Untitled

Hveitibrauðsdagar heita „smekmånad“ á sænsku. Gælumánuður. Apríl var þannig mánuður – ég lét bókina að mestu liggja, tók glósur og las og bloggaði. Svo kom maí og þá fór ég aftur í handritið með glósurnar undir hendinni, auk lesturs frá ritstjóra, og við tók kunnuglegur tilfinningastrúktúr þar sem ég ýmist blæs út einsog reigður páfugl á kókaíni eða skrepp saman og þurrkast upp einsog ofelduð akurhæna.

Nú er byrjuð önnur vinnuvika maímánaðar og hugsanlega er ég eitthvað rórri í sálinni. Ég ímynda mér það að minnsta kosti í bili. Í síðustu viku náði ég að fara í gegnum lestur Sigþrúðar (ritstjórans) og lagfæra litlu atriðin – nittpikkið – en lét stærri atriðin vera í bili. Ég færði glósurnar allar á spjöld og skipti spjöldunum í tvennt.

Í öðrum bunkanum eru atriði sem ég vil laga og skrifa áður en ég fer aftur í gegnum handritið – vegna þess að þegar ég er kominn í handritið er ég eftirlátsamari við sjálfan mig, leyfi mér að ímynda mér að það þurfi ekki að framkvæma hugmyndirnar, þetta sé allt saman bara einsog best verður á kosið. Ég er ólíklegri til að leyfa mér það ef ég er með kaflana endurskrifaða í höndunum.

Í hinum bunkanum eru atriði sem ég ætla að setja inn með handritið í höndunum – mestmegnis smávægileg atriði en þó mikilvæg. Smámikilvægileg.

Næst ætla ég að teikna upp strúktúrinn og hengja aftur á vegginn – hann hefur breyst mikið frá því ég gerði það síðast. Sennilega þarf ég líka að leita að fleiri glósum í bókunum mínum – ég skrifa svolítið í spássíur og undirstrika þegar ég er að lesa.

Svo ætla ég að lesa skáldsöguna vel og vandlega. Þetta ætti allt að hafast fyrir 1. júlí – ég verð í residensíu í Austurríki bróðurpartinn af júnímánuði, Starafugl verður í sumarfríi, og ég get einbeitt mér Hans Blævi einvörðungu – og þá verð ég fertugur.

En vegna þess að gælumánuðurinn er búinn blogga ég aftur bara á mánudögum.

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png