. Hún seldist bókstaflega ekki rassgat. Helmingi minna en minnst selda skáldsagan mín til þessa. Ég skulda forlaginu pening, en ekki öfugt. Ég veit ekki alveg hvers vegna ég er að þessu.

***

Hluta af mér langar að skrifa tvær bækur á ári – fara í einhvern Cesar Aira pakka og bara skrifa og skrifa og skrifa – og annar hluti vill bara fara og læra bókfærslu eða eitthvað gagnlegt sem maður fær tryggar tekjur fyrir, lesa ljóð eftir vinnu og láta annars skeika að sköpuðu. Ég er langt kominn með nýja skáldsögu og gæti alveg skrifað tvær í ár ef ég bara sleppti því að líta upp. Og ég gæti bara hætt að skrifa á morgun.

***

Annars er ég líka bara ógeðslega þreyttur. Ég svaf mjög lítið í fyrrinótt – áður en ég kom suður – og ráfaði einhvern veginn bara um í dag, einsog draugur í borginni. Hausinn á mér er gatasigti. Þegar ég kem heim ætla ég í bað og ég ætla ekki upp úr því fyrren í fyrsta lagi á sunnudag.

***

Nú styttist í flugið.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png