Untitled

Allar góðar bloggfærslur ættu að hefjast á afsökunarbeiðni, það sé orðið svo langt frá því síðast var bloggað. Ég er tæknilega bara degi of seinn og sá dagur – hinn hefðbundni mánudagur – var annar í hvítasunnu og ég var lúinn eftir langa helgi með ritlistarnemum úr HÍ, hverjum ég kenndi og hékk með og las meira að segja upp með. Þessi þriðjudagur er því eiginlega mánudagur og þið getið bara tekið þessa afsökunarbeiðni ykkar og troðið henni.

***

Í hinni annars ágætu Transgender History eftir Susan Stryker skrifar hún stuttan pistil um „celebrity trans culture“ og nefnir meðal annars nokkra sjónvarpsþætti. Flesta hafði ég séð, en ekki Sense8 eftir Wachovski systur sem hún kallar „one of the most narratively complex, visually arresting and aesthetically challenging works in contemporary mainstream media.“

Og verandi áhugamaður um allt sem er narratively complex, visually arresting og aesthetically challenging ákvað ég að kíkja nú á þetta.

Þættirnir fjalla um átta einstaklinga sem allir eru fæddir á sama augnablikinu. Á fullorðinsaldri verða vitundir þeirra allar samtengdar – þannig að þau geta bæði heimsótt hvert annað í huganum og tekið yfir líkami hvers annars. Þau deila líka (að einhverju leyti a.m.k.) vitneskju og kunnáttu hvers annars. Ein sögupersónan er Íslendingur og eitthvað af þáttunum eru teknir upp á Íslandi.

Íslendingurinn heitir Riley Blue (fædd Gönnursdottor) og er hlédrægur DJ og flippað náttúrubarn með Bjarkaráru. Allir sem hún þekkir á Íslandi eru í lopapeysu. Einu sinni kemur kærastinn hennar að sækja hana í skólann á hesti. Inn í skólann. Hún er geðveikt sæt.

Í Nairobi hittum við rútubílstjóra sem er kallaður Van Damn (helvítis rútan). Hann er 21. aldar teik á the noble savage – fullkomlega hjartahreinn blökkumaður í iðrum hins spillta stórborgarfrumskógar. Hann er geðveikt sætur.

Lito Rodriguez er mexíkóskur hjartaknúsari og kvikmyndaleikari sem er í skápnum, gangandi ástríða – alltaf ýmist að springa úr hamingju eða farast úr harmi, blóðheitur einsog hann á kyn til. Geðveikt sætur.

Berlínarbúinn Wolfgang er grjótharður glæpamaður sem eyðir lífinu á knæpum og á reifum. Sljór af lífsins mikla áreiti, sínískur, hafandi of oft þurft að gera fleira en gott þykir í lífinu. Hann sést merkilegt nokk aldrei með kebab eða currywurst og hann er guði sé lof ekki grafískur hönnuður. Wolfgang er ógeðslega sætur.

Will Gorski er heiðarlega löggan – örlagamaður í eilífri leit að réttvísinni, allt sem er fagurt og saklaust við the american way of life. Geðveikt sætur.

Kala Dandekar er indversk og þar af leiðandi auðvitað vísindamaður, en þótt hún sé vísindamaður er hún líka indversk, og þar af leiðandi er hún eiginlega fyrst og fremst eiginkona, eða verðandi eiginkona, sem virðist ekki hafa mikið yfir örlögum sínum að segja almennt. Af því að hún er sko indversk. Kala er geðveikt sæt.

Sun er kóresk og í  S-Kóreu er mikið af stórfyrirtækjum og fólki sem kann kung fu og hugsar mikið um heiður. Sun er réttmætur erfingi stórfyrirtækis og mjög góð í kung fu. Bróðir hennar hefur engan heiður og hefur haft af henni stórfyrirtækið og gert hana að útlaga. Sun er fáránlega sæt.

Nomi er frá San Francisco og þess vegna er hún lesbía. En hún er líka frá San Francisco og fólk í San Francisco kann fleira en að vera samkynhneigt og þess vegna er hún líka hakkari. Allir sem hún þekkir í San Francisco eru líka samkynhneigðir og/eða hakkarar. Hún er líka trans kona, þú veist, af því að San Francisco. Ógeðslega sæt, var ég búinn að nefna það?

Í sem stystu máli sagt eru þessir fjölbreyttu einstaklingar allir mjög yfirgengilegar þjóðernissteríótýpur. Þetta er í sjálfu sér ekki óalgengt í genre-verkum en verður óþægilegt í verki sem á beinlínis að tækla steríótýpur og brjóta niður veggi ímyndunarafls og ídentítets – en endar á að undirstrika þær miklu fremur. Ég veit ekki hvort það hefði bjargað persónusköpuninni ef Nomi hefði verið í lopapeysu og Kala verið trans og Sun verið hjartaknúsari og Lito rútubílstjóri – en það hefði sennilega verið skref í rétta átt.

Í veröld sem á að fagna fjölbreytileikanum og brjóta niður múra er betra að forðast klisjur – og líklega hefði verið ágætt ef eitthvert þeirra hefði bara verið svolítið meira óaðlaðandi. Ekkert ljótt – þau gætu öll verið miklu ljótari en þau eru og samt miklu sætari en við hérna á jörðinni, homo sapiens – en kannski bara ekki alveg einsog þau hafi ekki borðað kolvetni frá því fyrir aldamót og sofið hverja nóttu á kafi í ilmum og kremum.

Þá er hugmyndin um svona gengi – þar sem allir hafa sinn hæfileika (Wolfgang er lásasmiður, Kala vísindamaður, Sun getur slegist, Nomi hakkari o.s.frv.) ekki frumlegri hérna en í Oceans 11.

Það er líka merkilega mikill súpremasismi í seríunni – beinlínis tegundahyggja. Ekki er nóg með að sense8 hópurinn sé bókstaflega presenteraður sem ný tegund mannkyns – homo sensorium – heldur er grundvallarforsenda seríunnar sú að homo sensorium sé æðri en homo sapiens, af því að þau eru svo samtengd og full meðlíðunar, samhygðar og hjartahlýju, og homo sapiens eru morðóð og hrædd og fordómafull (þetta er grundvallarforsendan í öllum alvöru rasisma).

Sem aftur breytir engu um að homo sensorium eru líka grimmilegar morðvélar þegar þau þurfa að vera það – alveg einsog homo sapiens – áttmenningarnir leysa engin vandamál með knúsum eða rökræðum heldur skjóta þau, sparka í þau, kúga þau og sprengja þau í tætlur. En þau mega eiga það að þau tala mikið um yfirburði sína, innsæi sitt og meðlíðan, og hversu vondir allir aðrir séu.  Verandi svona vitur og samtengd, hálfgerðar glóbal vitundir, þá eru þau samt merkilega sanslaus og skortir perspektíf á sig sjálf, gjörðir sínar eða orð. Svolítið kannski einsog þúsaldarkynslóðin sem þau eiga að representera.

Illa skrifuð samtöl, hallærislegar tökur og þvælingslegt plott gerir svo lítið til að bæta úr. Ég horfði á alla þættina og það var erfitt allan tímann. Að vísu var þáttur hér og þar sem var áhugaverður, stöku klisja var áhugaverð – en grundvallarplottið var óáhugavert og alltof miklum tíma eytt í einhverjar illa undirbyggðar rómansfléttur.

En því er eins farið með Sense8 og með Atlas Shrugged að fullt af vel gefnu fólki er hrifið af þessu. Það er einsog ef pólitíkin – í þessu tilfelli þessar yfirborðskenndu hugmyndir um samhygð og kærleika, á leveli sem fær Hárið til að hljóma einsog American Psycho, í hristingi með þjóðernis- og ídentítetsklisjum – samsvari skoðunum manns nógu vel þá missi maður hreinlega af því að listrænt er þetta álíka merkilegt og hver önnur síðdegissápa.

Ég hef lengi verið upptekinn af því hvað valdi því að samúð manns með tilteknu verki verður svo yfirdrifin að manni finnst það átomatískt gott. Þegar lesturinn verður svo sympatískur að maður finnur hvergi að gæðunum. Og hvar maður sé blindur á þetta sjálfur. 1984 fannst mér alltaf góð en ég kaupi líka alveg rök Kundera fyrir því að hún sé léleg (en það er líka mjög ómóðins að taka mark á Kundera). Ég skildi aldrei hvernig fólki gat fundist Hreinsun eftir Oksanen góð bók – og raunar var margt í pólitíkinni þar líka alveg kengsturlað. Fyrst og fremst var bókin samt þunnt melódrama. Slamljóðlistin er síðan príma dæmi – það er til óhemja af vondum, hæpuðum ljóðskáldum sem gera varla annað en að telja upp skoðanirnar sínar og skipta þeim upp í línur.

En ég held það sé líka staðreynd að verk sem ögra manni ekki heldur kitla – og kannski kitla ögrunarlega, eða staðsetja sig þannig að maður telur að þau hljóti að ögra öðrum (þeim sem eru ekki woke, ekki sense8 einsog við, heldur sapiens-plebbar) – njóta talsverðrar sjálfvirkrar velvildar. Knee-jerk. Og sennilega er maður blindur á þennan stað í eigin fari – maður bara nýtur kikksins þegar maður fær það. (En þýðir það þá að ég sé pólitískt mótfallinn samhygð og kærleika og ef það er satt er það ekki svolítið fucked up?)

En svo er líka hitt – að maður gerir mismunandi væntingar. Ef ég hefði haft núll væntingar til Sense8 hefði ég kannski bara horft á þetta, verið meðvitaður um að þetta væri drasl, en ekki látið það trufla mig. Einsog ég hef horft á svo ótalmargar draslseríur. En þetta truflaði mig.

Sense8 átti að verða fimm seríur en var stoppað eftir tvær. Wachovskisystur fengu hins vegar að gera einn tveggjatíma lokaþátt sem verður sýndur núna í byrjun júní. Ég get ekki beðið.

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png