Untitled

Stundum skrifa ég eða segi eitthvað um það hvernig ég upplifi afstöðu borgarbúa – eða tiltekinnar valdastéttar í borginni (ég hef verið beðinn um að segja ekki „millistétt“, enda búum við í stéttlausu samfélagi) – til landsbyggðarinnar og fæ til baka að það sé fásinna að ímynda sér að stór hluti borgarbúa vilji landsbyggðinni illt. Sem það og er. Enda er það ekki það sem ég á við.

***

Í fyrsta lagi skýrist afstaða fólks oft og iðulega einfaldlega af hagsmunum. Til góðs og ills. Það segir ekki endilega neitt um skynsemi aðgerðanna – heldur um það hvert maður sækir sín rök, hvaða afstöðu það er sem maður reynir að undirbyggja. Rannsóknir hafa sýnt fram á að við myndum okkur skoðun áður en við þekkjum staðreyndir málsins – raunar myndum við okkur alla jafna skoðun á einu leiftrandi augnabliki. Sú skoðun getur breyst og mótast, en það breytir því ekki að við byrjum á einhverjum tilteknum stað út frá öðrum gefnum forsendum, svo sem einsog hvaða sjónarmið eigi að „njóta vafans.“.

***

Þegar kemur að laxeldinu í Ísafjarðardjúpi er spurt hvort byggðin eða laxinn eigi að njóta vafans. Margir eiga ekkert undir því að það sé byggð við Ísafjarðardjúp. Margt fólk lítur á það sem fullkomlega eðlilega þróun að það flytji allir til borgarinnar, einsog það gerði í mörgum tilvikum sjálft. Margt af því fólki finnst þess utan að þess gamla heimabyggð eigi að vera „einsog hún var“. Gamlir Ísfirðingar reiðast iðulega þegar hús sem hefur alltaf verið rautt er alltíeinu málað grænt.

***

Af þessum orðum er sennilega alveg ljóst hvar sympatía mín liggur. Og hvar hagsmunir mínir liggja. Ég er sennilega búinn að heltriggera vini víkingalaxins – og vissu þeir þó sennilega flestir hvar ég stóð í málinu.

***

Það sem er tekist á um í umræðunni um nýlega skýrslu Hafró er ekki hvort laxeldi sé gott eða slæmt – skýrslan er frekar jákvæð í garð laxeldis (ef maður ætlar að taka mark á vísindunum í skýrslunni er víst best að handvelja ekki bara þær niðurstöður sem henta manni) – heldur hvort laxárnar við Ísafjarðardjúp, sem eru fáar og hafa ekki þótt sérlega merkilegar hingað til, séu verðmæti sem þurfi að standa vörð um. Til þess að svo sé þarf laxinn sem í þær gengur að vera einstakur – ef þetta eru sömu stofnar og í öðrum ám, á verndaðri svæðum, þá er engin sérstök ástæða til þess að verja þá nema það hreinlega skipti mann meira máli að við Ísafjarðardjúp séu sportár fyrir stertimenni en lifandi mannabyggð.

***

Og það er sem sagt alls ekki víst að þeir séu neitt sérstakir. Það sé til neinn sérstaklega norðvestfirskur víkingalax.

***

Það er heldur ekki endilega þar með sagt að þótt hann sé sérstakur – að einhverju leyti – þá sé hann merkilegri en hagsmunir fólksins á svæðinu. Það er einfaldlega matsatriði. Laxar eru ekki endilega rétthærri en fólk, þótt efri millistéttinni finnist gaman að láta taka af sér myndir með þeim.

***

Þess utan er spurning hvaða mótvægisaðgerðir séu í boði og hversu skilvirkar þær séu.

***

Og þá komum við aftur að upphaflega punktinum. Ég hef enga trú á því að borgarbúum sé illa við landsbyggðina. Þetta er patróníserandi ást. Svona einsog þegar karlmaður vill helst að konan hans fari sér ekki að voða úti á vinnumarkaðnum. Enda finnst engum kvenhatur meiri fásinna en karlrembum – karlrembur elska konur, mömmur þeirra eru konur, dætur þeirra eru konur, ég var nú alinn upp á Kópaskeri og fór til Siglufjarðar öll sumur og af hverju má ég þá ekki hafa skoðun á því hvort það megi særa spegilsléttan fjörðinn með kvíahringjum?

***

Við eigum altso ekki að hafa vit fyrir okkur sjálfum, enda erum við bara heimskar kerlingar og skiljum ekki svona flókna hluti, erum á valdi tilfinninga okkar og þar með líkleg til að láta norska laxabaróna breyta okkur í stássfrúr, gegn hysterísku loforði um að við fáum að flytja úr foreldrahúsum. Ef við værum viti borið menntafólk værum við auðvitað löngu flutt, enda vita allir að í smábæjum er bara vinna fyrir fáráðlinga.

***

Að því sögðu hefur maður auðvitað engan rétt til þess að vera umhverfissóði. Enda hafa (flestir) þeir sem mæla fyrir laxeldi við Ísafjarðardjúp talað skýrt og greinilega fyrir því að starfsemin fari fram í sátt við náttúruna – að regluverkið sé strangt. Fiskeldi er með umhverfisvænustu matvælaframleiðslu sem finnst á byggðu bóli. (Og til upplýsingar má geta þess að fiskeldi á landi – sem er sturlað orkufrekt, enda þarf viðstöðulaust að dæla í það sjó – er alls ekki umhverfisvænt – nema manni finnist Hvalárvirkjun umhverfisvæn; það sem gerir fiskeldi í hafi umhverfisvænt er meðal annars nýting sjávarins og straumanna).

***

Og það er alveg ástæðulaust að sýna kapítalistum einhverja yfirgengilega meðvirkni – innlendum sem erlendum – helst ætti þetta laxeldi að vera á forræði og frumkvæði hins opinbera, allra helst heimastýrðra samyrkjufyrirtækja í samstarfi við sveitarfélagið. Sem stendur er mikilvægt að greitt verði fyrir afnotaréttinn af hafinu og að sú innkoma endi ekki öll í Reykjavík. Og svo þarf að þjóðnýta draslið við fyrsta tækifæri.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png