Untitled

Aino er búin að vera lasin síðustu daga. Það var pínu púsluspil fyrir foreldra hennar að láta það ganga upp, því við höfum mikið að gera, einsog gengur. Nadja lenti í tölvuvandræðum og þurfti að vinna upp alls konar vegna skjala sem hurfu og ég er að keppast út á endann í fyrsta handriti að nýrri skáldsögu til að geta séð hvort ég á séns að klára það fyrir haustið. Reyndar kitlar mig líka að gefa út næsta vor. Jólabókaflóðið hefur almennt vond áhrif á líðan mína og síðasta jólabókaflóð var óvenju slæmt.

Þegar Aino er lasin skiptist hún á að vera mjög, mjög þreytt og liggja fyrir framan sjónvarp og að vera mjög, mjög skrafhreifin. Í gær töluðum við saman viðstöðulaust í þrjá tíma um allt milli himins og jarðar. Svo lá hún bara flöt í þrjá tíma. Annars erum við meira týpurnar til að þegja saman – lesa bækur saman, kúra og teygja okkur.

Og talandi um vorbækur þá er Ó – um þegnrétt tegundanna í íslenskri náttúru, ný skáldsaga míns kæra Hauks Más, loksins komin út. Ég las hana í handriti fyrir rúmu ári síðan og hafði þá á orði hér einhvers staðar að íslenskar bókmenntir ættu von á góðu – þetta er einfaldlega ein allra áhugaverðasta skáldsaga sem skrifuð hefur verið á íslensku í langan tíma og ég er ógurlega stoltur af að geta kallað Hauk vin minn. Það gleður mig líka að sjá að fólk er spennt fyrir henni og þau sem hafa og eru að lesa hana virðast gríðarkát – það er ekki sjálfsagt að bækur rati í mark.

***

Ég sit á kaffihúsinu Heimabyggð. Hér sit ég oft núorðið. Ég hef verið að reyna að skipta vinnutíma mínum aðeins betur á milli ólíkra staða. Skrifstofa verður svo auðveldlega að einhverjum sjúkum bönker – þar sem maður ræktar ekkert nema sínar mest intróvert og paranojuðu tilfinningar. Úr því geta orðið ágætis bókmenntir, í sjálfu sér – ég skrifaði Hans Blævi mestmegnis á kontórnum í Aðalstræti, fyrir utan þann hluta hennar sem var skrifaður í residensíunni í Krems, handan götunnar frá öryggisfangelsi Josef Fritzl og ekki voru það aðstæður sem drógu úr noju eða sjúkleika. En ég er að reyna að skrifa eitthvað aðeins bjartara núna og þá þarf ég líka að geta loftað út úr heilanum á mér.

Mest skrifa ég þá heima, á skrifstofunni og hérna. En á þriðjudaginn fór ég og sat á bókasafninu í nokkra klukkutíma og geri það sennilega líka eftir hádegi í dag. Á leiðinni heim kom ég við hérna og fékk mér einn kaffibolla – ókostur bókasafnsins umfram hina staðina er að þar fæ ég ekkert kaffi. Það var lítið að gera. Eyjó – Sesar A – sat í einu horninu og vann að sínu einsog hann gerir oft. Og þá lenti ég í svolitlu merkilegu. Inn kom maður með heddfóna sem hann var augljóslega að tala í – frekar hátt. Þetta voru svona þráðlausir hljóðeyðandi heddfónar, alveg einsog ég á sjálfur, og þegar hann hafði lokið sér af með símtalið pantaði hann sér kaffibolla og settist niður við gluggann. Þar skók hann sér mikinn svo það ískraði og brakaði í stólnum í takt við tónlistina sem hann var að hlusta á – hann tók ekkert eftir þessu sjálfur, verandi með hljóðeyðandi heyrnartól, en það fór nokkuð fyrir þessu á annars hljóðlátu kaffihúsinu. Nema hvað, þetta truflaði mig engin ósköp, ég las í gegnum kaflann sem ég hafði ætlað að skoða, kláraði kaffibollann minn, fór í búðina og heim að elda kvöldmat fyrir gengið – eða sennilega fór ég út að hlaupa fyrst, skiptir ekki öllu.

Ég byrjaði aftur á Twitter um daginn, meðal annars til þess að geta fylgst með því hvenær birtast dómar um bækurnar mínar í útlöndum. Ég hef orðið var við að bókatímaritin í Suður-Evrópu – Frakklandi og Spáni, þar sem mér gengur ágætlega – nota Twitter meira en Facebook. Og þess vegna vakta ég nafnið mitt (þótt ég sé annars ekkert yfir það hafinn heldur að gúgla mig – ég er óttalegur lúði). Og þá sé ég að þessi náungi, þessi með heyrnartólin, er einhver fígúra á Twitter (ef maður gúglar nafninu kemur í ljós að hann er fastagestur í svona „fyndnustu tíst vikunnar“ pistlum) og hann hefur verið að tísta.

Ég er mjög óvanur þessu og finnst þetta svona fremur í dónalegri kantinum. Ég veit að maður er ekki heima hjá sér á kaffihúsi. Einhvern veginn er stærsti kostur góðs kaffihúss sá að manni finnist maður vera heima hjá sér – og mér líður svolítið einsog einhver hafi tekið mynd af mér innum gluggann heima á náttfötunum. Þú veist, ég skil alveg að það sé fyndið – mér meira að segja finnst það fyndið – en mér finnst það líka pínu dick move.

Ekki þar fyrir að það er mjög mikilvægt líka að standa vörð um rétt fólks til að vera fífl. Það má. En mig langaði sem sagt að koma þessu að, að mér þætti þetta fávitaleg hegðun.

Annars er Twitter líka mjög skrítið rými. Undarleg blanda af svona smánandi háði og PC vitundarvakningu og tilfinningasemi. Ég hef ekki orðið var við jafn mikinn in-crowd-isma síðan ég var í menntaskóla. Sem er reyndar líka fyndið í ljósi þess að síðustu daga hefur fólk á twitter mikið verið að bera íslenska menntaskóla saman við hitt og þetta (MR er Hufflepuff, MS er Ravenclaw eða MH er Glasgow Rangers, Versló er Liverpool o.s.frv.).

***

Ég gleymdi gítarleikara vikunnar í síðustu viku. Lommi hefur verið að biðja mig um að hafa John 5 og það er alveg sjálfsagt.

***

Mér finnst sífellt stærri hluti listrýni fara fram á siðferðislegum forsendum. Ég var áreiðanlega búinn að nefna það einhvers staðar hérna. Listaverkum er talið það til lasts að þau séu óþægileg, jafnvel þótt þau eigi augljóslega að fjalla um eitthvað sem er óþægilegt og kanna óþægilega núansa. Annar hver dómur er annað hvort móralskt heilbrigðisvottorð eða fordæming. Þetta er mjög hversdagsleg sýn á listina og verði hún ofan á held ég hreinlega að listin, sem slík, sé dauð og tilgangslaus sem annað en skemmtun. Og þá verður nú gaman að vera til.

***

Jæja. Þetta varð alltof langt. Ég á eftir að skrifa mjög mikið í dag og þarf að koma mér að verki.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png