Untitled

Ég hef svo miklar áhyggjur af þessum leik á morgun. Í fyrra birtist stutt viðtal við mig á forsíðu Liberation í Frakklandi: «L’Islande va vous écraser», sagði ég. Við munum tortíma ykkur!

***

Lógíkin var eftirfarandi. Ég sá jafnteflisleik Íslands og Frakklands 1998. Sat fyrir aftan markið, nánast í fanginu á Fabian Barthes, þegar Ríkharður Daðason vippaði boltanum yfir hann. Ég missti svo algerlega af jöfnunarmarki Frakka. En frá 1998 til 2016 tvöfaldaði íslenska landsliðið getu sína árlega. Og ef Frakkar gætu sagt hið sama ættu þeir kannski séns. Annars myndum við tortíma þeim.

***

Þetta eru sólítt rök.

***

Ég veit ekkert um fótbolta (hvorki karla- né kvennabolta) en þetta eru samt sólítt rök. Það sér hver maður.

***

En þau eiga ekki við um kvennalandsliðið. Þar töpuðum við þrjú-eitt 2009 og bæði liðin hafa bætt sig nokkuð síðan. Bæði eru á viðstöðulausri uppleið. Og helvítis Frökkunum er spáður sigur á þessu móti.

***

Í dag fór familían til Finspång. Börnin hafa þá ekki sofið í sama húsi tvær nætur í röð í meira en viku. Ég verð í Råby í nótt og fer til Manchester á morgun. Kem aftur á fimmtudag, fer með Aram til Berlínar á föstudag (til að skoða pöndur, köngulóarmenn, stjörnur, kebab og gráhærðan mann sem þeysist nær fertugu).

***

Ég gekk í bæinn. Hlustaði á nýja ljóðapoddkastið Póetrý gó. Byrjunin var rosaleg – ég þrammaði áfram og gaggaði „vá!“ aftur og aftur. Það reyndist svo ljóð eftir Lawrence Ferlinghetti en ekki einhvern óuppgötvaðan snilling en það var samt geggjað og það var vel þýtt af öðrum þáttarstjórnanda.

***

Ég var sammála flestu sem sagt var um ljóðlist en fæstu af því sem sagt var um dýr. Nei, annars, það er lygi – mér fannst lokapunkturinn um sorglegu hundana góður en það var kannski meira um ljóð. En sú hugmynd sem kattaeigendur hafa um að þeir séu jafningjar kattanna sinna – en ekki eigendur þeirra – er biluð. Og kemur enda ekki upp nema þegar kattaeigendur ræða fordóma sína fyrir hundaeigendum.

***

Ég er alinn upp við alls konar dýr. Ketti, hunda, gullfiska, hamstra, kanínur, páfagauka og svo framvegis. Í dag eru foreldrar mínir meira að segja með hænur. Valur bróðir, sem býr við hliðina á mér, missti annan af hundunum sínum á dögunum – Loki var orðinn ansi gamall, hans er sárt saknað. En Freyja lifir enn. Kanínurnar, sem hann var með til manneldis, dóu allar – ég held þær hafi ekki meikað návígið við hundana (þeir eru mjög stórir). Svo á hann líka kött. Pabbi á líka kött – bengalkött sem er með einhvers konar gigt núorðið. Þyrfti eiginlega að eignast hjólastól.

***

En ég meika ekki dýr. Ég nenni þeim ekki. Sennilega kláraði ég bara dýrakvótann minn sem barn.

***

Póetrý gó fjallar um göngutúra og ljóðlist. Ég geng ekki mikið. Eða – ég geng ekki mikið í þeim tilgangi að vera í göngutúr. Stundum ákveð ég að ganga eitthvert í staðinn fyrir að hjóla, taka strætó eða keyra. Ég geng sennilega mjög mikið, sérstaklega þegar ég er á ferðalögum, sem er alltof oft. En ljóðræni göngutúrinn er ekkert sem ég þekki úr eigin lífi.

***

Mér varð hugsað til myndljóðabókarinnar Maps eftir Söruh Cullen. Hún batt einfaldlega penna einsog pendúl inn í kassa (ef ég man rétt) og gekk svo með kassann og leyfði pendúlnum að krota á blaðið.

***

***

Wordsworth var líka gönguskáld. Sagðist fá 90% af öllum sínum hugmyndum á göngu. Gekk líka um stóran hluta Evrópu. Þrammaði um alpana. Og orti auðvitað An Evening Walk, Adressed To A Young Lady.

***

[…]

In thoughtless gaiety I coursed the plain, And hope itself was all I knew of pain; For then, the inexperienced heart would beat At times, while young Content forsook her seat, And wild Impatience, pointing upward, showed, Through passes yet unreached, a brighter road. Alas! the idle tale of man is found Depicted in the dial’s moral round; Hope with reflection blends her social rays To gild the total tablet of his days; Yet still, the sport of some malignant power, He knows but from its shade the present hour. But why, ungrateful, dwell on idle pain? To show what pleasures yet to me remain, Say, will my Friend, with unreluctant ear, The history of a poet’s evening hear?

[…]

***

Ég hleyp auðvitað. Og syndi. Sennilega hugsa ég mest meðan ég syndi. Á hlaupunum sprengi ég hugsanir mínar með Guns N’ Roses og AC/DC og Judas Priest. Af því að stundum þarf maður bara að sprengja í sér hugsanirnar. Þær eru stórhættulegar. En í sundlaugum eru engir heddfónar. Þótt ég sé reyndar farinn að synda með tölvuúr á handleggnum sem segir mér hversu margar ferðir ég er búinn að fara. En það bjargar mér bara frá því að vera stanslaust teljandi – „Fimm, fimm, fimm“ í hverju sundtaki þar til ég sný við og þá „Sex, sex, sex“ og þar fram eftir götunum. Nú get ég hugsað um ljóð á sundi!

***

Mér er annars mikið hugsað til tímans þessa dagana. Við Aram Nói erum að lesa Mómó. Að sumu leyti er ég algerlega á valdi grámennanna. En það detta samt inn augnablik inn á milli þar sem ég verð alger Beppó. Eða alger Gígí. En það hvarflar líka að mér að í því sé fólgin dálítil sjálfelska. Ef ég festist í því að vera Beppó eða Gígí þýðir það ekki að fötin fari aldrei í þvottavélina, kvöldmaturinn verði aldrei eldaður eða reikningarnir aldrei borgaðir. Það lendir bara á næsta manni. Sem endar svo kannski bara útbrenndur og úttaugaður, heilsulaus á heilsuhæli, eða hreinlega í öndunarvél, hjartaþræðingu og heilablóðfalli á meðan ég nýt lífsins með fætur upp í loft.

***

En ég held samt að maður verði að kunna að slappa af. Og gæta sín á að láta ekki aðra pikka upp slakann fyrir sig. Þetta er ballansgangur.

***

Útgefendum sem langar að gefa út Remember Europe fjölgar dag frá degi. Það er eiginlega algert rugl. Þessi bók er algert rugl. Hver vill eiginlega gefa út svona vitleysu?

***

Mér finnst varla að maður geti kallað sig karlmann núorðið ef DV er ekki búið að slá því upp hvað manni finnst um Robert Downey.

***

Í dag hafði samband við mig valinkunnugt ljóðskáld. Hán spurði hvers vegna ég væri ekki meira „á netinu“. Ég sagðist blogga daglega og hán sagðist ekki lesa bloggið mitt en myndi hugsanlega bæta úr því í framtíðinni.

***

Það vill enginn lesa blogg. Sérstaklega ekki svona löng blogg um ekki neitt. Um kvennafótbolta og ljóðlist.

***

Korter í að Svíþjóð-Þýskaland hefjist. Ég þarf að koma mér á einhvern sportbar. Hér er enginn fótbolti.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png