Untitled

Ég hef stundum setið við skriftir í miklum hita og hugsa þá alltaf til lýsingar á Halldóri Laxness, sem var sennilega frá honum sjálfum komin, þar sem hann sat á Taormínu með penna í annarri hendi og flugnaspaða í hinni, í engu nema einglyrninu. Þá var hann að skrifa Vefarann. Hér í Krems við Dóná er ekki mikið af flugum, a.m.k. ekki í stúdíóíbúðinni minni, en það er mjög heitt. Ég þarf ekki heldur gleraugu og er svo siðprúður að ég fer ekki úr nærbuxunum við skriftir, sama hvað ég svitna, og ekki heldur giftingarhringnum – en allt annað fær að fjúka. Ég er með útsýni yfir Dóná sem rennur hér hjá hundrað metra í burtu og eitthvað lengra, uppi í hlíðunum, er slangur af kastölum.

Hinumegin við húsið – hér eru íbúðir fyrir listamenn og „bókmenntahús“ bæjarins (ef þetta 20 þúsund manna þorp getur rekið bókmenntahús þá ættum við að ráða við eitt á Íslandi) – er helsta öryggisfangelsi Austurríkismanna. Þar bjó meðal annars, meðan hann lifði, hinn frægi vændiskonumorðingi Jack Unterweger, en nú er frægasti fanginn enginn annar en Josef Fritzl.

Bara hérna hinumegin við götuna. Josef Fritzl.

Það er svolítið spes tilfinning að vera svona nánast í kallfæri við hann. Það er mikill múr utanum útisvæði hinumegin við fangelsið og mér hefur stundum dottið í hug að maður gæti kallað til hans – fái hann nokkru sinni að fara út undir bert loft er það þar og hann myndi áreiðanlega heyra í manni. En hvað ætti maður að segja? Varla fer ég að tala um HM – Austurríkismenn hafa ekki komist á HM síðan 1998.

Ég skila Hans Blævi þann 1. júlí. Sama dag verð ég líka fertugur. Í gær horfði ég á þá ágætu mynd The World According to Garp, sem gerð er eftir enn ágætari skáldsögu Johns Irving (og ein aðalsöguhetjan, Roberta Muldoon, er trans sem John Lithgow leikur í myndinni). Í þeirri mynd lendir hjónaband Garps og konu hans í heljarinnar vandræðum þegar þau verða miðaldra og gröð í unglinga. Hann heldur framhjá með barnapíunni og hún með nemanda sínum. Og haldiði ekki að það komi fram að þau, þarna þetta miðaldra, lífsleiða fólk sem reynir að ríða æskunni því það hefur glatað sinni eigin, séu ekki bara rétt svo þrítug?

Hvað verður þá um okkur, sem verða fertug? Væri ekki bara miskunnsamast að moka yfir okkur strax? Okkur sem eru meira að segja of gömul fyrir gráa fiðringinn.

***

Lokametrarnir í skáldsögu eru alltaf þungir. En spennandi. Skemmtilegir og ömurlegir. Maður dundar sér við að gylla sprungurnar, skreyta og laga – sem er gaman – og svitnar yfir öllum mistökunum sem maður hlýtur að vera að gera. Smávægilegar gloppur eru óhjákvæmilegar nema verkið sé mjög smátt að sniðum. En hvað ef manni yfirsést eitthvað ægilegt? Eitthvað sem ógnar sjálfu samhengi sögunnar?

Maður starir og starir, breytir kommum í semíkommur (af því einsog Vonnegut benti á, reyndar með vanþóknun, þá eru semíkommur „transvestite hermaphrodites“ og því vel viðeigandi), fellir niður sviga, bætir inn punktum, færir til einstöku setningu, þurrkar svo út heilu kaflana og endurskrifar þá, og er almennt bara að fara á taugum. Kannski eyðileggur maður fleira en maður lagar. En hugmyndin er samt að laga fleira en maður eyðileggur.

Ég er líka enn að lesa og horfa á efni tengt bókinni og held því nú sennilega áfram fram yfir útgáfu – allavega út haustið. Í gær kláraði ég Frankenstein. Það eru augljósar tengingar á milli verkanna – öll skrímsli (og tröll) eru afkomendur skrímslis Frankensteins (og þar með doktor Frankensteins líka). Ég hafði í huga að skoða bókina sérstaklega út frá frægri ritgerð Susan Stryker My Words to Viktor Frankenstein above the Village of Chamounix: Performing Transgender Rage, þar sem hún talar meðal annars um kraftinn sem maður getur fengið út úr því að gangast við skrímslinu, verða skrímslið – og það er eitthvað sem augljóslega höfðar til Hans Blævar – en ég fann svo sem engan æðislegan vinkil á það mál allt saman. Þessir þræðir og þessar hugmyndir eru allar til staðar og það er bara óþarfi að ofgera hlutunum (þar erum við HB reyndar ósammála).

Annars hef ég það svo sem fínt, þótt ég sé líka að missa vitið. Mollan bakar mann svo maður verður þrunginn doða, kvíða og vellíðan – pungsveittur og rjóður frá morgni til kvölds. Það erfiðasta hérna er að mér skuli ekki lukkast að sofa með viftuna í gangi – þar er dómadagssuðinu um að kenna.

***

PS. Ég er að hugsa um að bæta við aukafærslum á miðvikudögum og föstudögum. Ein verður bara lag – ég á myndarlegan playlista tengdan Hans Blævi – og hin verður tilvitnun.

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png