Untitled

Lyklaborðið á tölvunni er sjóðandi heitt af sólinni sem skín innum gluggann. Það er eitthvað ríflega 25 stiga hiti. Og mér svíður í fingurgóma vinstri handar af að slá á lyklaborðið vegna þess að í gær spilaði ég svo mikið á gítar. Mikið verandi tæp klukkustund, kannski. Í gítarbúð, sem sagt – prófaði tæplega þúsund skepnur. Einu sinni var ég með sigg á fingrunum – þegar ég spilaði á gítar og vann í rækjuverksmiðju. Ég hætti báðu um svipað leyti, þegar ég hugsa út í það, og byrjaði líka um svipað leyti. Frá 12 til 21 árs. Og nú er ég bara með lúserafingurgóma. Ljóðskáldafingur.

Ég ætla að taka næturlestina til Malmö og heimsækja Per vin minn og kaupa mér rafmagnsgítar. Líklega verður það Epiphone SG en ég ætla að prófa allt sem ég kemst í og hef efni á. Síðast átti ég Ibanez Joe Satriani, rjómahvítan. Mest langar mig í Italia Maranello 61 – eða Speedster – en ég hef ekki efni á þeim. Og Epiphoninn er ekki beinlínis leiðinlegur.

Það kemst sem sagt eiginlega ekkert annað að í hugsunum mínum. Miðaldrakrísan, ha? Ég get þó alltaf huggað mig að vera ekki sprangandi um í leðurjakka, einsog sumir. En ég ætla að pikka upp alla Appetite for Destruction plötuna. Í dag eru einmitt liðin 29 ár frá því að hún kom út.

Annars er ég frekar andlaus eitthvað að tittlingast í nokkrum ljóðum. N&A&A fóru til Rejmyre í dag. Ég er að ganga frá í íbúðinni og búa mig undir næturlestina. Og gítarkaup. Og sánabað með Per og Mats, bjórdrykkju, mat og svo framvegis í Malmö.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png