Untitled

Ég bloggaði hvorki á laugardag né sunnudag en þeir dagar teljast heldur ekki með, laugardagur og sunnudagur eru svokallaðir „rauðir dagar“. Rauðir dagar er einmitt heiti á nýrri bók eftir Elis Burrau sem ég verð að eignast. Og heiti á bók eftir Einar Má Guðmundsson, sem ég las fyrir löngu og stenst ekki samanburð við aðrar bækur hans, a.m.k. ekki þær sem ég hef lesið.

***

Örlög internetsins eru ótrúlega sorgleg. Að fara frá því að vera einhvers konar villta vestur andans – vettvangur hins óstýrða og fallega kaotíska – yfir í að vera Facebook og Twitter og nokkrir stórir fjölmiðlar. Og skyndilega er félagslíf heimsins í eigu dystópískra stórfyrirtækja sem breiða yfir það siðferði sitt og pólitík. Yfir allri lýðræðislegri umræðu – eða 99% af þeim hluta hennar sem er yfir höfuð aðgengilegur – vakir þingforseti stórfyrirtækis og lemur í bjöllu ef honum mislíkar, sendir menn jafnvel í frí. Og við hjálpum auðvitað til með því að tilkynna alla grunsamlega ósiðferðislega hegðun.

***

Ég hef verið að æfa nokkur Angus Young sóló og er kominn með hryllilega blöðru á baugfingur vinstri handar. Hún meiðir mig ekki mikið nema rétt á meðan ég er að spila.

***

Mér finnst einsog það hljóti að vera eitthvað að því hvernig ég nota Facebook fyrst ég hef aldrei verið bannaður. Ég þarf að taka mig á. Reyndar er ég að fara í sumarfrí líka. Ekki frá blogginu samt, þessum gullaldarmiðli.

***

Á morgun eru níu vikur frá því ég missti eldhúsið. Átta af þessum vikum fóru í að bíða eftir að trésmiðja kláraði að snikka til fyrir okkur borðplötu. Í dag kemur vonandi smiðurinn og gengur frá þessu, eða byrjar að ganga frá þessu. En hann ætlaði að vísu líka að koma á föstudag og líka á laugardag og ég hef ekkert heyrt frá honum þrátt fyrir eftirrekstur. Ef ég skrifa einhvern tíma aftur matreiðslubók (ég skrifa aldrei aftur matreiðslubók) þá verður hún um það hvernig maður bjargar sér með vöfflujárni og hrísgrjónapotti.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png