top of page

Untitled

Saga Nýhils – ellefta brot brotabrots brotabrotabrots

Haukur hannaði Nýhilsíðuna. Fyrirrennari hennar var kannski síðan NRTL – Nokkrar rafeindir tileinkaðar ljóðlistinni – sem hann bjó til sennilega rétt eftir að hann hætti í MH. Þar voru ljóð eftir mig (við þekktumst ekki enn) og það sem ég reikna með að hafi aðallega verið MH-ingar. Sem er kaldhæðið á tvo vegu – annars vegar voru þetta miklu stilltari og yfirvegaðri og væmnari ljóð en við vorum farnir að skrifa þarna fjórum árum síðar, og hins vegar sú að Nýhil beinlínis stillti sér upp gegn ljóðinu sem slíku og einhverri viðstöðulausri ástúð og umhyggju gagnvart því, sem lýsti sér annars vegar í endalausum greinaskrifum um að ljóðið væri ekki dautt og hins vegar í nafngiftum félagsskapa einsog Besti vinur ljóðsins og Ljóðvinir í Gerðubergi. Að tileinka rafeindir ljóðlistinni er sams konar velvild – sem var þá uppurin þegar Nýhil var stofnað.

Einhvern tíma löngu seinna skrifaði Davíð Stefánsson ádeilugrein um mig („Opið bréf til alls þess sem er EÖN“) þar sem hann líkti ljóðinu við gamla konu sem væri að staulast yfir götu (og mér við bláeygt fíflið sem í ofsafengnu aðstoðarkasti stórslasar konuna þegar hann ætlar að einhenda henni yfir götuna). Það var þessi afstaða – að ljóðið væri gömul, hálfblind kellingarugla og maður ætti að gæta sín í samskiptum við hana, svo hún hreinlega molnaði ekki undan snertingu – sem okkur fannst óþolandi. Sennilega hef ég líkt henni við annars konar átakaglaðari konu (en samt konu – allt var einsog áður segir kynferðislegt og ég var gagnkynhneigður og rétt skriðinn yfir tvítugt).

Þegar Nýhilvefurinn fór í loftið haustið 2002 birtust þar alls kyns greinar – Haukur skrifaði talsvert um heimspeki, Viðar Þorsteinsson skrifaði um femínisma, ég skrifaði helling um bítskáldin, Grímur birti einhvern furðulegasta og skemmtilegasta einþáttung sem ég hef lesið („The Way of the Gay“ – sem ég finn ekki á wayback machine, en veit þó að er þar) og allir skrifuðu um pólitík. Svo birtust líka skrítnar hliðartilkynningar um eitt og annað sem var að gerast – og bara svona smávægilegt röfl, hálfgerðir statusar. Til dæmis kemur þetta fljótlega eftir Nýhilkvöld í Reykjavík, sem hefur verið haldið rétt fyrir kjördag 10. maí – ég átta mig ekki á því hver heimildin hefur verið eða hvort það var ég eða Haukur sem skrifaði:


Það hefur samt líklega verið Haukur Már – ég var ekki svona mikill Houellebecq aðdáandi. En hvorugur okkar var á landinu, svo guð veit hver klagaði að allir hefðu verið stilltir.

Á vefnum birtust líka hálfgerð manifestó – sem síðar voru hreinlega kölluð manífestó – og ég man svo sem ekkert hvað aðrir skrifuðu en ég sveiflaðist sjálfur milli þess að hóta því gróteskt að nauðga lesendum mínum í augntóftirnar (með textanum! meinti ég! auðvitað!) eða skrifa um mikilvægi dillandinnar í ljóðlist og pólitík. Að maður sem sagt dillaði sér. Kátína og ofbeldisfullt svartnætti og spennan þar á milli – líklega er þar með lýst fagurfræði minni frá Heimsendapestum og í gegnum Nihil Obstat.

Þá birtist eitthvað af ljóðaþýðingum, kaflar úr bókum, tilkynningar um útgefin verk (t.d. íþróttatösku Nýhils, sem Halldór Arnar framleiddi í takmörkuðu upplagi – ég átti eina en hún týndist) o.s.frv. Flokkar voru „Ljóðadagur“ (sem innihélt alla frumskapaða list, líka smásögur og leikþætti), Mánudagur (sem voru pistlar) og Veröld (sem voru fréttir).

Það var líka kommentakerfi, sem ég held að hafi verið afar fátítt annars, nema kannski á bloggum. Ekki að viðbrögðin hafi verið mikil – en einu sinni skrifaði þó mamma og sagði að ég hefði ekki verið alinn upp með það fyrir augum að ég gengi um og hótaði að nauðga fólki í augntóftirnar. Ég svaraði því einhvern veginn – með nýju manifestói, sennilega. Ég reyndi að fá eitthvað af þessu birt í blöðunum en fékk aldrei nein svör (og hef síðan eiginlega aldrei nennt að skrifa í íslensk blöð).

Í byrjun árs 2003 ákváðum við Haukur svo að skiptast á að skrifa manifestó mánaðarins. Það entist í 2-3 skipti, líklega skrifaði ég einu sinni – og fyrsta meðvitaða manifestóið var áreiðanlega einhvers konar stafsetningarleiðbeiningar. Algerlega 100% straight-shooting heiðarlegar stafsetningarleiðbeiningar. Ef ég man rétt.

Vefurinn átti eftir að fara í gegnum nokkrar uppfærslur. Fyrst misstum við lénið – nyhil.com – í hendur einhvers fjárglæfravíruss og fluttum okkur yfir á nyhil.org. Svo fórum við sennilega á blogspot einhvern tíma í kringum 2006-2007 – og um svipað leyti gerði Lommi nýja heimasíðu með alls kyns upplýsingaefni sem við Viðar höfðum samið (m.a. „sögu nýhils“) en Hauki Má ofbauð svo útlitið, sem hann sagði nasískt, að hún var tekin niður eiginlega strax og hún fór í loftið. Á blogspot síðunni fórum við Lommi einhvern tíma líka í manifestóstríð – skiptumst á að skrifa – og svo komu einhverjar vel hannaðar en frekar tómlegar Nýhilsíður í kjölfarið. Sem virkur og spennandi fjölmiðill entist Nýhilvefurinn sennilega ekki nema fram til 2005.

Svona byrjaði þetta, tótal kaos:


Og svona lauk því, stílhreinu og fínu:


0 views0 comments

Recent Posts

See All

Fúsk

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page