top of page

Untitled

Ég er nýbúinn að átta mig á því að það er alger óþarfi að skrifa dagsetninguna í bloggfyrirsögn – hún birtist sjálfkrafa. Ég hef verið blindur á þetta hingað til.

Bloggið er dautt, lengi lifi bloggið. Meira að segja orðið „blogg“ hljómar núorðið einsog eitthvað úr forneskju – einsog gufuvél, vídjótæki, túbusjónvarp (reyndar var orðið túbusjónvarp varla til fyrren flatskjáirnir komu og svo úreldu þau hvort annað – nú eru aftur bara sjónvörp).

Það er furðu frelsandi að skrifa á vettvang sem enginn les. Og furðu letjandi. Svona blanda af báðu. Með vettvangnum – og yfirtöku hinna knöppu samhengislitlu félagsmiðla – hvarf líka þolinmæðin af internetinu. Ég spáði því á sínum tíma að það yrði alveg öfugt – að plássleysi blaðanna hefði haldið aftur af okkur og eðli internetsins væri hið langa og ítarlega, allt þetta ótrúlega andrými – en í dag er öll hugsun sett fram í örstuttum sándbætum. Hækan vann og hún er hvorki hölt né með hækju – en hún er rosalega bundin af því að vera „sniðug“. Við búum við einræði sniðugheitanna og það trompar ekkert nema einræði hinnar afhjúpandi einlægni, einræði trámans.

En þetta er sem sagt gufuvélin mín og stundum gleymi ég að sinna henni. Vandamálið við dagbækur er að maður hefur yfirleitt ekki tíma til að sinna þeim nema þegar ekkert er að gerast. Síðustu vikurnar hafa verið mjög viðburðarríkar – og raunar hefur tíminn frá því snemma í vor verið frekar bilaður. Ég veit ekki hvað ég nenni að rekja það – það væri eldsneyti á einræði trámans – en ég er allur frekar eftir mig og lúinn í leit að hugarró.

Líf mitt snýst reyndar mikið um leit að hugarró. Fertugsaldurinn. Ég veit ekki hvernig það gerðist. Lengi vel leitaði ég kannski mest að einhvers konar hugar-óró – en það gerir maður ekki nema maður hafi efni á því, ekki nema maður sé stöðugur og treysti því að ef maður falli þá geti maður staðið aftur á fætur.

En hvað er þá annað í fréttum? Eftir alls konar moj og vesen hefur Illska loksins fundið sér heimili á hinum enskumælandi markaði hjá forlaginu sem sýndi henni fyrst áhuga – Dalkey Archive, sem gefur meðal annars út Svetlönu Alekseivitsj og Jacques Roubaud – og auk þess mun hún koma út í Grikklandi hjá Ekdoseis Polis (sem gefur m.a. út Modiano og Roth) og í Króatíu hjá Oceanmore (sem er með Knausgaard, Hertu Müller o.fl). Heimska kemur á sænsku hjá Rámus í haust og frönsku hjá Metailie í byrjun næsta árs.

Það eru forsetakosningar. Ég kaus Andra Snæ – held samt líka með Elísabetu – og svo vinnur Guðni. Það er EM, ég held með „Íslandi Lars Lagerbäck“ einsog það heitir hér í Svíþjóð og myndi kjósa þá áfram en finn ekki rétta símanúmerið. Finnst sennilegt að ég horfi mikið á fótbolta á morgun og mikið á kosningasjónvarp Stundarinnar í kvöld (ef það er ekki læst þeim sem eru ekki með Facebookreikning, sem gæti verið).

Ég fór í viðtal við Linh Dinh – sem birtist hér og þar en meðal annars á vefnum UNZ. Þar eru kommentin með því rosalegra sem ég hef séð. Við vorum að tala um Ísland og pólitík og Linh spurði mig aðeins út í Bobby Fischer og þess vegna snúast kommentin öll um gyðingasamsærið. Já og svo er eitthvað þarna líka um að íslenskar konur séu jafn fallegar og raun ber vitni vegna þess að víkingarnir hafi nauðgað svo mikið af írskum þrælum. Og þar fram eftir götunum.

Ég er í Västerås. Fer til Helsinki í byrjun næstu viku. Svo um borð í Crowd-skáldarútuna sem hefur verið á ferð um Evrópu síðustu vikurnar – byrjaði leikinn í Helsinki en ég verð um borð á leggnum Istanbul-Þessalónika. Svo aftur til Västerås og verð hér þar til í byrjun ágúst – þá kenni ég í Biskops-Arnö og sný að því loknu heim til Ísafjarðar. Loksins.

Ég er að reyna að vinna í Ljóðum um samfélagsleg málefni. Er með skáldsögu í heilaskúffunni – á einhverjar blaðsíður og gróft konsept – en það er allt bara að gerjast og súrna í bili.

Ég skal svo reyna að vera duglegri að láta í mér heyra.

0 views0 comments

Recent Posts

See All

Fúsk

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page