Untitled

Nú keppist fólk við að fordæma bardagann í gær – McGregor vs. Mayweather – það er að segja þeir sem eru ekki uppteknir af að fordæma Ungfrú Ísland. Það sló mig reyndar að sennilega þætti mér óþægilegra – og óeðlilegra – að keppa í vinsældum og viðkunnanlegheitum en fýsískri fegurð. Smeðjuskapur er hugsanlega verri en anorexía.

***

Eða ekki.

***

Sennilega óþægilegast samt að keppa í að láta berja sig í smettið.

***

Ekki að maður geti ekki verið vinsæll án þess að vera með smeðjuskap. Kannski er það jafnvel alls ekki líklegt til vinsælda. Mér finnst bara tilhugsunin sjálfum mjög óþægileg – martraðarkennd – að reyna að sannfæra næsta mann um að ég sé almennilegri náungi en sá þarnæsti.

***

Þá skil ég boxarana betur. Sem keppa í kjafthætti. Það er löng hefð fyrir því að keppa í ókurteisi, tillitsleysi og hroka í (bardaga-)íþróttum – einsog til að koma hinum náunganum úr jafnvægi. Eftir bardagann höfðu þeir Írinn og Ameríkaninn ekkert nema fallegt hvor um annan að segja. Ég held að það sé líka hefð. Þetta er allt eftir bókinni.

***

Það er alltílagi þótt það sé tilgerð í kjafthætti. Eða – hún á heima þar. En tilgerð í vinalegheitum er dauðasynd.

***

Ég get ekki að því gert að finnast dálítil stéttafyrirlitning í afstöðu hinna hugsandi stétta – eða mórölsku stétta – til alþýðuskemmtunar einsog þessa bardaga í nótt. Sérstaklega var ein grein, sem margir deildu, leiðinleg – bara svona viðstöðulaust rant um hvað þeir væru vont fólk, hvað þetta væri allt takkí og hvað þeir græddu mikla peninga á þessu (það er ekkert verra að græða pening sem skemmtikraftur/íþróttamaður en að … gera svo ótal margt annað sem fólk verður milljarðamæringar á). Gott ef titillinn var ekki ÞESSI BARDAGI ER ALLT SEM ER AÐ HEIMINUM Í DAG og hann smættaður niður í einhvers konar svartir-ofbeldismenn vs. trumpískir rasistar. Lose-lose fyrir móralska liðið.

***

En þessar stellingar allar saman – bravadoið, smaragðarnir á beltinu, sjóið, kjafthátturinn, PC-leysið (diet rasisminn, diet kvenfyrirlitningin) – er allt tjáningarmáti þess sem þarf útrás. Og þá er ég ekki að tala beinlínis um bardagamennina – eða rokkstjörnurnar sem spila svipaða leiki – heldur aðdáendurna og kúltúrinn í kringum fenómenið síðustu öldina eða tvær. Þetta er ég-er-valdlaus-og-vinn-70-tíma-vinnuviku-við-ömurlegt-færiband-og-það-gera-líka-allir-sem-ég-þekki-og-nú-langar-mig-að-horfa-á-einhvern-berja-einhvern-stemning. Af því það er valdeflandi.

***

Og já – þetta er í grunninn heteró karlakúltúr, einsog stelpurnar á bikiníunum ættu að gera manni ljóst – en þetta eru ekki kúltúr valdakarla, ekki feðraveldið í þeim skilningi (en feðraveldið í öðrum; einsog við erum öll feðraveldið). Þetta er Grand Theft Auto, Wolfenstein og Guns N’ Roses, Bukowski, Eminem og James Brown, First Blood og Rocky (!) – og jájá, það er oft siðferðislega ámælisvert, en ekki svo að maður eigi ekki að geta náð upp í nef sér fyrir því.

***

Annars horfði ég ekki á bardagann. Ég þoli ekki að sjá blóð. Svo var þetta líka um miðja nótt og ég er miðaldra ljóðskáld sem þarf á sínum nætursvefni að halda.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png