Untitled

Ég hef engan áhuga á Skólaljóðunum. Kannski er óþarfi að taka það fram. Að minnsta kosti að því marki sem „Skólaljóðin“ er bara þessi gamla bók. Skólaljóð, sem konsept, eru auðvitað mjög áhugaverð. Og val í slíkar bækur yndislegt rifrildisefni.

***

Gömlu Skólaljóðin geta bara verið til í fornbókaverslunum fyrir þá sem þau vilja. Það var prentað nóg af þessu til að framboðið verður alltaf meira en eftirspurnin. Og hún var síðast endurútgefin fyrir 6 árum.

***

Merkilegt raunar að í sömu viku og birtast tvær greinar um mikilvægi þess að kynslóð eftir kynslóð af börnum lesi sama ljóðasafnið birtist önnur þar sem þessi sama meinloka – í útgáfu barnabóka – er gagnrýnd. Að foreldrar vilji bara að börnin þeirra lesi Emil og Skunda. Vilji tjóðra börnin við sína eigin upplifun af æskunni. Og bent á að það þurfi að styðja barnabókaútgáfu dagsins í dag. Höfundana sem eru að skrifa núna, fyrir fólkið núna.

***

Hið sama á auðvitað við um ljóðlistina. Það er miklu ríkari ástæða til að reyna að koma Brynjari Jóhannessyni og Fríðu Ísberg inn í grunnskólana en að berjast fyrir því að halda Eggert Ólafssyni á námsskrá 200 ár í strekk. Og ef foreldrar vilja bonda við börnin sín yfir ljóðabókum geta þau bara huskast til að lesa Fríðu og Brynjar.

***

En auðvitað útilokar það ekki að maður lesi líka Jónas Hallgrímsson og Theodóru. Þau mega alveg vera með líka. En ekki í slíkum forgangi að hitt gleymist. Ef við viljum vera bókmenntaþjóð, viljum eiga lesandi kynslóðir, þurfum við fyrst og síðast að leggja rækt við bókmenntirnar einsog þær birtast okkur í núinu – frekar en að eltast við kanónuna (sem skapar sig sjálf, reddar sér sjálf).

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png