Untitled

Ljóðaritstjórar The Nation báðust á dögunum afsökunar fyrir að hafa birt ljóð sem er skrifað á „svörtu talmáli“ – einsog það er kallað – af hvítum manni. Ljóðið, sem er ágætt en ekkert meistaraverk, sleppir sögnum („you a girl“) og beygir þær „vitlaust“ („they is“) en annars er í sjálfu sér lítið að sjá – málfarið er ekki beinlínis revolúsjónerandi. Þá kemur orðið „crippled“ fyrir. Ritstjórarnir – og skáldið raunar líka – báðust innilega afsökunar á að hafa sært viðkomandi „communities“ (fatlaða og litaða, held ég, en kannski áttu þau líka við fleiri) og sögðust myndu endurskoða starfshætti sína og sig sjálf í framtíðinni. Kona nokkur, Grace Schulman, 83 ára ljóðskáld sem gegndi þessari sömu stöðu í 35 ár, en lét af störfum fyrir rúmum áratug, skrifaði þá opið bréf og sagði nokkurn veginn að ritstjórarnir væru hryggjarlausir aumingjar og heimur sem ekki stæði vörð um skáldskapinn ætti hann ekki skilið og myndi fljótt úrkynjast og verða eigin fáfræði að bráð.

***

Hér eru auðvitað milljón snertipunktar. Hvað er til dæmis svart talmál og er það bara talað af svörtum – er það menningarnám þegar það er talað af hvítum og er einfaldlega hægt að gera ráð fyrir því í ljóði að ljóðmælandi sé svartur ef hann notar tiltekinn orðaforða, tiltekið slangur? Er gengið út frá því að ljóðmælandi sé hvítur að herma eftir svörtum eða má hvítt ljóðskáld ekki skrifa svartan ljóðmælanda? Að hversu miklu leyti er ídentítet bundið í tungumál? Ég held að meira og minna 90% af öllu amerísku slangri eigi uppruna sinn í svörtu talmáli – og kannski er raunverulegasti rasisminn í þessu sá að kalla slangur sem einkennist af málvillum „svart talmál“ einsog svart fólk sé allt eins menntað og allt með sama bakgrunn, allt úr sama hverfinu, frá sama landinu. Hvítt talmál er þá bara enska drottningarinnar. Allur götudíalekt er í stöðugri og snarpri þróun og er yfirleitt bara talaður af einni og einni kynslóð í einu, en smitast innan kynslóða og yfir kynþáttalínur og jafnvel stéttalínur – enda hafa unglingar í Bandaríkjunum verið aldir upp á hipphopp tónlist nú í að verða fjörutíu ár.

***

Talar Króli svartan díalekt – eða var það Biggi Sævars? Talar Obama svart talmál við börnin sín? Svara þau Michelle á svörtu talmáli?

***

Sem þýðir ekki að díalekt sé ekki merkingarbær, vel að merkja. Það bara flækir málin. Við lesum ýmislegt úr orðavali í textum og stærsta vandamálið í því öllu saman er að við skulum lesa núllstillinguna – slangur og skrautlausa málið undantekningalítið sem hvítt sísheteró millistéttar og karlkyns.

***

En til þess að flækja málin enn frekar er ekki hægt að ætlast til þess að höfundur – ljóðskáld eða leikskáld eða skáldsagnahöfundur – skrifi bara persónur sem eiga sama bakgrunn og hann, hán eða hún sjálf(t)(ur). Bæði vegna þess að þar með höfnum við grundvallarforsendu alls skáldskapar, og að mínu persónulega mati sjálfrar mennskunnar, samlíðuninni – lífið er gersamlega tilgangslaust ef við erum orðin svo miklir einstaklingar að við getum ekki lengur leyft okkur að setja okkur í spor hvors annars, leika hvert annað, verða hvert annað í hugarfluginu, með öllum kostum og kenjum, þá erum við ekki bara einstaklingar heldur eyjur – og vegna þess að þá yrðu bókmenntirnar fáránlega einsleitar. Allar mínar bækur myndu fjalla um hóp af ísfirskum rithöfundum með hatta sem töluðu saman um sjálfa sig. Sem væri auðvitað mjög skemmtilegt, en bara fyrir mig.

***

Rithöfundur sem getur ekki sett sig í spor annarra er ekki góður rithöfundur og rithöfundur sem reynir það ekki er huglaus rithöfundur og vondur. En í þessari meðlíðunartilraun erum við auðvitað líka að sjá okkur sjálf – sjá aðra í okkur og okkur í öðrum. Maður kemst ekki út úr sjálfum sér og það er hin stóra sorg mannsins að takast aldrei að renna saman við aðra – við alheiminn, við nirguna brahma, eða bara sína nánustu ástvini. En sá sem aldrei reynir glatar bæði sjálfum sér og heiminum.

***

Og samt er ídentítet höfundar ekki heldur aukaatriði. Það skiptir máli að JT Leroy var ekki hiv-smituð trans vændiskona, að Ern Malley var tilbúningur tveggja íhaldsmanna sem ortu ljóð sín sem diss á módernismann, að Forrest Carter sem skrifaði Uppvöxt Litla-Trés var líka rasíski ræðuskrifarinn Asa Carter og að Anonymus var Jóhannes úr Kötlum. Það lýsir upp lestur verkanna og breytir samhengi þeirra – en það ógildir þau ekki, það trompar ekki verkin sjálf og það sem í þeim stendur. Höfundurinn dó aldrei, einsog Barthes hélt fram – og verkið deyr ekki heldur hvað sem samtíminn rembist og djöflast á öld sem virðist ekkert skilja eða vilja nema einmitt þennan blessaða höfund, sjálfið (það virðist skipta minna máli hvað er sagt en hver segir það). Og ljóðaritstjórar The Nation munu vonandi hafa ævarandi skömm fyrir aumingjaskapinn enda eru þeir með þessu beinlínis að ganga af bókmenntunum dauðum. Það væri óskandi að PEN gæti tekið afstöðu gegn þessu maóíska krabbameini. Þetta er ekki gott og þetta versnar ár frá ári og það græðir enginn neitt á þessu nema fasistarnir.

***

Og það er óhugnanlegt að sjá fyrir sér að ritstjórarnir og/eða skáldið geri þetta ekki sjálfviljug heldur vegna þess að það er betra að beygja sig í duftið en að debatera, taka slaginn – einu sinni í fimm mínútur. Öll PR fyrirtæki ráðleggja skjólstæðingum sínum enda að biðjast bara umyrðalaust afsökunar, alveg sama hver sannleikurinn er, hver prinsippin eru eða hvað átti sér stað. Allur debatt er slæmur fyrir vörumerkið og ef þú ætlar að eiga starfsferil – vera ljóðskáld eða ritstjóri – þá þarftu að standa vörð um vörumerkið fyrst og fremst.

***

Kannski skiptu þau bara um skoðun. En þá eru þau líka ólæs og vanhæf og ættu að segja af sér. Þetta ljóð er engin kjarnorkuvísindi, ef þau skildu það ekki nógu vel til að standa með því (eða hafna því frá upphafi) þá liggja hæfileikar þeirra sennilega annars staðar í tilverunni en í bókmenntum og listum. Það eru ábyggilega einhverjar stöður lausar í írönsku siðalöggunni, PMCR Tipper Gore eða kúbönsku byltingarafstöðustofnuninni. Eða þú veist, bara kvikmyndaeftirlitinu.

***

Annars er allt bærilegt hér nema síðsumarþunglyndið og þessi óþolandi hiti. Ég flýg til Íslands á fimmtudag og keyri heim á laugardag. Ég er smám saman að trappa mig upp í að fara að lifa lífinu upp á nýtt. Það verður kannski kalt á Íslandi – eða næsta örugglega – en ég hlakka samt til. Ég hef ekki verið í sama rúminu nema örfáa daga í röð síðan í júní – og þá var ég einn í þrjár vikur – og ég held að geðheilsa mín myndi ekki þola meira af þessu.

***

Kápumyndin sem birtist hér hægra megin (frá mér séð – og raunar þér líka, þegar ég spái í það) er röng. Svona verður kápan á Hans Blævi ekki. En hún verður í þessa áttina.

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png