Untitled

Smiðurinn hafði boðað komu sína í dag, ofan í efasemdir mínar um að það myndi standast. Í morgun fékk ég skilaboð þess efnis að hann kæmi í dag. Klukkan sex. Með borðplötuna. Væntanlega fer hann svo strax út aftur, enda vinnudeginum lokið. Á morgun er Uppstigningardagur. Í minni bók heitir það að „byrja á föstudag“ en ekki miðvikudag, en ég er náttúrulega frekar smámunasamur að eðlisgerð og gott ef ekki hreinlega ómerkilegur og snúðugur ofan í kaupið.

***

Húsið okkar er á Airbnb-markaðnum í júlí og langt fram eftir ágústmánuði. Við verðum í Skandinavistan. En það hreyfist ekki, ekki komin ein bókun, og ég átta mig ekki á því hvort það er þá að koma svona illa upp í leitarvélinni eða hvað það er. Í fyrra bókaðist allt upp á nóinu. Að vísu vorum við þá nokkuð tímanlegri með að setja það inn. Helvítis frestunarárátta alltaf hreint.

***

Í gær grillaði ég pæ. Svo grillaði ég poppkorn. Ég veit ekkert hvað ég nenni að grilla í kvöld. Hrísgrjónapotturinn gaf upp öndina fyrir nokkrum dögum. Kannski kaupi ég bara einhvern örbylgjumat.

***

Algengt yndislestrarmynstur í lífi mínu er svona. Ég les fyrstu 100 síðurnar í 300 blaðsíðna skáldsögu og finnst hún mjög heillandi, gott ef ekki frábær. Næstu 100 síðurnar halda mér en mér fer þó smám saman finnast ég lesa þetta af skyldurækni. Síðustu 100 síðurnar les ég á hálfu ár, eina síðu í einu, einsog það sé að gera út af við mig að klára þetta fyrirsjáanlega meðalmennskudrasl. Þetta mynstur endurtekur sig með ólíklegustu bækur, fyrst og fremst skáldsögur þó – eftir stóra og litla höfunda, íslenska og erlenda. Og mig er farið að gruna að þetta hafi meira með mig að gera en bækurnar.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png