Untitled

„Er ekki einhver opinber aðili sem getur gert athugasemdir við útgefanda og haft samband við bókasöfnin. Þetta hlýtur að stangast á við einhverjar reglur sem eiga að hafa það að markmiði að vernda börn.“ „Eftir að mér var bent á þessa færslu fór ég að blaða í fleiri bókum í seríunni og sá að þessi bók er ekki einsdæmi. Bækurnar hafa verið teknar úr umferð á Bæjarbókasafni Ölfuss og verða afskráðar á morgun.“ „Sá að þessi bók er á bókasafni skólans sem strákurinn minn er í og líklegast flestum grunnskólum. Ég er búin að senda línu á kennara stráksins og skólastrjórann [svo] um að ég vilji að þessi bók verði tekin af bókasafninu. Mæli með að foreldrar fari fram á það í skólum barna sinna.“

Helgi Jónsson er löngu alræmdur fyrir smekkleysi í bókum sínum, sem flestar eru ætlaðar börnum og unglingum. Þar ríkir talsvert „hispursleysi“ í kynferðismálum og skrifað er um viðkvæm efni einsog við ritvélina sitji skrautskrifandi fíll í postulínsbúð í boxhönskum. Um þetta hefur vinkona mín, ljóðskáldið og sagnfræðingurinn Kristín Svava Tómasdóttir skrifað eina skemmtilegustu grein á internetinu (sem verður, merkilegt nokk, ekki verri við tilvitnanir í bók Helga – sem er greinilega óborganleg).

Í vikunni gerðist það að einhver fullorðinn ákvað að lesa þessar bækur.  Nánar tiltekið Gæsahúð fyrir eldri: Villi Vampíra. Og úr varð skandall þaðan sem tilvitnanirnar hér að ofan eru teknar. Pistillinn sem kom öllu af stað er með tæplega þúsund shares, og fleiri hundruð likes og athugasemdir. Ég fæ ekki betur séð en þær séu allar á eina leið: Bækur Helga Jónssonar eru fordæmalaust sorp (tékk) og þær ætti tafarlaust að fjarlægja úr bókasöfnum, ef ekki bara hreinlega banna þær (nei, heyrðu mig nú).

Mótþróaröskunin í mér þolir svona lagað illa. Og þá hjálpar ekki til að innra með mér berjast tveir aðilar – rithöfundurinn með öll sín bókmenntaprinsipp og faðirinn sem vandar valið þegar hann kaupir bækur fyrir börnin sín. Já og sá þriðji, grunnskólalesandinn – horfinn núna, en það eimir eftir af honum – sem hætti að lesa í nokkur ár og áttaði sig svo á því í upphafi menntaskóla að það voru ekki bækur sem voru leiðinlegar, heldur helvítis unglingabókahöfundarnir sem voru að drepast úr meinleysi og kynleysi, akkúrat á sama tíma og ég stefndi hraðbyri í hina áttina.

Sem betur fer eru þeir allir í sama liði. En svo virðist sem veröldin – eða í það minnsta virkir í athugasemdum, allir þúsund talsins – séu í hinu liðinu.

Faðirinn segir: Fólk sem ofverndar börnin sín eignast trámatíseruð börn sem hafa aldrei séð neitt, upplifað neitt eða hugsað neitt (nema í beinni, hreinni línu). Þau verða einsog hysterískustu dæmin úr bandarískum háskólakampusum – úthverfabörn sem fá útbrot og bólur ef umhverfi þeirra er ekki siðferðislega sótthreinsað reglulega.  Það er ekki nóg með að fólk af slíku tagi sé óumberandi leiðinlegt heldur er það auk þess vansælt og illa í stakk búið til að takast á við lífið (sem er einmitt ekki sótthreinsað heldur siðferðislega skítugt, endalaus grá svæði, hávaði og læti).

Grunnskólalesandinn segir: Þetta er nú meira ódóið þessi karl. Textinn beinlínis angar af kynferðislegri þrá í garð unglingsstúlkna [svona talaði ég í grunnskóla]. Ég gæti sennilega lesið að minnsta kosti tuttugu svona bækur í einni beit áður en ég kastaði upp. Hugsanlega er þetta samt áhugaverðara en 90% af meðalmennskunni sem finna má á bókasafninu – þetta er þó almennilega lélegt, alveg óborganlegt drasl!

Rithöfundurinn segir: Er fullorðið fólk í alvöru að hvetja til þess að bækur verði fjarlægðar úr hillum bókasafna vegna þess að því misbýður umfjöllunarefni og orðalag? Hefur þetta fullorðna fólk sjálft ekki lesið neinar bækur? Áttar það sig ekki á því að annars vegar er þetta hál braut – bókasöfn eru full af vafasömu efni og margt af því er líka afar lélegt, hreinsunum af þessu tagi gæti ekki lokið við bækur Helga, ættu þeim að fylgja nokkur sanngirni – og hins vegar laðast lesendur, sérílagi ungir lesendur, ekki síst að því sem er forboðið. Með fullri virðingu: Getum við ekki eftirlátið einræðisherrunum að banna bækur? Það er hægt að gera ýmislegt annað, ef maður er í athafnamóð – ef manni finnst þetta ekki barnaefni er til dæmis hægt að flytja þær í fullorðinsdeildina. En sá sem fjarlægir bók eða bækur úr bókasafnshillu í ofsafengnum vandlætingarmóð er á afar hættulegri vegferð. Það liggur við að slíkur gjörningur ætti ekki að vera leyfilegur nema að undangengnum réttarhöldum.

Þá má bæta því við að sennilega er þessi tilhneiging einmitt hin hliðin – verri hliðin – á sama trailer trash hugsanaheimi og bækur Helga eru sprottnar úr.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png