Untitled

Rachel Dolezal heitir bandarísk kona og fyrrum talsmaður NAACP í Spokane. Hún segist vera svört þrátt fyrir að foreldrar hennar séu hvítir. Hún segist vera transsvört. Rachel komst í fréttirnar árið 2015 þegar blaðamaður afhjúpaði hana í beinni útsendingu – hann spurði hana fyrst um föður hennar og hún nefndi svartan mann sem hafði að einhverju leyti gengið henni í föðurstað. Hann ýtti þá að henni mynd af hvítum foreldrum hennar – fólki sem að sögn beitti hana og mörg systkini hennar miklu ofbeldi í æsku – og spurði hvort þetta væru ekki raunverulegir foreldrar hennar? Hún fraus og hikaði og gekk svo á braut.

Rachel ólst upp við mikla fátækt hjá ofurkristnum foreldrum – þau bjuggu úti í sveit og lifðu af gæðum jarðar, betli og alls kyns föndri. Þegar hún er unglingur taka foreldrar hennar upp á því að ættleiða börn, meðal annars til þess að fá inn aukatekjur (t.d. með því að fara fram á framlög frá öðru kristnu fólki) – og vegna þess að það er fljótlegra að ættleiða svarta en hvíta (meira framboð og minni eftirspurn, svo notað sé kaldranalegt orðalag) þá eru nýju systkini Rachelar öll svört. Hún segist sjálf hafa verið farin að ídentífera sem svört löngu fyrir þetta – upp úr National Geographic blöðum og þegar hún hafi sem barn teiknað myndir af sjálfri sér hafi hún alltaf notað brúnan. „Peach just didn’t resonate with me“ er ein af eftirminnilegustu línum sjálfsævisögu hennar, In Full Color.

En eftir að systkinin koma á heimilið tekur hún á sig ábyrgðina á því sem henni fannst foreldrar þeirra vanrækja: að uppfræða börnin um menningu svartra bandaríkjamanna. Hún sökkvir sér í lestur og verður alveg hugfangin. Á sama tíma eyðir hún líka talsverðri fyrirhöfn í hárumhirðu þeirra og verður á endanum afar fær „black hairdresser“ – kann allar fléttur og hefur af því hlutastarf á fullorðinsaldri.


Í menntaskóla byrjar hún að flétta hárið á sér og svo smám saman rekur hana nær og nær því að virðast svört í útliti. Þegar hún kynnist eiginmanni sínum dregur hins vegar úr því, þar sem hann – að hennar sögn – vildi helst að hún væri hvít (hann var sjálfur svartur) af því það væri stöðutákn fyrir sig. Ég get svo sem alveg ímyndað mér að honum hafi þótt þetta óþægilegt af öðrum sökum líka, en látum það vera. Þau eignast saman barn en skilja svo og þá fer Rachel aftur að „finna sig“ og eftir nokkur ár fer fólk að gera ráð fyrir því að hún sé einfaldlega svört – hárið á henni er þannig, barnið hennar er svart, áhugasvið hennar er svört menning og réttindabarátta svartra, hún er dugleg að hanga úti í sólinni og notar kannski aðeins dekkra meik en myndi passa henni annars. Og hún hættir að leiðrétta fólk og verður eins konar sérfræðingur í gloppulygum. Þegar hún er spurð hvort það sé mamma hennar eða pabbi sem sé hvít segir hún bara að mamma sín sé hvít (án þess að nefna að pabbi hennar sé það líka). Og svo framvegis. Síðar ættleiðir hún líka einn af bræðrum sínum – og á þar með tvö svört börn og eignast það þriðja bara fljótlega upp úr skandal.

Þetta er ekki Rachel, þetta er ég, níu ára. Kominn heim úr sumarfríi og byrjaður í skóla var ég kallaður „niggari“ af skólafélögum mínum langt fram á haust – en hef ekki séð sérstaka ástæðu til að skipta um eða leiðrétta kynþátt minn. Sem ég reikna með að sé fyrst og fremst ísfirskur eyrarpúki. 


Hér er ágætt að hafa í huga að kynþættir eru ekki eiginleg líffræðileg kategóría – einsog t.d. kyn er, þótt rétt sé að hafa í huga að kyn er á stóru og flóknu rófi (og allar líffræðilegar kategóríur eru líka menningarlegar). En það eru engir eiginleikar sem einkenna bara svarta eða hvíta eða aðra – hvítir geta haft sams konar hár og svartir, verið dökkir á húð, svartir geta verið ljósir o.s.frv.  Það eru sterkar tilhneigingar en þær eru ekki einhlítar og enginn einfaldur staður til að „draga línu“. Þá er auðvitað margþekkt að sumir svartir í bandaríkjunum og víðar „komust upp með“ að segjast hvítir í praktískum tilgangi, til að fá forréttindi – en færri dæmi um að fólk hafi farið yfir kynþáttalínuna í hina áttina (en þó samt nokkur, aðallega vegna ástarsambanda).

Þá hefur fólk verið talið „svart“ fyrir minnsta snert – eigi maður svartan forföður eða formóður þarf hán að vera mjög langt aftur í ættir til að maður teljist hvítur frekar en svartur. Það gekk til dæmis lengi sá orðrómur um Davíð Oddsson að afi hans eða langafi eða langalangafi eða langalangalangalangafi hafi verið svartur maður og þar hafi hann fengið sitt hrokkna hár, hann væri svartur – sem væri ekki síst skemmtilegt í ljósi þess að þá ættu tveir yngstu borgarfulltrúar í sögu Reykjavíkurborgar, Davíð og Sanna Magdalena, slíkan bakgrunn sameiginlegan.

Í bók sinni Trans: Gender and Race in an Age of Unsettled Identities ber Rogers Brubaker mál Rachelar Dolezal – og hugmyndina um kynþáttatrans almennt – saman við mál Caitlyn Jenner og hugmyndina um transkyn. Myndaþáttur Annie Leibovitz af Caitlyn Jenner hafði birst í Vanity Fair 10 dögum áður en Rachel var afhjúpuð – og misserin þar á eftir fóru í að fagna hugrekki Caitlynar en úthúða Rachel fyrir ruddaskap, menningarnám og lygar. Þessa staðreynd og þessa umræðu notar hann sem stökkpall fyrir núanseraðan debatt.


Það er síðan áhugavert að stór hluti af orðræðunni sem notuð er til að fordæma Rachel – að kynþættir séu fastir fyrir, að „transracial“ sé bara bull, að kynþáttum fylgi saga og sársauki sem utanaðkomandi megi ekki eigna sér, að hún sé að fetisjera líkama annars o.s.frv. – er svo til beint tekinn upp úr orðræðu TERF-fólks (Trans Exclusionary Radical Feminist) á borð við Janice Raymond og rímar algerlega við þá fordóma sem transfólk mátti (og má víða enn) þola. Okkur er mjög eðlislægt að standa grimman vörð um sjálfsmyndir annarra – sem er mjög merkileg hvöt. Það er einsog fólki finnist í raun samfélagsvefnaðinum ógnað – einsog það muni bara allt rakna upp og við öll steypast í kaos og glötun – ef nokkur hefur val um sjálfsmynd sína. Og heiftin er gegndarlaus.

Eitt af því sem er áhugavert í ævisögu Rachelar er síðan afstaða hennar sjálfrar til menningarnáms. Á meðan hún er algerlega grjóthörð á að hún hafi rétt til að kalla sig svarta – af því kynþættir séu (líka) menningarlegir og lífspekilegir og hún hafi orðið fyrir áreiti og rasisma vegna þess að hún virðist svört – þá er hún alfarið á móti því t.d. að hvítt fólk spili blústónlist eða rappi. Af því að þá eru þeir að ræna menningu svartra – og þar með svipta þá kúltúrkapítali.

Menningarnám er komplex hlutur og þótt ég skilji það pólitískt og gangist við stóru hreyfingunni þá á ég erfitt með að rifja upp nokkur stök dæmi sem mér finnst taka því að fordæma. Vanilla Ice hefur mátt þola nóg. Og svo held ég líka að það sé sá hlutur sem á eftir að virðast hlægilegastur í baksýnisspeglinum – þegar Lena Dunham studdi nemendur sem vildu láta taka sushi af skólamatseðlinum eða þegar Twitter trylltist yfir ungri stúlku í kínakjól (það vill til að konan mín á næstum alveg eins kjól og fór í honum í fínasta boð sem okkur hefur verið boðið í – í gyllta salnum í Stokkhólmi). Þess má geta að Twitter trylltist líka við tryllingjann í kínakjólsmálinu.

Stóri munurinn á kynjum og kynþáttum er sá að kyn erfast ekki – maður er ekki kona af því að mæður manns eru konur. Þar með eru allir skyldir konum og körlum og þau er að finna í öllum fjölskyldum. Þess vegna er kúgun kvenna relatíf við stétt þeirra og stöðu annars – sem patríarki get ég viljað að konan mín hlýði mér og sé mér undirskipuð, en ég vil á sama tíma að hún tilheyri sömu veröld og ég, njóti minna forréttinda með mér – á meðan kúgun svartra getur orðið botnlaus. Þessi munur þykir mér koma best fram í hinni misheppnuðu helför gegn þroskaheftum í þriðja ríkinu, sem hófst nokkru áður en stríðið brast á – hún gekk ekki upp af því þroskaheftir áttu ættingja alls staðar og allir áttu þroskaheftan ættingja. Það fólk, sem naut forréttinda og hafði völd, stóð einfaldlega vörð um sitt fólk og mótmælti meðferðinni. Þegar kom að gyðingunum og sígaununum var því ekki lengur að heilsa – af því þeir voru kynþáttur eða ættbálkur.

Brubaker tekur eðlilega líka fyrir það sem hann kallar „the trans of beyond“ og á þá við þá sem eru á rófinu á milli kynja eða kynþátta (eða einhvers annars), eða skilgreina sig hreint ekki innan þessara kerfa (og komast upp með það að vera óræðir, sem er alls ekki öllum gefið vel að merkja). Það er ekki síst þeim sem hefur fjölgað á síðustu áratugum. Rachel talar (illa, minnir mig) í bók sinni um þá sem eru kallaðir „oreos“ – svartir að utan en hvítir að innan – og hugtakið „wigger“ hefur heldur aldrei verið notað um neinn af virðingu.

En það er líka dulinn og hugsanlega mikilvægur ágreiningur milli handan-trans og milli-trans – því á meðan fyrri hópurinn leggur upp með að má út kynjamörkin leggur sá síðari í raun upp með að styrkja þau eða í það minnsta staðfesta, með því að færa sig einfaldlega frá A til B (eða líta svo á að þau séu í raun A en hafi mátt lifað í óleiðréttum B-líkama). Nú er ekki loku fyrir skotið að manni þyki bara „bæði best“ og óski öllum einfaldlega vel að lifa – en það er ekki heldur laust við að þarna örli á hugmyndafræðilegum ágreiningi og fulltrúar hópanna tala stundum heimspekilega óvarlega hver um annan, sennilega án þess að einu sinni ætla það.

Susan Stryker – hinn góði höfundur Transgender History – sem kom fyrir í síðustu færslu (af því hún er svo hrifin af Sense8 og fékk mig til að horfa á þau ósköp) er einmitt líka mjög hrifin af bók Brubakers og segir að hún sé „must-read for anybody interested in the questions “Who am I?” and “Who are You?““ Ég verð að taka undir með Stryker – Trans er með áhugaverðari bókum sem ég hef rekist á í þessari ódysseifsferð minni um heilann í Hans Blævi.

Annars má við þetta bæta að auk þess að lesa þessar tvær bækur þá horfði ég á flúnkunýja heimildamynd um Rachel á Netflix: The Rachel Divide. Hún var líka mjög fín. Ævisagan sjálf líður fyrir lélega ritstjórn – eða lélegan meðhöfund. Rachel reynir eðlilega svo mikið að verja sig og útskýra sig að hún virkar bara paþológísk á eftir – góður höfundur hefði dregið  úr þessu einsog hverju öðru sjálfhverfuröfli og reynt að straumlínulaga lógíkina svolítið. Hún er áhugaverðust í byrjun – æsku- og unglingsárin og fyrstu fullorðinsárin – og svo í lokin þegar allt hefur komist upp. Millispilið er svolítið þreytandi. En Rachel er augljóslega of óreyndur höfundur og í of miklu uppnámi – milli tannanna á bókstaflega öllum hinum vestræna heimi – tl þess að púlla þetta sjálf. Heimildamyndin er betur gerð og það er gott að sjá framan í fólkið – en það voru einhverjar smávægilegar staðreyndavillur í henni, og hún fer auðvitað miklu fljótar yfir sögu.

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png