Untitled

Ég er eins konar kóngur og eins konar asnaeyru. Við allt sem ég snerti festir sig líka sú nánd sem móðir og barn nota til að halda lífi hvort í öðru.
(Jag är en sorts kung och en sorts åsneöron. Vid allt som jag berör klamrar sig också den närhet fast með vilken mor och barn håller liv i varandra)

Henriikka Tavi – úr Toivo/Hoppet í sænskri þýðingu Henriku Ringbom.

Byrjaði daginn á að festast í sænskum debatt um hið pólitískt rétta og hið pólitískt ranga. Nú snýst það um Bókamessuna í Gautaborg, sem verður haldin í lok september. Á messugólfinu má gjarna finna bása frá hinum ýmsustu tímaritum – og þar eru t.d. veitt verðlaun fyrir tímarit ársins. Í ár bættist í selskapinn öfgahægriblaðið Nya Tider – sem eru eins konar teboðsfasistar. Í fyrstu varði Bok & Bibliotek þá ákvörðun að hleypa þeim inn, en þegar þrýstingurinn varð of mikill var Nya Tider rekið út aftur.

Einhvern veginn er þetta að verða mjög týpískur gjörningur í sænsku menningarlífi. Sumir segja að Bok & Bibliotek eigi að sýna meiri prinsippfestu – ef þau standi með málfrelsinu þá geti það ekki bara verið þegar málfrelsinu er ekki ógnað – og aðrir segja fullkomlega eðlilegt, í raun réttri afar lýðræðislegt, að fólkið í samfélaginu hafi eitthvað um það að segja hvað sé fært á svið, hvað fái athygli og hvað ekki. Og ekki sem sagt bara fyrirtækið.

Einhverjum hluta af mér – þeim hluta sem er vanur að sækja heim þetta þunglyndislega messugólf – finnst leitt að Nya Tider sé ekki með. Því það hefði þá í öllu falli fært messugólfinu dálítið meiri dramatíska dýpt. Tímaritið hefði aldrei fengið að vera í friði. Og vera þeirra á staðnum hefði hugsanlega gert að verkum að málefnin hefðu endað í fókus – einsog þegar Ungverjaland var gestaland og lýðræði og málfrelsi var sett í fókus – bæði á opinberri dagskrá sem og óopinberri.

Hins vegar finnst mér prinsippleysi markaðarins vera mjög próblematískt – að mikilvægir lykilaðilar í menningarlífinu láti stjórnast af því sem í grunninn er markaðslögmálið, þ.e.a.s. duttlungum neytandans – eða PR-fulltrúans, skaðastjórnandans – frekar en að standa og falla með ákvörðunum sínum vegna þess að þær séu einfaldlega réttar. Ég er ekki viss um að mér hugnist meirihlutaræðið – það er a.m.k. ekki svo einfalt að það leiði ævinlega til réttrar niðurstöðu. Ég þreytist ekki á að minna á að vandamálið við helförina hafi ekki verið að hún fór hvorki í þjóðaratkvæðisgreiðslu né grenndarkynningu – hún var framkvæmd af til þess bærum, réttkjörnum yfirvöldum, sem stýrðu ríkinu (og tóku og héldu völdum) í samræmi við gildandi lög.

Og í þriðja lagi, í mótsögn við allt hitt, finnst mér ekki að stórfyrirtæki eigi að ráða því hverjir teljast vera í húsum hæfir. Eða hverjir ekki. Því það eru augljóslega alltaf einhverjir sem eru einfaldlega ekki í húsum hæfir – þetta er bara spurning um hvar grensan liggur. Kannski er eðlilegast að þetta ráðist einfaldlega í einhverjum svona átökum.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png