Untitled

Some words are open like a diamond on glass windows singing out within the passing crash of sun Then there are words like stapled wagers in a perforated book, – buy and sign and tear apart – and come whatever wills all chances the stub remains an ill-pulled tooth with a ragged edge. Some words live in my throat breeding like adders. Others know sun seeking like gypsies over my tongue to explode through my lips like young sparrows burst from shell.

Úr Coal eftir Audre Lorde

Ég er lasinn. Sit í náttbuxum og náttslopp, les Guardian á netinu – íhuga að rífa plastið utan af Stundinni, svona einu sinni – og er að borða Bugles og ristabrauð með osti og sultu. Drekk te. Allt gerðist þetta óvart – einsog eitthvað innra með mér hefði hreinlega ákveðið að þessum veikindum fylgdi estetík à l’anglaise. Eiginlega hef ég ekki tíma til að vera lasinn. Ég á eftir að semja stuttan fyrirlestur – sem verður fluttur á föstudag hjá Bandalagi þýðenda og túlka (í tilefni Híeronymusardagsins) – klára listamannalaunaumsóknina mína, byggja nýjan eldhússkáp og koma ísskáp og eldavél aftur fyrir, loka veggnum í bílskúrnum (og taka til í rýminu) og áreiðanlega sitthvað fleira sem ég er að gleyma. Ég ætlaði líka að skrifa eitthvað um Athenu og Hvítsvítu fyrir Starafugl; en það má svo sem bíða fram á sunnudag.

Saga Nýhils: fimmta brot brotabrots brotabrotabrots Ég velti því fyrir mér hvort það verði eitthvað í þessari sögu, sem verður sögð í þúsund og einu broti, sem eigi eftir að koma illa við einhvern. Eiginlega segir það sig sjálft. Kannski skiptir það engu. Ég hélt því einhvern tíma fram að ég hefði lent í heiftarlegum rifrildum við svo til alla meðlimi Nýhils, en taldi mér það til tekna að þau væru öll vinir mínir þrátt fyrir það. Það entist svo auðvitað ekki – fyrir utan bara eðlilegt sambandsleysi fólks sem hefur rekið í ólíkar áttir þá er líka andúð og jafnvel heift í þessum félagsskap.

En hvað um það. Það kemur þá ekki að því fyrren síðar. Hvert var ég kominn? Nýhil var orðið til í nafni – Haukur Már var sennilega farinn til Berlínar, í fyrsta sinn, ég fór til Þrándheims til að búa með Mella og Karenu og Varði og Grímur voru á túr um Evrópu með rafmagnsgítar og vídjóvél. Dóri – Halldór Arnar Úlfarsson – þriðji maður í þríeyki með okkur Hauki Má, MH-ingur sem kom vestur með Hauki þegar Haukur fór að kenna í Grunnskólanum, var áreiðanlega með þá þegar og fluttur til Helsinki. Hugsanlega byrjaður að nema fínilistir við Kuvataide akademíuna, á kafi í Ananda Marga (hættur að drekka og borða sveppi, lauk, ansjósur; hugleiddi tvisvar-þrisvar á dag) og Tae Kwon Do.

Ég man ekki hvort ég ætlaði að gefa út Ginsbergþýðingarnar sjálfur – eða hjá Nýhil, sem sagt – en það er ekkert ósennilegt. Í öllu falli fóru Þrándheimsdagarnir ekki síst í þýðingar – þótt ég hafi áreiðanlega líka sinnt Hugsjónadruslunni, sem ég byrjaði á fyrir alvöru árið áður í Færeyjum, og skrifað einhver eigin ljóð.

Ég hafði byrjað að þýða um vorið og um það leyti rekist á Kristján Bje, ritstjóra Forlagsins, á fyrirlestri hjá Alliance Francaise – það hafði verið auglýst að fyrirlesturinn yrði á frönsku en þýddur ef þess gerðist þörf; ég held að Friðrik Rafnsson hafi látið duga að spyrja á frönsku, hvort einhver þarna kynni ekki frönsku. Það var að minnsta kosti ekkert þýtt og ég var of vandræðalegur yfir þessu til þess að stinga af fyrren í hléi – hafði líka sest á fremsta bekk og hefði þurft að klofa yfir fólk til að komast út. Maður er alltaf einhvern veginn einsog fífl.

En í hléinu – á milli þess sem ég hlustaði á Thor Vilhjálmsson tala frönsku einsog kynslóð foreldra minna talar dönsku (þ.e.a.s með mjög þykkum íslenskum hreim) – heilsaði ég Kristjáni og nefndi að ég væri byrjaður að þýða Ginsberg. Kristján þekkti Viðar Þorsteins (í Nýhil) sem vann við umbrot á ritstjórn Máls og menningar – og líka Bríeturnar (stelpurnar í femínistafélaginu) sem þýddu fyrir hann Píkutorfuna, og þær voru líka í þessari MH-kreðsu sem ég kynntist þegar ég kom suður. Það fór það orð af Kristjáni að hann væri alltaf að leita að tíðarandanum og var sagt bæði í gamni og alvöru, honum til hnjóðs og hróss.

Ég endursagði samtalið svona fyrir Hauk Má:

Kristján: Sæll, þú hér. Eru ekki ungskáldin að vinna að einhverju stórfenglegu þessa dagana? Eiríkur: Já, jú, það er kannski óvitlaust að nefna það við þig … ég er hérna að þýða valin ljóð eftir Allen Ginsberg. Kristján: … ? Eiríkur: ha … já … bara þú veist, ha … Kristján: … já? Eiríkur: eitthvað verður maður að hafa fyrir stafni! Kristján: … Eiríkur: En jæja, hérna ég er farinn. Bæ. Kristján: Vertu blessaður!

Hann reyndist svo löngu síðar hafa einhvern áhuga á þessu en það breytti því ekki að mér leið einsog fífli í aðstæðunum. Og hafði sjálfsagt með ýmislegt að gera – bæði sóttist maður eftir einhvers konar staðfestingu á því að maður væri ekki truflaður á geði og sóttist eftir því að þurfa ekki að biðja rígfullorðna karla um leyfi (KBJ hefur þá verið 34 ára gamall; útgáfubransinn hefur elst mikið síðan; ungskáldin eru varla heldur 23 ára lengur), en þurfti samt að láta sig hafa það, og svo kunni ég bara ekkert á þennan heim. Mér fannst – og finnst eiginlega – ég aldrei jafn utangátta og í menningarkreðsunum í Reykjavík. Og þá á ég ekki við fólkið, sem ég kann ágætlega við – heldur virknina á staðnum, þennan aðila, þessa stemningu. Ég finn aldrei jafn mikið fyrir loddaraheilkenninu og á svona stöðum – allir eitthvað að tala um Houellebecq á reiprennandi frönsku, allir establíseruð gáfumenni með vald í bókaútgáfu, leikhúsi og svo framvegis. Og samt – eða kannski einmitt vegna þess að ég var rækjuvinnslustarfsmaður að vestan – skipti áreiðanlega einhverju máli að ég skuli hafa stungið fætinum þarna í dyrnar, þótt það væri sárt og vandræðalegt, Kristján átti að minnsta kosti eftir að skipta einhvers konar sköpum fyrir mig.

Ég hefði aldrei ávarpað Kristján – eða mætt á fyrirlestur í Alliance Francaise – ef ég hefði ekki lent í þessari MH kreðsu, sem ég nefndi, þar sem allir voru tengdir einhverjum – ekki síst einmitt Viðar, sem var með mainline inn á stærsta bókaforlag landsins. Viðar bauð okkur meira að segja með sér í einhvern litlujólakokteil einu sinni, við Laugaveg 18 – sem endaði með því að Hallgrímur Helgason tók hálft partíið með sér fram fyrir langa röð á Kaffibarnum (þar af a.m.k. 3-4 nýorðna nýhilista). Það lá skiljanlega við barsmíðum vegna ósættis í röðinni, en inn fórum við nú samt, stéttsvikarar og aðrir.

Í Þrándheimi átti ég betur heima. Karen vinkona mín bjó þar í húsi sem pabbi hennar átti og leigði út herbergi – fyrst um sinn vorum við bara þrjú þarna, ég Melli og Karen. Við átum frosnar pizzur og drukkum gruggugt rauðvínsheimabrugg úr kjallaranum. Og ég gekk um með fartölvuna hennar Karenar í fanginu öllum stundum. Hún hafði lánað mér hana til verksins og ég fór með hana út um allt. Sofnaði við þýðingar, vaknaði við þýðingar. Tók hana með mér á barinn (3B yfirleitt) og þýddi þegar aðrir fóru á klósettið. Ég eyddi bróðurparti 11. september þetta ár í að þræða barina í miðborg Þrándheims í leit að fartölvunni með Ginsberg þýðingunum mínum, sem ég hafði týnt á fylleríi 10. september. Þegar hún fannst, eftir mikla leit, fórum við Karen til mömmu hennar að horfa á CNN og BBC.

Eftir 1-2 mánuði stakk Melli af til Íslands og í kjölfarið fórum við Karen eitthvað að stinga saman nefjum – hálfvegis með mínum vilja og hálfvegis ekki, einsog gengur – og þegar ég kunni ekki að snúa mig út úr því lengur vegna meðvirkni og áfengismóðu skrifaði ég Dóra langt sjálfsvorkunnarþrungið bréf um harm minn allan. Hann bauð mér undireins að koma til sín og búa á eldhúsgólfinu í Helsinki. Ég sótti um atvinnuleysisbætur til að kovera ferðina – var gersamlega svínblankur – pakkaði saman strax og þær bárust og fór með Karenu til Osló, þar sem við kvöddumst ósofin morguninn eftir á rútustöðinni. Frá Stokkhólmi tók ég svo finnlandsferjuna yfir til Helsinki. Á leiðinni orti ég þetta, sem endaði í Heimsendapestum árið eftir (hún kann ekki mikla íslensku en smá samt og gott ef hún löðrungaði mig ekki á fylleríi fyrir að hafa skrifað þetta).

Maður ríður vini sínum

Vegurinn rennur undan mér og ég renn með rútunni.

Ég er orðinn svo vanur að fara að mér finnst ég varla hafa verið nokkurstaðar lengur.

Ég var varla kominn út úr henni í morgun þegar ég þaut af stað – afkynlífaður, náði ekki að pakka – það er eitthvað fjári óréttlátt við að fá ekki burstaðar í sér tennurnar að morgni dags.

Og hér er ég mættur í nýtt land og hér er rúta utanum plussklætt rauðsæti og hér eru stórar rúður undir landslagið.

Hér er ekki jafn grýtt en svei mér þá ef trén eru ekki fleiri.

Ég sé ekki neitt fyrir trjátoppum.

Er það þá hingað sem ég er horfinn? Í þetta skiptið? Ekki það ég kvarti. Þetta er ágætt.

Í gær drakk ég frítt í morgun svaf ég hjá og í dag er ég farinn.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png