Untitled

Ég er kominn úr húsi. Ef frá eru taldar búðarferðir er þetta þá í fyrsta sinn frá … þorrablótinu sem ég fer úr húsi. Ætli það séu þrjár vikur? Tæpar sennilega. Ég hef verið hressari þessa viku en er samt enn eitthvað ónýtur – sennilega bara eftirköst af flensu. Ég er byrjaður að taka upp hljóðbókina og klára það sennilega á morgun.

***

Stakir hlutar heimsins skiptast á að eiga hug minn allan. Forval demókrataflokksins til dæmis. Ég veit ekki hvort Bernie á neinn séns á að vinna Trump en ég tel nánast algerlega 100% víst að Biden á það ekki. Og þá er þetta sennilega búið. Það kom mér á óvart að sjá viðtöl við Biden – hann er fullkomlega sambærilegur við Trump. Ekki í að vilja rugga bátum – það væri meira Bernie – en í því að vera málhaltur og sennilega bara mjög vitlaus. Og líklega meðfærilegur – ef hann verður valinn þá ræður flokkseigendafélagið. Sem er ábyggilega skárra en að hann geri það sjálfur – hvað þá Trump.

***

Og bókin mín auðvitað. Ég hugsa svolítið um hana líka. Ég er enn í þriðja sæti metsölulistans. Fjórðu vikuna í röð – eða eina vikuna var ég í öðru. Hugsa líka um gítarinn sem ég er að smíða. Ég pantaði verkfæri til að ganga frá böndunum á hálsinn en þau eru ekki komin. Ég er búinn að mála búkinn eins mikið og ég get í bili – áður en ég geri meira (pússa niður ójöfnur, tek eina umferð í viðbót og svo nokkrar lokaumferðir af glæru) þarf allt að verða grjóthart. Það eru tíu dagar í það.

***

Ég er alltof mikið á samfélagsmiðlum.

***

Það er gott veður.

***

Ég afbókaði Frakklandsferð. Átti að vera á bókmenntahátíð í Nantes á helginni en er bara ekki nógu hress. Get ekki farið að láta mér slá niður. 28 daga flensa verður bara að duga. Svo er verið að aflýsa alls konar svona viðburðum og kannski hefði það verið best líka í Frakklandi – þótt maður fengi ekki meiri flensu þarna þá fengi maður kannski að fara í sóttkví þegar maður kæmi heim. Og ég er bara búinn að vera nóg heima hjá mér.

***

Ég hef enn enga ákvörðun tekið með útgáfuhóf. Samt er bókin löngu komin út. Hugsanlega er bara frekar lágt á mér risið. Þessir fyrstu tveir mánuðir ársins hafa ekki verið neitt grín.

***

Á dögunum sá ég konu halda því fram á Facebook – í fúlustu alvöru og án þess að nokkur andmælti henni – að það væri „ekki sjaldgæft“ að karlmenn sem standi í skilnaði „myrði konur sínar og börn“. Hún fékk meira að segja talsvert af lækum á þetta bara. Og þetta var raunar í stemningu við þráðinn almennt. Um þetta hef ég verið hugsi.

***

Internetið er svolítið einsog bandalag ólíkra sértrúarsöfnuða. Eiginlega ætti maður að segja alveg skilið við það.

***

Ó-ið hans Hauks Más var bók vikunnar á Rás 1. Það var afar gleðilegt.

***

Ég er svolítið í því að snerta á mér andlitið. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að fara að því að hætta því. En að því sögðu hef ég verið með flensu heima í 28 daga og enn ekki smitað neinn. Kannski snertir enginn annar mig.

***

Nadja er að fara í Strandagönguna á helginni og það var búið að lofa krökkunum að gista hjá ömmu og afa (af því ég átti að vera í Frakklandi) svo sennilega verð ég einn aðra hvora helgarnóttina. Finnst einsog ég eigi að gera eitthvað úr því. Annað en að sitja sem sagt heima og njóta þess að vera í rólegheitunum af því það er það eina sem ég hef gert í margar vikur. Ég veit bara ekki hvað það ætti að vera. Eins manns útgáfuhóf? Fara á Húsið og liggja bara í því í sólarhring.

***

Nei, varla.

***

Og kominn úr húsi, já, ég er sem sagt á Heimabyggð. En nú ætla ég að fara í búðina og aftur heim.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png