Untitled

„Pabbi, hvað þýðir porn?“

***

Við erum rétt fyrir utan smábæinn Nykil í Svíþjóð. Sem minnir óneitanlega á Nýhil en er ekki Nýhil heldur Nykil. Hér eru tveir sumarbústaðir, stöðuvatn og náttúra. Hér dokum við ekki, enda væri það úr takti við allt, heldur förum til Rejmyre strax seinnipartinn.

***

Við Aram komum frá Berlín í nótt klukkan þrjú eftir 3 1/2 klukkustundar bíltúr frá Arlanda. Í Berlín dvöldumst við tvær nætur í góðu yfirlæti hjá Hauki Má.

***

Fyrsta daginn fórum við í dýragarðinn. Eftir nokkra klukkutíma þar fór skyndilega að rigna mikið, á endanum var hálfgert flóð á vissum stígum. Við flúðum aftur til Neukölln, fengum okkur kebab og fórum á nýju Spidermanmyndina í bíó. Eftir bíó lásum við Mómó, Aram fór að sofa og við Haukur sátum á svölunum fram eftir nóttu.

***

Seinni daginn fórum við á DDR safnið, skoðuðum Sjónvarpsturninn og múrinn, drukkum límonaði í sólinni og átum meira á imbißi á Danziger Strasse.

***

Það var mikið rætt um ofurhetjur í ferðinni. Það er óhætt að segja að ferðin hafi verið mjög vel heppnuð og við feðgar báðir í skýjunum.

***


Und mit Menschen.

A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Jul 23, 2017 at 6:32am PDT

//platform.instagram.com/en_US/embeds.js

***

Það fyrsta sem gerðist samt – fyrsta kvöldið, þar sem við Aram sátum í neðanjarðarlestinni á leiðinni að hitta Hauk, var að ég frétti að gömul vinkona mín frá Ísafirði hefði látið sig hverfa, stytt sér leið, eða hvernig maður orðar það þegar maður vill ekki nota ljótustu orðin. Hún er allavega ekki til lengur og allir sakna hennar mjög og óhætt að taka undir það sem sagt hefur verið um glaðværð hennar í leik og starfi.

***

Hún vann á bókasafninu og var alltaf glöð að sjá alla. Heilsaði öllum einsog þeir væru gamlir vinir nýkomnir úr löngu ferðalagi. Þegar við vorum ung vann hún á Sjallanum – á því tímabili þegar ég kom þangað nærri daglega til að drekka kaffi, reykja og skrifa. Og við spjölluðum alltaf. Hún var í mörg ár líka kærasta eins af bestu vinum mínum.

***

Óskiljanlegt og hryllingur eru orð sem koma upp í hugann en sem fyrr duga engin orð beinlínis – eða nándar nærri – til þess að útskýra neitt um það hvers vegna ung manneskja í blóma lífsins velur að segja skilið við það.

***

Okkur líður ekki alltaf nógu vel. Við þurfum að huga betur hvert að öðru.

***

Þeir sem eftir standa eru sennilega í öllu litrófi tilfinninganna – ást og sorg og reiði og undrun og ekki-undrun og öllu hinu. Við sem eftir stöndum, meina ég. Og samúð og samhugur til þeirra sem stóðu henni næst. Þvílíkur botnlaus harmur.

***

Aram þekkti hana líka og við ræddum þetta í ferðinni. Ég ætlaði ekkert að fara að tala um þetta við hann en það varð samt einhvern veginn að gerast. „Svona er lífið stundum“, sagði hann við mig í gær í bílnum, þegar ég var augljóslega leiður að reyna að tala mig í gegnum þetta. Stundum er hann svo miklu eldri en ég og þótt það kannski breyti engu, að svona sé lífið stundum, þá er það líka alveg satt. Svona er lífið stundum.

***

Ég verð í Rejmyre í nótt og aðra nótt, fer síðan til Malmö að lesa upp á einhverjum reiðhjólatúr – þetta er eitthvað nýmóðins bókmenntaprógram – og svo til Halmstad til að spjalla í bókabúð. Og þaðan til Biskops-Arnö að kenna ritlist. Hasarinn heldur áfram.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png