Untitled

Ég er kominn aftur á kontórinn. Hér beið mín kassi af bókum sem ég sendi sjálfum mér frá residensíunni í Krems og annað eins var ég með í töskunni – og auk þess átti ég á pósthúsinu eintak af pulp-rómaninum Half eftir Jordan Park.

Ég er bara rétt búinn að opna hana og hún er fullkomlega hilaríus, einsog grótesk skopstæling á verstu transfordómum. En ég ætla svo sem ekki að dæma hana of snemma – kannski er hún kaldhæðnari en ég held og samhengi skiptir máli, jafnvel öllu máli. Það er ákveðið kæruleysi í pulp-bókmenntum og það er ekki endilega það sama og fáfræði eða heimska (þótt sú sé auðvitað stundum raunin). Kæruleysi á það til að opna fyrir ákveðin instinkt sem eru oft sannari en hið vandaða og úthugsaða – ég held að allar góðar bókmenntir séu skrifaðar á þessu instinkti.

Jordan Park var dulnefni Cyrils M. Kornbluth sem gaf út margar bækur undir dulnefni og nokkrar undir þessu tiltekna dulnefni. Kornbluth er fæddur árið 1923 og lést 34 ára árið 1958 (ég rek nú augun í að hann er fæddur dagi síðar á árinu en ég, 2. júlí, og lést á afmælisdegi Nödju, 21. mars). Flestar eru bækur hans vísindaskáldsögur og margar skrifaðar með öðrum og hann var gríðarlega afkastamikill.  Hann virðist líka hafa verið mikill sérvitringur – þannig menntaði hann sig sjálfur með því að lesa alfræðiorðabókina frá A til Ö (eða Z, réttara sagt) og má víst sjá á bókum hans hversu langt í safninu hann er kominn, eftir því hvort þar er mikið af óþarfa upplýsingum um „ballistics“ eða „chinese masonry“ eða „Doncaster“ o.s.frv.

Ég skila einhverri skýrslu um hana þegar ég les hana. En fyrst þarf ég að klára The Ministry of Utmost Happiness eftir Arundhati Roy, en aðalsöguhetjan þar er „hijra“ – sem er s-asískt regnhlífarheiti fyrir intersex, trans og geldinga. Ég átti mjög bágt með fyrri skáldsögu Roy, The God of Little Things, einsog ég á bágt með alla sjálfs-exótíseringu hvort sem það er Paasilinna eða Jón Kalman eða Marquez, þessa rómantísku upphafningu á þjóðerni eða þjóðareðli í krafti goðsagna og klisja, og gafst hreinlega upp. Mér finnst þessi samt talsvert áhugaverðari en sú fyrsta – það er hreinlega einsog hún sé bara dálítið skítugri, dálítið holdugri, með fæturna í drullunni þótt höfuðið sé í skýjunum og hjartað á flugi.

***

Það er annars mjög gott að vera kominn heim. Ég reikna með að vera ferðalúinn næstu vikurnar og ætla að vera duglegur að sofa og hreyfa mig. Hrista af mér slenið.

Eftir sjúklega heitt sumar í Austurríki og Svíþjóð hefur verið bongóblíða hérna. Það liggur við að ég sé með samviskubit að hafa enn ekki tekið á mig neitt af þessu viðbjóðssumri þótt ég samgleðjist líka samlöndum mínum að fá loksins sól.

***

Kápan sem er núna í hliðarreitnum ætti að vera rétt, sú eina sanna, kápan sem mun drottna yfir jólabókaflóðinu. Leggið hana strax á minnið.

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png