Untitled

The origin of criticism lies in an innocent, heartfelt kind of question, one that is far from simple and that carries enormous risk: Did you feel that? Was it good for you? Tell the truth.

Better Living Through Criticism:  How to think about art, pleasure, beauty and truth – A.O. Scott

Það þarf því kraftmeiri rök til að sannfæra fólk sem það er ólíklegra til þess að vilja sannfærast. Tveimur árum eftir að flugmaður stingur flugvél í sjóinn með 150 farþegum innanborðs er faðir flugmannsins enn sannfærður um að hann sé saklaus. Því hann þekkir son sinn, hann myndi aldrei gera svona, og þar með finnst honum ekki standa steinn yfir steini í röksemdafærslum yfirvalda.

Skyld lögmál stýra því hvernig fólk bregst við neikvæðum listdómum. Hafi maður dálæti á listaverkinu, eða jafnvel bara listamanninum, er ekki ósennilegt að manni finnist allur rökstuðningur neikvæðs listrýnis vera ómerkilegur, þunnur og jafnvel hreinlega alls ekki til staðar. 

Í gær birtist á Starafugli dómur eftir Ólaf Guðstein Kristjánsson um bókina Perurnar í íbúðinni minni eftir Kött Grá Pje. Dómurinn var í neikvæðari kantinum – það eru sjaldan/aldrei gefnar stjörnur á Starafugli (það er ekki stefna, en ég fæ aldrei senda neina stjörnugjöf og kalla ekki eftir henni) en ætli væri ekki óhætt að segja að dómurinn hafi verið upp á tvær til tvær og hálfa stjörnu. Svona moðvolgur, frekar en beinlínis neikvæður. En þá ber að hafa í huga að flestir gagnrýnendur veigra sér við að sýna of mikla neikvæðni – þeir vilja flestir gefa verkum séns og er á móti skapi að slátra.

Það er sársaukafullt að sjást ekki og það er nákvæmlega sá sársauki sem listamaður þarf að kljást við þegar hann eða hún fær neikvæðan dóm. Einhvers konar ósýnileika. Að það sem maður hafi verið að reyna að koma til skila – sem er alltaf misafmynduð spegilmynd af manni sjálfum – hafi ekki borist. En sársaukinn er líka til kominn af því að flest fólk (sem ég þekki) er með allavegana snert af því sem er kallað impostor syndrome og gengur út á að finnast maður aldrei alveg eiga neitt skilið eða maður tilheyra þar sem maður er.

Það er alveg sama hvað það er sem við gerum, línan á milli þess að vera áhugamaður – koma út af Karate Kid sjö ára sparkandi út í loftið – og þess að vera atvinnumaður – t.d. í hringnum úti í London á móti Gunnari Nelson – er alltaf óljós. Íþróttamenn hafa það að vísu fram yfir listamenn að árangur þeirra er alla jafna mælanlegur. Annað hvort kemur maður fyrstur í mark eða ekki, þótt mér þyki sennilegt að þeir taki heppni með í reikninginn. Listamenn eru hins vegar alltaf fastir í viðstöðulausu fake it till you make it og þess utan – allir hugaðir listamenn – stöðugt að leita að eigin annmörkum, ögra sjálfum sér og krukkandi í sálinni og leitandi að vitlausu beinum tilfinningalífsins. Og þá ber að hafa í huga að mikilmennskubrjálæðið („Ég er séní!“) er náskylt minnimáttarkenndinni („Allir hata mig“).

Hægt er að þjást af þessu syndrómi „by proxy“ – þ.e.a.s. fyrir hönd einhvers annars. Listamenn kalla að vísu á mismikla hollustu og það er ekki alltaf í hlutfalli við frægð þeirra eða velgengni – eða svo hefur mér í það minnsta sýnst. En sumum listamönnum/listaverkum má hreinlega ekki hallmæla – það er einsog siðbrot, og það kallar á upphróp og læti.

Fljótlega eftir að dómur Ólafs birtist á Starafugli hóf hann að fá sína eigin dóma – ekki einn og ekki tvo, heldur sennilega upp undir tuttugu talsins, á örfáum klukkustundum, mest á Twitter en líka á Facebook. Þetta er það næsta sem ómerkilegt menningarrit á borð við Starafugl kemst því að lenda í twitterstormi. Ólafur var vændur um að vera með prik í rassinum, gert var gys að kansellípönkstílnum sem hann skrifar (hann skrifar „alltént“; það þykir ekki par fínt á Twitter), sagt var að hann hefði ekki fært rök fyrir máli sínu (sem er einfaldlega af og frá), og jafnvel að hann hefði ekki tekið dæmi úr textanum (það er alltént ekki satt), að hann „skrifaði bara sjálfur vondan stíl“ (Ólafur sagði aldrei að stíll KGP væri lélegur, heldur að hann væri „ekki nógu góður“ – sem er tvennt ólíkt) og svo framvegis og svo framvegis.

Fyrir utan einfaldar staðhæfingar um að bókin væri „víst góð“ frá ötulum aðdáendum KGP var ekkert rætt um bókina. Umræðan um fagurfræði hennar náði því aldrei út fyrir Starafuglssíðuna – verndarar KGP höfðu einfaldlega meiri áhuga á að greina hvað þeim þætti að rýninni en hvað þeim þætti gott við bókina. Sem er líka áhugavert vegna þess að margir þeirra kölluðu eftir umræðu um fagurfræði. En út frá ritdóminum – ekki listaverkinu.

Þetta er auðvitað ekkert nýtt. Ritstjórinn ég er afar meðvitaður um að neikvæð rýni fær bæði meiri lestur og meira röfl. Þeir sem kunna að meta eitthvað eru nefnilega líka spéhræddir – þeir óttast að þeir hafi smitast af einhverju vondu. Það er nefnilega mjög mikilvægt í samfélagsmiðlaveruleikanum að kunna að meta réttu hlutina og hafa óþol fyrir röngu hlutunum. Og það er hætt við að við séum flest meðvituð um að við kúltúrkapítal flyst yfir á verk – hvort sem það kúltúrkapítal var þénað með sjarma listamannsins, fyrri verkum, mati annarra eða á annan hátt.

Í bókinni sem er vísað til hér efst segir A.O. Scott meðal annars að það reiðist enginn röngum dómi heldur réttum. Að maður reiðist að heyra sannleikann. Í sjálfu sér held ég að það sé orðum aukið – sannleikurinn um listaverk er, einsog komið er inn á í bókinni, alls ekki svo einfaldur. En maður reiðist því sem maður heldur að geti verið satt og því sem gæti orðið satt. Að maður kaupi heitustu plötuna í bænum og segi öllum að hún sé frábær og svo tveimur mánuðum seinna reynist þetta hafa verið fyrsta plata Offspring (sekur!). Því þá er maður sjálfur fífl.

Það er hins vegar alveg gefið að það sem einum þykir frábært getur öðrum þótt alger skelfing og þarf ekki að þýða að neinn sé fífl. Ekki í alvöru. Ein af þeim furðulegu þverstæðum sem liggja að baki allri listrýni í dag er hin fræga hugmynd Kants um hið huglæga sem er jafnframt algilt. Góður gagnrýnandi er sá sem er í senn meðvitaður um að hann talar fyrir heimsbyggðina og að hann sér ekki út fyrir naflann á sér – er fastur í eigin höfði og eigin hjarta en hvers vinna er að vera málsvari fegurðarinnar sem slíkrar.

Nú vill til að Ólafur Guðsteinn er sjálfur yfirvegaður maður og honum var alveg sama um fjaðrafokið – fannst það hlægilegt, og er enda gamall í hettunni. Hins vegar á það vel að merkja við um fæsta gagnrýnendur Starafugls (þótt sumir séu vissulega að eldast í hettunni á okkar vakt).

En þegar fólk spyr sig almennt hvers vegna það sé verðbólga í stjörnugjöf, hvers vegna eitthvað listaverk hafi bara fengið jákvæða rýni – þegar það er augljóslega ekki fullkomið – eða hvers vegna meðalmennskan vaði uppi þá er að minnsta kosti hluti ástæðunnar sá að fullt af fólki skuli sjá sér ástæðu til þess að svara ritdómi – ekki í úthugsuðu löngu máli heldur snöggum stungum, ekki með yfirvegun heldur samstundis, ekki eitt og eitt heldur í hjörð – svo gagnrýnandinn drukknar í aðfinnslum.

Sennilega er þar ekki um að kenna einstaklingum heldur „eðli vefsins“ – sem býður upp á þetta. Ég ætla sjálfur að reyna að temja mér meiri hægð á næstunni – að hafa færri skoðanir opinberlega, en gefa mér meiri tíma og meira pláss til þess að útfæra þær.

Góðar stundir.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png