Untitled

Aino fór í flegnu á leikskólann í morgun. Sennilega er hún að búa sig undir að verða hæstaréttarlögmaður. Einsog Magnús frændi hennar. Ekki veit ég hvernig hún beit þetta í sig – ekki er hún á Facebook. Sennilega eru hasstöggin bara unga fólkinu svo í blóð borin að þau þurfa ekki einu sinni internet til þess að finna fyrir skandölunum.

***

Ég reyndi að útskýra fyrir henni að við værum ekki í Svíþjóð lengur. Á Íslandi er ekki veður til að vera í flegnu. En það tjóir auðvitað ekkert að röfla í unga fólkinu, það fer sínu fram.

***

Mér sýndist í gær sem það væri búið að slátra öllu laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Niðurstaða nefndar sem var skipuð um málið var að selja Djúpið fyrir heilbrigðisvottorð á önnur svæði. En svo skilst mér að það eigi eftir að taka tillit til mótvægisaðgerða – til dæmis útsetningu stórseiða – og það sé bara frekar líklegt að þegar það verði tekið með í reikninginn verði opnað fyrir þetta á sömu forsendum og á öðrum opnum svæðum.

***

Þótt sennilega sé hér von á reiðum Facebookurum með prófílmyndir af laxapyntingum og þrugl um úrgang og orkufrekt og ósamkeppnishæft laxeldi á landi eða ótímabæra framleiðslu á geldfiski (sem væri sennilega erfitt að selja; vegna GMO-hræðslu) ætla ég ekkert að segja um það í bili – ef það fólk væri móttækilegt fyrir upplýsingum hefði það löngu skilið það allt. Það tekur bara mark á þeim vísindum sem því hentar. Vísar í hálfar Hafró skýrslur og hálfa norska reynslu – talar um erlent eignarhald á A en finnst það engu skipta í B – og bla bla bla.

***

Eitt af því sem vekur ítrekað athygli mína í þessum málum – og ég er ekki viss um að maður átti sig almennilega á nema maður eigi framtíð sína og sinna barna á svæðinu – eru stóru drættirnir, þessi endurtekna pólitíska hreyfing, ár eftir ár, mál eftir mál: Hvernig hagsmunum Vestfirðinga er fórnað fyrir svo til alla aðra hagsmuni. Ef það er eitthvað – þrjár manngerðar laxveiðisprænur, sem hafa aldrei talist merkilegar, og telja lítinn lax sem er blendingur úr 5-6 öðrum ám og var ekki til fyrir einum litlum mannsaldri – þá vegur það þyngra en framtíð byggðarinnar.

***

Frá því ég var lítill strákur hefur byggðin alltaf verið í mótvindi – fyrst og fremst sunnanátt, þannig er það bara þótt mörgum þyki óþægilegt að heyra það, og ég vilji ekki gera lítið úr þætti sumra heimamanna heldur. Hér er ekki einu sinni hægt að leggja vegarspotta án þess að það veki úlfúð í Reykjavík. Af því kjarrið er mikilvægara en byggðin. Laxveiðisprænurnar eru mikilvægari en byggðin. Er skrítið þó fólki hérna finnist að því sé ætlað að lifa lífinu í stasis – varðveitt í kvoðu eða ís, bara svo fremi sem ekkert breytist. Best væri ef hér væri ekkert nema rómantískir smábátasjómenn á styrk – já og kaffihús og airbnbarar.

***

En já. Ég ætlaði ekki að byrja á þessu röfli aftur. Ætlaði ekki að fara að endurtaka mig.

***

Ég velti fyrir mér stöðu Framsóknarflokksins í þessu öllu saman. Bæði hugmyndafræðilega – frá því vinstriflokkarnir gerðust borgaralegir, í þeirri merkingu þess orðs sem vísar til borgarinnar sem fyrirbæris, sem framtíðar, sem hugsjónar, er Framsóknarflokkurinn sennilega eini stjórnmálaflokkurinn á landinu sem beinlínis hefur þá hugmyndafræði að styrkja byggðina í landinu – og út frá þeim popúlísku sjónarmiðum sem hafa verið ær og kýr þess flokks, kannski frá upphafi en í öllu falli síðustu árin og áratugina.

***

Stundum er sagt að stóru línurnar í pólitík samtímans séu milli „óupplýstrar“ landsbyggðar og „upplýstra borgarsamfélaga“. Þessi greining er orðuð svona í fjölmiðlum – og af punditum – sem eiga fyrst og fremst rætur að rekja til borgarsamfélagsins. Og já – við finnum fyrir því þegar við erum kölluð óupplýst, það er hvorki næs né sanngjarnt þegar rætt er um raunverulega hagsmuni og hugsjónir sem skarast. En þegar hagsmunir okkar eru ítrekað látnir lönd og leið – áratug eftir áratug, bókstaflega – stundum fyrir algeran tittlingaskít, elur það á örvæntingu og bræði sem sprettur af viðstöðulausri tilfinningu fyrir vanmætti gagnvart eigin örlögum, að manni séu „allar bjargir bannaðar“. Vestfirðingar ætluðu að „gera eitthvað annað“ – sleppa álverum og olíuhreinsunarstöðvum, lýstu sig stóriðjulausa, og ætluðu að fara í sjálfbæra og vottaða matvælaframleiðslu. En þetta „eitthvað annað“ er aldrei nógu gott.

***

Og hvað gerir reitt fólk? Hvað gerir svikið fólk? Ef það er ekkert í boði nema bitlingastjórnmálamenn – þá kýs reitt og svikið fólk þá stjórnmálamenn sem ætla þó að kasta í það sjálft einhverjum bitum. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk sem getur ekki treyst því að samfélagið standi með þeim kjósi gegn hagsmunum sínum.

***

Svo er auðvitað alltaf á borðinu að draga í land með stóriðjulausa Vestfirði. Hvað sem manni finnst um stöðuna fyrir austan – hvað hún kostaði umhverfið, hvað hún kostaði í beinhörðum peningum – þá hafði hún jákvæð áhrif á atvinnuástandið og tekjur heimamanna. Kannski dugar ekki að takast á við ástandið með einhverjum bændaskap einsog fiskeldi – kannski þarf bara big guns, fólk með einhverja alvöru peninga á bakvið sig sem getur bara keypt kúlulánadrottningarnar. Þá værum við að díla með hagsmuni sem eru stærri en okkar eigin – ef við erum bara nógu miklir umhverfissóðar fáum við nógan skriðþunga til að trompa þá sem vilja frysta hér alla framþróun.

***

Og jájá, við erum að verða ansi beisk. Og það byrjaði ekki í gær.

***

Það er hægt að stinga upp á þúsund lausnum í kaffihúsaspekingastíl – frjálsum strandveiðum, auknum byggðakvóta, skattaafsláttum, fleiri einyrkjum, o.s.frv. – en það breytir engu um að þær lausnir sem eru á borðinu, hvort sem er í atvinnu- eða samgöngu- eða menntamálum eða hvað það er, eru aldrei nógu góðar.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png