Untitled

Það er frétt um það í Stundinni í dag að ungur Ísfirðingur, Stefan Octavian Gheorge, sem hefur getið sér gott orð fyrir leik í kynferðislegum vinjettum samkynhneigðra – svonefndum hommaklámmyndum – hafi mætt í tíma í Menntaskólanum á Ísafirði til þess að ræða kynheilbrigði. Honum var ekki boðið til að ræða starf sitt heldur upplifun sína af að vera samkynhneigður ættleiddur drengur á Ísafirði. Að sögn nefndi hann starf sitt en það kom að öðru leyti ekki til umræðu.

Það er svolítill vandlætingarfnykur af fréttinni, einsog svo mörgu sem skrifað er á Stundinni, en keyrir svo sem ekkert um þverbak. Kennarinn fær nægt rými til að útskýra hvað átti sér stað í raun og veru þótt áhersla í fyrirsögnum og myndefni sé sensasjónalísk. Ekki er rætt við Stefan sjálfan og maður fær það á tilfinninguna að blaðamanni og/eða ritstjóra, einsog athugasemdakórnum, finnist ekki við hæfi að hann hafi rödd – að við hann sé rætt – og ekki einu sinni kennarinn sem bauð honum kærir sig um að leyfa krökkunum að ræða við hann um hvað sem er. Þeim er ekki treyst til að takast á við hugmyndina um starf hans eða sjónarhorn hans á þetta starf.

DV hefur farið alveg hina leiðina og lagt ofuráherslu á það sem mætti kannski kalla hægri-sensasjónalisma – það er Daily Mirror súpum-saman-hveljur stíllinn. Bæði er í grunninn íhaldssamt og niðrandi. Í báðum tilvikum er manneskjan gerð að farartæki fyrir eitthvað annað en sjálfa sig eða eigin boðskap; hún er verkfæri til að koma mórölskum boðskap á framfæri. Í grunninn er það sami boðskapur beggja vegna borðsins – sjáið hvað þetta er óheilbrigt og ógeðslegt. Stundin dulbýr það sem umhyggju fyrir börnunum – eða jafnvel samfélagsmóralnum – en DV sem umhyggju fyrir frjálslyndi og áhugasviði lesenda sinna (smellunum).

Hvorugt er algerlega úr lausu lofti gripið – klámiðnaðurinn er (oft á tíðum a.m.k.) kúgandi, en á sama tíma brjóstvörn frjálslyndis og (margra) kynferðisbyltinga (Playboy var t.d. fyrsta alþjóðlega tímaritið til að birta myndir af trans (og intersex) konu – Caroline Cossey, 1991). Það er hins vegar ekki laust við að manni finnist allir bara vera að leika sitt hlutverk í sirkusnum – það sæki enginn á djúpið, vilji enginn takast á við óþægindi margbreytileikans – nema kannski Stefan og að einhverju leyti kennarinn í MÍ. Stundin bara sussar og DV básúnar einhverri afmyndaðri glansmynd 4theclickz.

Mestu skiptir þegar fólk lendir í þessum sirkus – fyrir augliti fjölmiðla – að einhver ræði við það (sjálft) af einlægni og heiðarleik. Opinberlega. Að það sé ekki gert að trúðum eða útskiptanlegum staðgenglum í einhverjum mórölskum skylmingum. Í þetta skiptið sýnist mér Stefan ekki verða fyrir mestum fordómum vegna kynhneigðar sinnar eða líffræðilegs ætternis, þótt það hafi afar líklega verið þungbært líka, heldur vegna starfs síns í kynlífsiðnaðinum.

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png