Untitled

„Eiríkur, það er fullt af fólki að tala illa um þig á Facebook.“

***

Það er komið fullt af kommentum á byggðafærsluna. Þar er fólki mikið í mun að sannfæra mig um að Hvalárvirkjun sé léleg byggðastefna og að Reykjavíkurflugvöllur sé fyrir (sumum) Reykvíkingum. Hvorutveggja kemur fram í pistlinum. Hvalárvirkjun er vonlaus byggðastefna – flugsamgöngurnar er lengri samræða.

***

Svo fæ ég líka heilu facebookþræðina í innboxið mitt. Á einum þeirra er mér líkt við reyðfirskan hreppstjóra frá 2003 og ég í ofanálag uppnefndur „sjálfskipaður talsmaður brothættra byggða“. Svo er klykkt út með að ég eigi hætta að vera með allar þessar blammeringar síknt og heilagt og reyna að vera svolítið kurteisari og málefnalegri.

***

Annars er áhugavert að þeir sem biðja aðra að hafa sig hæga, sýna stillingu, draga ekki óþarfa víglínur, mála ekki skrattann á vegginn o.s.frv. eru undantekningalítið þeir sem hafa valdið – þeir sem hafa annað hvort engu að tapa eða trúa því ekki að þeir geti eða muni tapa. Þetta er svona „vertu ekki alltaf að æsa þig kelling“ málflutningur.

***

Það er voðalegt að láta steypa Facebook svona yfir sig, eiginlega. Rifrildisfuglabjarg. Þegar hugur manns er heiður. Mér finnst ekki nærri jafn gaman að debatera við fólk og mér þótti einu sinni. Mörg þessara rifrilda gæti maður líka skrifað sjálfur – sumt fólk talar bara og hugsar einsog vélar, segir sömu hlutina aftur og aftur á sama háttinn og ævinlega áður. Bla bla bla.

***

Fólk segir líka að þeir sem hverfi af landsbyggðinni geri það ekki vegna atvinnumissis eða slaks efnahagslífs heldur vegna þess að þar sé svo mikið fásinni. Þetta er eitt af sándbætunum í umræðunni. Einsog ef það bara opni fleiri kaffihús og verði haldnar fleiri listahátíðir þá hætti fólksfækkunin. Sennilega hjálpar það nú til, en myndin er flóknari.

***

***

Þetta er glæra úr fyrirlestri Kristins Hermannssonar á málþingi um byggðamál sem var haldið á Flateyri nú í maí. Guli reiturinn er samfélag þar sem efnahagslíf er sterkt og búsetugæði mikil. Þar við hliðina er verbúðin – það er Ísafjörður í denn, þegar útgerðin var sem sterkust, mikil atvinna, skítnóg af peningum en talsvert lítið um að vera (nema fyllerí á helgum). Þegar útgerðin hrundi – og fjöllin tóku til við að drepa íbúana sem bjuggu undir þeim – hrundu samfélögin. Þeim blæddi fólki. Ef að búsetugæði hefðu verið meiri hefði fólk kannski staldrað aðeins lengur við.

***

Í dag eru búsetugæði á Ísafirði mjög mikil – það er eiginlega alveg fáránlega mikið við að vera miðað við stærð bæjarfélagsins. Ég held að efnahagurinn á Ísafirði sjálfum sé að mörgu leyti fínn líka – atvinnulíf er fjölbreytt og örvilnan í lágmarki. En það er eitthvað erfiðara í nágrannabyggðunum. Fólksfækkun í Ísafjarðarbæ er samt ekki nema um 10 manns á ári. Með þessu áframhaldi tæmist bærinn á 360 árum. Það er auðvitað ekki gott og við vildum heldur að bæjarbúum fjölgaði – en þetta er heldur ekkert panikkástand.

***

Jæja. Nóg um þetta. Þarf að koma mér í flug.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png