Untitled

sagðar eru blikur á lofti að blóðkreppa auðvaldsins fari land úr landi einsog krabbamein

úr Dáinsheimur eftir Birgi Svan Símonarson.

Ég las fyrst að blóðkreppa auðvaldsins færi úr landi. Frekar en land úr landi. Og svei mér þá ef mér finnst mislesturinn minn ekki betri. Myndin er að vísu illskiljanlegri þannig – en líka áhugaverðari. Að fara úr landi einsog krabbamein. Annars er líka undarlegt að blóðkreppa fari um einsog krabbamein. En skemmtilegt. Eða, þú veist, ekki skemmtilegt – en línan er áhugaverð.

Ég sendi frá mér þýðinguna á Hvítsvítu Athenu Farrokhzad í morgun. Í síðasta sinn. Og fór fram á að vera getið á forsíðu – þýðanda er alla jafna ekki getið á forsíðu á Íslandi (oft má þýðandi bara heita góður sé hans getið yfir höfuð). En mér finnst sem sagt að það ætti að vera regla með fáum undantekningum að þýðanda sé getið á forsíðu. Svo sjáum við bara hvernig forlagið tekur í það.

Það er taugatrekkjandi að geta ekki gert fleiri breytingar. Taugatrekkjandi að maður hafi hugsanlega breytt einhverju sem maður uppgötvar svo síðar að maður hefði alls ekki átt að breyta (ég lenti í því með Ginsberg þýðingarnar mínar). En það þarf að fara að koma þessu í prentun ef bókin á að nást út í byrjun október. Við verðum saman í Norræna húsinu 4. október – á Gauk á Stöng 2. október (í góðum félagsskap) og hér fyrir vestan 6. október.

Ég hef líka farið ítarlega í gegnum þetta með Athenu – og fengið framúrskarandi lestur frá Elínu Eddu hjá Forlaginu og John Swedenmark, sem þýðir íslenskar bókmenntir á sænsku (nú síðast Heimsku). Það var líka í boði hjá John sem Athena pikkaði upp lokalínurnar í bókina, sem eru kunnuglegar fyrir íslendinga:

Bróðir minn sagði: Öll þau fræ sem fengu þann dóm

að falla í þessa jörð og verða aldrei blóm

Það er fyrir þau sem jörðin skal rifna

Textinn í bókinni er vel að merkja allur svona hvítur á svörtum grunni.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png