Untitled

Hann horfir á James Bond-mynd af myndbandi. Konan hans leigði hana handa honum. Hann hefur ekki gaman af James Bond. Hann er 47 ára. Hann hefur ferðast til Kína og Afríku. Konan hans er uppi í svefnherberginu þeirra og skrifar elskhuga sínum bréf. Þau ætla að fara saman í átta daga útreiðartúr.

Ragna Sigurðardóttir – úr bókinni 27 herbergi

Ég hef oft verið dálítið útkeyrður en sennilega sjaldan jafn útkeyrður og nú á föstudagsmorgun. Of mikil vinna, of mikið félagslíf, of mikið af öllu. Og flensa ofan í kaupið. Bæði var ég veikur áður en ég fór suður – í lokin á eldhúsruglinu – og í stað þess að batna almennilega versnaði ég bara aftur eftir því sem leið á vikuna. Ég hef meira og minna legið í rúminu síðan á föstudagsmorgun. Í gær reif ég mig upp og fór í mat hjá Smára, Siggu og Kalla (sem buðu upp á baneitraðan regnbogasilung). Og í dag er ég búinn að lofa mér í barnabíó klukkan þrjú.

Þannig eru tólf dagar síðan ég bloggaði síðast og þá var ég líka útkeyrður og lasinn.

Saga Nýhils: Sjötta brot brotabrots brotabrotabrots Ég lauk við Heimsendapestir í Helsinki haustið 2001 og vann í henni á Ísafirði eftir áramót og fram á sumar. Hugmyndin var reyndar alls ekkert sú að koma heim, en mamma splæsti í miða svo ég gæti verið heima á jólunum og þegar þangað var komið bauð mín fjall af reikningum og lánum sem voru að falla á mömmu. Ég var ekki lengur með vinnu í Helsinki – hafði fyrst unnið við þrif í Svíþjóðarferjunni, Viking Line, og svo sem kokkur og altmuligmaður á ananda marga leikskóla. Á Ísafirði gat ég hins vegar alltaf gengið inn í bærilega launaða vinnu og þess utan búið hjá foreldrum mínum á meðan ég vann fyrir reikningunum.

Haukur Már ritstýrði Heimsendapestum og fékk neitunarvald á öll ljóðin í henni – hann mátti ekki fikta í þeim að vild en hann gat beinlínis gert þau brottræk úr bókinni ef honum fannst ég ekki ná að gera þau nógu áhugaverð. Og það var slatti sem fékk að fjúka – þó ég hafi áreiðanlega hent fleirum viljugur en nauðbeygður. Síðan skrifaði hann einhvern þann digurbarkalegasta formála sem ég held að ég hafi lesið. „Bestu tíðindi íslenskrar ljóðlistar frá því við lærðum að lesa“. Mig minnir að það hafi verið upphafsorðin. Og svo svaraði ég honum í öðrum formála sem var ekki hógværari.


Dóri gerði kápuna – sem er bara fjöldaframleidd ljósmynd brotin í tvennt. Hann framkallaði í Listaháskólanum í Helsinki og sendi mér. Ein af myndunum var af Mella vini mínum að drekka rauðvín úr plastflösku í hringekju við Eiffelturninn. Það var sú eina sem ég tók sjálfur – hinar voru náttúrumyndir frá Dóra.

Ég prentaði innvolsið sjálfur í H-Prent á Ísafirði – mig minnir að ég hafi gert 160 eintök – heftaði, skar til og pressaði. Af þessum 160 fóru áreiðanlega út 20 kynningareintök á fjölmiðla. Þetta var sumarið 2002 og þá birtust enn dómar um ljóðabækur í nærri öllum fjölmiðlum sem vildu láta taka sig alvarlega (og þá voru enn til fjölmiðlar sem vildu láta taka sig alvarlega). Það breyttist svo hratt á næstu árum. Ég man eftir því að Eiríkur Guðmundsson hringdi í mig úr Víðsjá þegar ég var nýkominn úr baði – og svo var Víðsjá auglýst allan daginn þannig að í þættinum yrði rætt við skáld í baði.

Bókin kom út í byrjun ágúst og fáeinum dögum síðar stakk ég af til Berlínar. Fyrst millilenti ég auðvitað í Reykjavík og í einhverju bríaríi og gúrku endaði ég þá í klukkustundarlöngu viðtali við Róbert Marshall á Útvarpi Sögu (sem var þá annars konar útvarpsstöð en í dag, a.m.k. fagurfræðilega). Það er enn lengsta viðtal sem ég hef farið í. Hann var þá í afleysingum og vantaði áreiðanlega bara einhvern til að fylla upp í rýmið.

Ég man ekki hvort dómarnir komu fyrren ég var farinn úr landi. Þeir voru flestir jákvæðir – sérstaklega var Friðrika Benónýs kát með mig, líkti bókinni við Ský í buxum Majakovskís – en Geirlaugi Magnússyni fannst lítið til mín koma – án þess þó að hann væri grimmur, þetta var meira svona patróníserandi vinsemd, einsog gengur hjá fólki sem þykist of gott til að vera grimmt.

Ég prentaði þessa tvo dóma út og hafði þá fyrir augunum í stofunni í Berlín – það væri eftiráútskýring að fullyrða nákvæmlega hvers vegna. Hugsanlega var það samt til áminningar um hvað væri við að etja. Hvernig þessi heimur liti út og við hverju maður mætti búast af honum. Ég held að það sé mikilvægt að venjast því að verk manns séu ekki allra – verk sem eru allra eru allt annars eðlis en það sem mig langar að skrifa. Ég veit það alveg, þótt ég þurfi stundum að minna mig á það. En það er sömuleiðis mikilvægt að leyfa sér að standa með sjálfum sér og rétta þeim löngutöng sem vilja hafa vit fyrir manni, og ekki síður að fagna þeim sem bjóða manni upp í dans.

1 view0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png