Untitled

Á morgun fer ég til Hald í Danmörku þar sem ég mun hitta danska ljóðskáldið Martin Glaz Serup og austurríska ljóðskáldið Jörg Piringer. Í fyrrasumar fórum við saman með rútu frá Tyrklandi til Þessalóniku og lásum upp á leiðinni – og milli upplestra kokkuðum við upp hugmynd að bók.  Nokkrum mánuðum síðar skrifuðum við afar gróft handrit á fáeinum dögum í íbúð Jörgs í Vínarborg. Við höfum potað í handritið af og til síðan og ætlum nú að hittast í dönskum skógi til að klára þetta.

***

Í dag er síðasti dagurinn í Finnlandi af minni hálfu. Við erum komin út úr iðrum skógarins og erum í útkanti Helsinki. Við hlustuðum á AC/DC í bílnum á leiðinni heim. Ég dundaði mér við að greina áhrif – fannst ég heyra Free, Ten Years After, Yardbirds og fleira – en þegar ég kom heim og fór að gúgla hvað þeir segja sjálfir kom fátt af því í ljós. Nema að trommarinn í Free virðist hafa komið til greina einhvern tíma. Sem trommari í AC/DC meina ég. En fékk ekki djobbið.

***

Það voru meira Stones og Little Richard og sú áttin. Ég er enginn Stonesmaður. Þeir eru of snyrtilegir.

***

Það sem kom mér á óvart var líka að þótt meðlimir AC/DC hafi mátt draga ýmsa djöfla fer því fjarri að hljómsveitin sem slík hafi verið nokkur tortímingarmaskína – einsog Guns eða Mötley eða þær allar. Malcolm hefur tekist á við áfengisdjöfulinn meira og minna skandalalaust. Angus hefur aldrei drukkið. Ekki sopa, að sögn. Phil er sá sem mest vandræði hafa verið með – var enda rekinn úr hljómsveitinni í tvígang fyrir rugl. Brian Johnson er víst annálaður rólyndismaður – áhugamaður um leti og tedrykkju – annað en forveri hans, Bon Scott, sem auðvitað drakk sig í hel, einsog frægt er.

***

Það er auðvitað mjög snyrtilegt að vera tedrykkjumaður og á snúrunni.

***

Þegar það átti að velja nýjan söngvara til að klára Back in Black, eftir að Bon drukknaði í eigin ælu, voru auðvitað góð ráð dýr. Fyrst átti bara að slaufa þessu. Hljómsveitir eru bræðralög og maður skiptir ekki út bræðrum sínum. Það var ekki fyrren fjölskylda Bons bað þá að láta þetta í guðs bænum ekki stöðva sig að Youngbræður rifjuðu upp hversu hlýlega Bon hafði talað um söngvara hljómsveitarinnar Geordie, sem hann hafði séð spilað fyrir löngu. Það væri alvöru rokksöngvari í anda Little Richard. Og leituðu hann uppi. Og fundu nýjan bróður.

***

Auðvitað höfðu aðdáendurnir efasemdir. Frontmannaskipti misheppnast hrapalega í níu skipti af hverjum tíu. Og í þessu eina eru þau rétt svo skítsæmileg. Það sleppur fyrir horn. En dýrðin hverfur undantekningalaust.

***

Back in Black hefst á Hells Bells. Brian Johnson byrjar ekki að syngja fyrren eftir eina og hálfa mínútu. Þá er búið að klingja öllum bjöllunum og fara í gegnum tvær ólíkar útgáfur af aðalstefinu. Vélin er keyrð í gang með varfærni og af virðingu – platan er tileinkuð Bon Scott – og hefst eðli málsins samkvæmt í helvíti.

***

Lagið má – og ætti – að lesa sem fagurfræðilega yfirlýsingu Brians Johnson, loforð til aðdáenda, persónulegt sendibréf hans til Bons og sem ástaróð hljómsveitarinnar til síns gamla vinar.  Í anda AC/DC og forverans er kveðið dýrt og hrokafullt – þetta gæti verið Bólu Hjálmar („Mínir vinir fara fjöld, / feigðin þessa heimtar köld, / ég kem eftir, kannske í kvöld,  / með klofinn hjálm og rifinn skjöld,  / brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld) Kanye eða Eminem.

***

I’m rolling thunder, pouring rain. I’m coming on like a hurricane. My lightning’s flashing across the sky. You’re only young but you’re gonna die

[…]

I’ll give you black sensations up and down your spine If you’re into evil you’re a friend of mine See the white light flashing as I split the night Cause if good’s on the left then I’m sticking to the right

***

#ACDC

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png