Untitled

Í gær eða fyrradag sá ég mann stinga upp á því á Facebook að ættingjum sjálfsmorðsíslamista, og hugsanlega klerkum þeirra og safnaðarsystkinum, yrði vísað úr landi í refsingaskyni. Það myndi hafa letjandi áhrif. Því auðvitað vilja hryðjuverkamenn ekki skapa kaos og þeir gæta sín alla jafna mjög vel að glæpir þeirra bitni ekki á saklausu fólki, sérstaklega ekki múslimum (langsamlega flest hryðjuverk íslamista eru reyndar framin gegn múslimum, en látum það liggja milli hluta). Svo er það líka bara sanngjarnt.

***

Það væri reyndar áhugavert að taka þetta upp á fleiri sviðum. Segjum til dæmis að í stað þess að sekta ríkt fólk fyrir of hraðan akstur – fólk sem munar ekkert um örfáa tíuþúsundkalla af og til – þá sektum við fátæka ættingja þeirra. Og langt leiddir eiturlyfjasjúklingar sem er alveg sama þótt þeim sé stungið inn – hvað með að fangelsa mæður þeirra í staðinn? Væri það ekki líklegt til þess að hrista aðeins upp í dauðvona samviskum fíklana? Og auðvitað bara sanngjarnt að refsa mæðrunum fyrir að ala þá ekki betur upp.

***

Ég ætlaði að skrifa eitthvað á Facebook í gærkvöldi en hætti svo við af því það gæti misskilist sem einhvers konar smekkleysi. Sennilega var það þetta: „Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að ekkert ykkar sé að drífa sig nóg með lífið. Koma svo. Þetta drepur sig ekki sjálft.“ Það sem sló mig var að einhver gæti haldið að ég væri að hvetja til sjálfsmorð – þetta væri einhver sínísk hæðni (fólk heldur mjög oft að ég sé sínískur og kannski er ég smá sínískur en það er líka von og kærleikur í mér, ég lofa). En þetta var sem sagt rósamálsgagnrýni á styttingu framhaldsskólans og það sem var alltaf kallað „lífsgæðakapphlaupið“ (nú finnst mér einsog enginn hafi notað þetta orð lengi – þótt það hafi aldrei átt betur við en á hipsterískum tímum viðstöðulausrar gentrifieringar).

***

Á síðustu helgi bað Aram mig um spinner og varð alveg vitlaus af fýlu þegar hann var ekki til í Hamraborg. Ég fékk að sjá svona hjá einum vini hans og varð mjög forvitinn um tilurð þessa, hvað þetta væri, sá engan augljósan leik þarna. Ímyndaði mér einhvern mann (því karlar gera allt í höfðinu á manni) sem hefði sett þetta saman og hugsað: krakkarnir verða vitlausir í þetta. Sem liggur alls ekki beint við. Áðan gúgglaði ég þessu og komst að því að það var auðvitað kona sem fann þetta upp og það var á tíunda áratugnum, þótt leikfangið hafi ekki náð vinsældum fyrren í ár. Hún fékk innblástur að því að búa til róandi leikfang – þetta er meðal annars hugsað fyrir ofvirk börn – þegar hún sá hóp reiðra palestínskra barna grýta ísraelskan skriðdreka. Og hugsaði: Þessi börn þurfa hugarró. Og þar hafiði það. Spinnerinn var fundinn upp til þess að stöðva uppreisn palestínumanna og sefa reiði þeirra.

***

Í fyrradag, þegar verið var að opna Costco, skrifaði ég líka status sem var svona: „Hugur minn er hjá Hennes och Mauritz.“ Hennes og Mauritz eru auðvitað H&M mennirnir – sveitungar mínir frá Västerås, þar sem fyrsta H&M verslunin stendur. Í mörg ár hefur þjóðin haft móðursýkislegan áhuga á þessum lágvörutískuvarningi og mögulegri opnun H&M verslunar á Íslandi. Nú fer hún fljótlega að opna, hafi ég ekki misskilið eitthvað. Og þá kom bara ameríski risinn og stal þrumunni þeirra með bravúr. Það fer sennilega fyrir H&M á Íslandi einsog Subway á Ísafirði – það var barist fyrir opnun Subway árum saman, síðan opnaði staðurinn loksins, allir keyptu sér eina samloku og svo fór hann á hausinn. Nú er tælenskur staður í rýminu, alveg nákvæmlega eins tælenskur staður og í rýminu við hliðina – og gengur betur en Subway, þrátt fyrir það.

***

Nema hvað. Ég var auðvitað sakaður um að gera lítið úr atburðunum í Manchester. Af „vonda fólkinu“. Og ég sem hélt að „góða fólkið“ hefði einkarétt á að telja sig triggerað af vafasömu gríni – jafnvel þegar enginn fótur er fyrir því – þannig virkar það líka oftar, a.m.k. fyrir mig, ég fæ reglulega skammir og var m.a.s. nýlega neitað um birtingu ljóðs, sem hafði verið samþykkt, í kanadísku tímariti, af því það væri svo beinskeytt (það var ekkert beinskeytt).

***

En svo hvarflar að mér að kannski ímyndar maður sér bara að það sé góða fólkið sem er alltaf hneykslað. Ekki hef ég hugmynd um hvar þessir kanadamenn standa í pólitík – hvort þeim finnst betra að börn drukkni í Miðjarðarhafinu eða að þau verði sprengd í tætlur á popptónleikum. Kannski finnst þeim bæði verra. Eða bæði betra, þótt mér finnist það kannski ólíklegast, yfirleitt vill maður annað hvort eða hvorugt.

***

Já, nei nei. Ég er hættur. Von og kærleikur, von og kærleikur. Ég lofa!

1 view0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png