Untitled

Einsog hefur ekki farið framhjá þjóðinni, þótt ég hafi gleymt að kveðja, hef ég verið í sumarfríi. Hér hafa bara birst lög og tilvitnanir í júlí enda er það allt stillt langt fram í tímann og kostar mig því enga fyrirhöfn þar sem ég ligg með tærnar í sandinum, sötra bjór og leik við börnin mín. Ég hef reynt að fylgjast sem allra minnst með internetinu á þessum tíma, afeitra sálina eftir þær fremur intensífu djúpstörur sem lokaskeið bókarinnar krafðist en það hefur gengið bölvanlega, ef satt skal segja. Internetið lætur ekki að sér hæða. Ég er að vísu ekki á Facebook og ekki með neinar nothæfar bakdyr til þess að fylgjast með þar, sem er sannarlega talsverður léttir, en ég er með twitter-aðgang Starafugls og svo les ég hverja einustu frétt sem er skrifuð á íslensku og talsvert af fréttum á sænsku og ensku. Mikið af íslensku fréttunum fjalla um það sem gerist á Facebook.

***

Það hefur hvarflað að mér upp á síðkastið hvort fréttirnar séu kannski verstar – næringarsnauðastar – og ekki bara þær sem fjalla um það sem gerist á Facebook. Eitt af því sem ég gerði í fríinu var að lesa viðtalsbók við Tom Waits og eftir það langaði mig helst að lesa í ryðbletti á bílum. Sennilega verður lítið úr því en það er hins vegar alveg í myndinni að ég taki mér ákafari internetpásur í haust þegar ég get leyft mér það – í augnablikinu þarf ég að vera í sambandi við fólkið sem leigir og fær lánað húsið mitt á Ísafirði og get ekki bara slökkt og þá er maður meira einsog alkinn sem er að reyna að verða að minnsta kosti ekki ofurölvi innanum fólk en sá sem er á snúrunni. Ég er hérna til að sinna skyldustörfum.

***

Svo er spurning um að reyna að hafa húmor fyrir þessu öllu saman – skapa nauðsynlegan distans til að lifa andköfin af. Það er ekki alveg einfalt því húmor fylgir alltaf svo mikil grimmd. Ég hlæ alveg svolítið innan í mér við að fylgjast með Twitter fara á hliðina fyrst í baráttunni gegn notkun plaströra á veitingastöðum og síðan vegna þess að plaströr reynast nauðsynleg hjálpartæki fyrir fatlaða, sem stendur slysahætta af fjölnotarörum (og þá eru þeir sem eru á móti rörum líka á móti fötluðum og þeir sem eru með rörum hata umhverfið). Það er eitthvað sprenghlægilegt við fjaðrafokið sem slíkt – rétt einsog það er gaman að trúbadorinn Biggi Sævars (svartur) sé að debatera opinberlega við Króla (hvítan) um blackface. Það er gaman vegna þess að þetta er allt svo vandræðalegt og klaufalegt – hóphneykslan er kannski oft gagnleg, oft nauðsynleg, en hún er líka frámunalega grunn.

***

Og sem sagt, svo vill maður ekki hlæja og ekki játa á sig flissið opinberlega (þið látið einsog ég hafi ekkert sagt) vegna þess að maður vill ekki styðja hversdagsrasisma, vill ekki taka þátt í landsbyggðarfyrirlitningu, finnst mikilvægt að dregið verði úr plastnotkun og það verði gert án þess að fatlaðir beri af því mesta þungan. Og þegar maður hlær ekki, leyfir sér ekki þessa grimmd heldur situr á henni – bælir hana niður, bókstaflega – þá fær maður samviskubit gagnvart sjálfum sér, einsog maður sé að svíkja sig. Maður segir aldrei neitt nema þá sjaldan mann langar að taka undir eitthvað.

***

Kannski er það versta við „pólitísku réttsýnina“ hversu einfaldur skilningur hennar á húmor er – á hlutverki húmors – því skilningur okkar á hlutverki húmors er yfirleitt mjög náinn skilningi okkar á hlutverki lista yfirleitt. Ef afstaða okkar til húmors er dogmatísk er afstaða okkar til lista dogmatísk og þá er afstaða okkar til heimsins dogmatísk.

***

Listin er ekki góður vettvangur fyrir móralska einfeldni. Hún er vont pólitískt verkfæri vegna þess að sá sem sinnir henni af nokkrum heiðarleik ræður ekki alveg hver verður fyrir henni eða hver getur fært sér hana í nyt. Góð list getur af þessum sökum vel verið brennsli á bál illmenna. Og hefur oft verið það – frá Knut Hamsun til Ozzy Osbourne, frá Salo til Eminem. Hún göfgar eitthvað annað en baráttu hins góða gegn hinu illa – þótt dæmi séu um að hún geri einmitt það (t.d. Star Wars, Atlas Shrugged og 1984).

***

List sem hefur enga snertipunkta við „pólitík“ hefur svo enga snertipunkta við heiminn. Hún er bara misvelgert dútl – svona einsog maður krotar í bók meðan maður talar í landlínusíma.

***

Ég á eftir að hlusta á lagið þar sem rappað er um bitches – það var annar skandall. Skáldið Kött Grá Pje skrifaði á Twitter í vikunni eitthvað um að kannski væri tími rappsins bara liðinn og kominn tími á meiri drullu, meira pönk. Það var presenterað í fjölmiðlum sem gagnrýni á lagið, á orðanotkunina, og kannski var það hugsað þannig en það sló mig samt hvað væri skrítið að biðja um skítugra pönk einsog það væri þá ekki jafn tillitslaust og rappið – og hvort KGP væri þá að biðja um „hreinni skít“, skítinn án essensins, svona skít sem maður getur pósað með en sem maður verður ekki skítugur af að snerta.

***

Ég byrjaði annars mánuðinn á að eiga afmæli og fékk nýjan gítar í afmælisgjöf – kolbikasvartan Gibson SG sem heitir „Gálknið“.

***

Og þá hló þingheimur.

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png