Untitled

„Við erum í borg þar sem enginn veit hvar allt er“, sagði Aram Nói við systur sína þegar við þrömmuðum yfir Mannerheimintie fyrr í kvöld, hvert okkar með sinn sjeik í hönd. Hann var að reyna að sannfæra systur sína um að leiða sig. Ekki svo að hún týndist, vel að merkja – hún leiddi mig með hinni hendinni – heldur svo að hann týndist ekki sjálfur.

***

Við erum í borg þar sem enginn veit hvar allt er. Í gærkvöldi kláraði ég Kaputt eftir ítalska höfundinn Malaparte (þetta er höfundarnafn; leikur að Bonaparte). Hann var fyrrverandi fasisti, hafði setið inni fyrir svik við málstaðinn, en gerðist svo stríðsfréttaritari í seinni heimsstyrjöldinni eftir að hafa talað til tengdason Mussolinis. Og ferðaðist því frítt út um allt og lýsir því í tveimur bókum. Önnur þeirra er safn þeirra frétta sem hann skrifaði – líka þeirra sem fengust ekki birtar á sínum tíma – en hin er Kaputt, eins konar sturlaður óður til stríðsins, skáldskaparins og mannkynsins. Bókin er á köflum grótesk, á köflum rabelasísk, fantastísk – útúrsnúningar, ýkjur og furðulegir órar.

***

Og hann er hraðlyginn, blessaður maðurinn. Lýsir átakanlegri göngu í gegnum gettóið í Varsjá – klæddur í herbúning fasista – sem átti sér aldrei stað. Og ýmsu öðru. Samúð hans er að vísu heilbrigð – en hugsanlega er eitthvað af því eftiráspeki. Bókin kemur út áður en stríðinu lýkur, en þegar hann hefur að skrifa hana lá samúð hans víst nær fasistaliðinu – þá hélt hann að Hitler myndi vinna, en þegar hallaði undan fæti hjá Þjóðverjum editeraði hann eitt og annað til samræmis. Sneri bröndurum um englandskonung yfir á Hitler og svo framvegis.

***

Þessi ítalski höfundur skrifar talsvert um Svíþjóð og Finnland og er hrifinn af þeim. Ekki síst Finnlandi, þar sem hann dvaldi langdvölum. Hann hefur mikla unun af að sletta finnsku (misvel, sýnist mér) og lýsa staðarháttum og húsum og bæjum og skógum og fólki í smáatriðum. Sennilega hefur hann verið afar minnugur (og óskammfeilið skreytinn). Hann hefur húmor fyrir Finnum og ber talsverðan kærleika til þeirra. Á einum stað skrifar hann að þegar Evrópubúar deyi vonist þeir til þess að komast til Himnaríkis; en þegar Finnar deyi vonist þeir til að komast til Ameríku. Og þrátt fyrir að Malaparte hafi í raun verið pípandi kommúnisti – og gengið í flokkinn strax eftir stríð – er alveg ljóst að samúð hans liggur hjá Finnum í þessu máli.

***

Atwood skrifar á kápu að enginn geti skilið mannlega hlið stríðsins án þess að lesa Kaputt. Kundera skrifar einhvers staðar að Kaputt sé bókmenntaverk með svo sterkan og augljósan fagurfræðilegan ásetning að það þurrki út allt samhengi sagnfræðinnar, blaðamennskunar, stjórnmálagreiningarinnar eða ævisagnaritarans.

***

Fyrir mér er Kaputt allt það sem fólk segir að Min Kamp sé – sterk, ideosynkratísk og ótrúlega vel stíluð, um mikilvæga atburði, en stappfull af dreymandi hversdagsleika (ég upplifi Min Kamp meira einsog Bold and The Beautiful með fágaðri stíl og meiri gáfumanna- millistéttarvandamálum). Fimm stjörnu tryllingur.

***

Annars eyddum við deginum í tivolíinu Linnanmäki. Og í sundi. Es war sehr schön. Molto bello. Erittain kiva.

1 view0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png