Untitled

Við Aino og Nadja fórum í bæinn í dag. Þegar við komum heim og borðuðum kvöldmat – heim er hjá mági mínum, sem var ekki heima – spurði Aram hvað við hefðum gert og Nadja rakti það fyrir honum, þegar Aino hafði þvertekið fyrir að nenna því.

***

Við gengum hálfa leiðina í bæinn – Aino hjólaði. Tókum strætó restina. Svo fórum við í H&M og enga venjulega H&M heldur fyrstu, orginal H&M verslunina hér í Västerås. Ég keypti mér ný sólgleraugu, í stað þeirra sem ég gleymdi í Hald – fjölskyldan er sammála um að sólgleraugun í Danmörku hafi verið fallegri. Ég keypti mér líka bláar buxur. Fyrstu bláu buxurnar mínar, sem eru ekki gallabuxur. Aino fékk sér rauðar sokkabuxur með glitri og dálítið af hárteygjum. Aram fékk nýjar sparibuxur. Nadja hætti við að kaupa sér peysu á síðustu stundu og gekk út tómhent.

***

Næst fórum við á Espresso House, sem er óspennandi kaffihúsakeðja. Fyrir þessu voru tvær ástæður. Annars vegar er Västerås óttalegur svefnbær um helgar, það lokar allt snemma, og við hugsuðum að svona keðja væri sennilega opin aðeins lengur. Hins vegar var rigning og Espresso House var handan við götunnar.

***

Þegar við komum á Espresso House voru átta mínútur í lokun. Svo við fórum á aðra óspennandi keðju – þar sem ég hef stundum setið við vinnu, af því netið er áreiðanlegra en á skemmtilegri kaffihúsum – Wayne’s Coffee. Þar átum við filodeigsrúllur og drukkum kaffi og ávaxtasafa og bara svona höngsuðum.

***

Loks fórum við í Hemköp og keyptum í kvöldmatinn. Ég gerði miðlungsgott sjávarréttapasta úr hráefninu. Ég á að geta betur.

***

„Þetta var ekki góð saga“, sagði Aram.

„Þetta átti ekki að vera góð saga, þetta er bara það sem við gerðum í dag“, sagði Nadja.

„Samt ekki góð saga“, sagði Aram.

***

Ég fór líka út að hlaupa í morgun. Tvo hringi í skóginum. Það er alveg merkilegt að það virðist engu máli skipta hvað ég hleyp mikið ég er alltaf í jafn ömurlegu formi.

***

Sjálfur gerði Aram vel að merkja ekkert nema spila tölvuleiki og lesa Andrés. Ég skil ekki hvaða stælar þetta eru í honum.

***

Svo er lífið heldur ekki keppni!

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png