Untitled

Ég veit ekki hvort þessi póstur fjallar um Hans Blævi – í einhverjum skilningi auðvitað en öðrum alls ekki – og það er ekki mánudagur og þetta snertir mjög harkalega við annarri þráhyggju minni, og jafnvel tveimur. Annars vegar að verja vondan málstað og hins vegar Guns N’ Roses. Axl Rose er auðvitað, einsog fram hefur komið, ein af fyrirmyndum Hans Blævar.

Á RÚV í dag er fjallað um nýja útgáfu hljómsveitarinnar á eldra efni – þar á meðal endurhljóðblandaða útgáfu af Appetite for Destruction – og ákvörðun hljómsveitarinnar að sleppa hinu umdeilda (og raunar afar slaka) lagi One in a Million. Þar eru nokkrar rangfærslur.

Lagið „One In a Million“ hefur verið fjarlægt af endurútgáfu plötu hljómsveitarinnar Guns N’ Roses, Appetite for Destruction.

One in a Million kom ekki út á Appetite heldur á Lies – samhliða endurútgáfu Appetite er verið að gefa út alls kyns b-upptökur og endurhljóðblandanir, þar með talið af öllum lögunum af Lies nema One in a Million. En það er ekki verið að endurútgefa Lies sem slíka. Guns hafa stigið mörg feilspor í gegnum tíðina en ekkert þeirra var stigið á Appetite – sem er einfaldlega rock solid og gallalaus í gegn. Punktur.

Lagið fjallar á niðrandi og hatursfullan hátt um samkynhneigða, þeldökka og innflytjendur.

Rétt. Það er hægt að bera í bætifláka fyrir þetta fáránlega rant hans Axls og hann hefur svo sannarlega reynt í gegnum tíðina – helstu hetjur hans (Elton og Freddie) eru t.d. samkynhneigðar. Mestmegnis hefur hann samt bara bullað í hringi um þetta, einsog hann gerir í sjálfu laginu.

Ég held það sé samt alveg ástæða til að trúa honum að hann hafi ekki „meint“ þetta þannig – að hann hafi ekki ætlað að móðga allt svart eða samkynhneigt fólk. Hann ætlaði bara, í einhverjum skilningi – og sennilega er það ekkert „bara“ með það, en það er gamalt pönk sensíbílítet – að hrækja út í áhorfendaskarann og sjá hvort lýðurinn myndi ekki bara elska sig heitar fyrir vikið. Í öllu falli má alveg lengja listann – Axl telur t.d. líka upp róttæklinga, rasista og lögreglumenn og lagið er ekki minna niðrandi í þeirra garð.

Mín kenning, sem er kannski ekki merkileg, er að þetta lag þjóni svipuðum tilgangi og ólætin í Kanye upp á síðkastið (og jafnvel alltaf) og tjái fyrst og fremst djúpstæða þrá eftir því að segja og gera það sem ekki má (s.s. pissa bakvið hurð, segja Trump frábæran, grípa fram í fyrir verðlaunahafa til að segja annan hafa átt verðlaunin skilið, segja ráddi og nota skrúfjárn fyrir sleikjó o.s.frv.) þegar manni líður einsog maður megi stöðu sinnar, stéttar og sjálfsmyndar vegna, bara vera á einhvern einn tiltekinn hátt, annars verði maður skammaður – eða sjeimaður.

Það breytir svo engu um hvað lagið getur þýtt fyrir öðrum – t.d. hörundsdökkum aðdáendum sveitarinnar eða rasískum þungarokkurum (Skrewdriver hefur koverað það). Og ákvörðunin um að hætta að spila það og sleppa því á endurútgáfunni er hárrétt – og því hefði best verið sleppt af Lies líka.

Lagið var fordæmt þegar þegar það kom út, en Slash gítarleikari sveitarinnar sagðist ekki sjá eftir því að hafa samið það. „Eina eftirsjáin er það sem við höfum gengið í gegnum vegna þess og hvernig fólk hefur túlkað okkar eigin tilfinningar,“ bætti hann við.

Slash samdi alls ekki lagið og allir hljómsveitarmeðlimirnir reyndu að fá Axl til að hætta við það – Slash (sem er jafn svartur og Obama) neitaði að fordæma Axl fyrir það (enda rosalega meðvirkur með geðveikinni í Axl). Mamma hans Slash var hins vegar mjög reið!

Að síðustu er áhugavert að velta því fyrir sér hversu mikla athygli lagið fær nú þegar þeir ákveða að sleppa því – að endurhljóðblanda það ekki eða leita uppi nýjar útgáfur (þeir hafa ekki spilað það live frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar). Nú er textinn – sem Axl vill augljóslega ekki lengur standa fyrir – skyndilega endurbirtur í öllum helstu fjölmiðlum heims og sóðalegustu bútarnir meira að segja þýddir af fréttamanni RÚV. Við erum alveg áreiðanlega litlu bætt með þessari stöðugu básunun alls þess heimskulegasta sem sagt hefur verið í gegnum tíðina. En það fær víst klikkz.

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png