Untitled

***

Í dag eru liðin 30 ár frá því Appetite for Destruction kom út. Síðan þá hefur fátt verið gert af viti.

***

Því fögnuðu Gunsliðar með tónleikum á Appollo í New York í gær. Það var hægt að hlusta á þá í streymi en engir miðar voru seldir – bara boðsmiðar.

***

Í dag förum við Aram líka til Berlínar. Í augnablikinu er ég að leggja lokahönd á þýðingu á texta eftir vinkonu mína Maju Lee Langvad, sem er gestur á bókmenntahátíð í Reykjavík í haust. Aram er að spila nýja Zeldaleikinn í Nintendotölvu frænda síns. Það hefur ansi margt breyst frá því ég spilaði gamla Zeldu leikinn – sem kom einmitt út ÁRI ÁÐUR en Appetite.

***

Ég sá að útgefandi nokkur í Danmörku var að velta því fyrir sér hvers vegna rithöfundar ferðuðust svona mikið á hátíðir og þvíumlíkt og tók það til mín, enda ferðast ég frekar mikið. Við þessari spurningu útgefandans eru tvö svör.

***

Annars vegar er ekki endilega leiðinlegt að ferðast – til dæmis á bókmenntahátíðir í skandinavískum útnárum – því staðirnir geta verið áhugaverðir sem og fólkið sem maður hittir þar. Ef ég hefði ekki þegið boð á Nordic Summer hátíðina í Jurbarkas sumarið 2008 hefði Illska sennilega orðið allt öðruvísi bók.

***

Hins vegar borga útgefendur afar illa, einsog þeim danska hlýtur að vera ljóst – það er lítið upp úr þessu að hafa nema fyrir Rowlingana. Ég hef talsvert af tekjum mínum af upplestrum og þátttöku í bókamessum og bókmenntahátíðum. Og mig munar satt best að segja um hvern tíkall.

***

Frá Västerås er það að frétta að rúmenska konan sem betlar fyrir utan Råby Centrum er farin að selja bláber. Ég man aldrei hvað hún heitir og er of feiminn til að eiga í miklum samskiptum við hana en Nadja hefur svolítið kynnst henni og hún man alltaf eftir okkur þegar við komum. Sennilega er þetta fimmta eða sjötta sumarið sem hún kemur. Hún er jafnaldri okkar og á þrjú börn í Rúmeníu sem hún skilur eftir. Þetta er bölvað helvítis líf og hún virkar ansi þreytt þótt hún sé líka glaðvær.

***

Leiðinlegast er að sjá þegar fólk fer að þrátta við hana eða útskýra fyrir henni yfirlætislega hvernig hún gæti komið lífi sínu á rétt ról – einsog hún hafi aldrei velt því fyrir sér sjálf. Svíar geta verið alveg rosalegir útskýrendur. Um daginn stóð yfir henni einhver kelling í ábyggilega hálftíma, með fingur á lofti. Ég hugsa að hún hafi meint vel.

***

Við keyptum auðvitað bláber til að hafa með morgunjógúrtinni. Þau voru góð. Kannski ekki jafn stórfengleg og Costcoberin, sem ég heyri svo vel af látið, en vel frambærileg engu að síður.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png