Untitled

Hans Blær kemur úr prentsmiðjunni 22. október. Það er ekki víst hún fari strax í búðir – bækur eru prentaðar í útlöndum (Þýskalandi að þessu sinni) og það koma margir titlar í einu og svo detta þeir einn af öðrum inn í lundabúðirnar. Svo lesendum finnist ekki einsog þeir séu skyldugir til að lesa allar bækurnar í einu. Maður hefur heilar 6-7 vikur til þess að rumpa í sig jólabókaflóðinu og ástæðulaust að drífa sig neitt.

***

Þetta er alveg vonlaus tími annars. Þessi biðtími. Óþolsnjálgurinn er að gera mig vitlausan. Og hefur kannski aldrei verið verri. Ég kem engu í verk. Les mér til um doríska og frygíska skala, horfi á fetlarýni á YouTube og klóra mér í pungnum. Drekk meira kaffi. Ég veit ekki til hvers ég ætlast af sjálfum mér, veit ekki til hvers aðrir ætlast af mér. Hef áhyggjur af að verkið hafi lent á slæmri braut þegar Ugla Stefanía hjólaði í leikritshluta þess óséðan í vor – það fái aldrei að njóta sannmælis vegna þess að fólk sé of skelkað við að sýnast fordómafullt. Ég veit um fólk sem var beinlínis skammað fyrir að fara á og fíla leikritið – að það væri með mætingu sinni og fílun bókstaflega að taka afstöðu gegn transfólki. Hysterían á vissum stöðum í samfélaginu er alltof raunveruleg.

***

Og ég hef áhyggjur af því að einhver debatt um tilvistarrétt verksins taki yfir verkið sjálft.

***

Og ég hef áhyggjur af því að fólk þegi spurningar verksins af sér vegna þess að þær eru óþægilegar og allar vangaveltur um þær gætu orðið til þess að maður segði eitthvað sem maður ætlaði ekki að segja (og ætti kannski ekki að segja).

***

Ég hef áhyggjur af því að vonda fólkið fagni Hans Blævi einsog það fagnar Milo eða Blaire White eða Piu eða Jimmie eða Marine. Mig langar ekki í heiðursaðild í vonda fólkinu, frekar en góða fólkinu eða frímúrunum.

***

Ég hef áhyggjur af því að góða fólkið reiðist, það reiðist voða mikið, voða oft – en alveg svolítið random hvað triggerar það – og þar sem koma saman mörg snjókorn er bylur.

***

Ég hef áhyggjur af að góða fólkið og vonda fólkið sjái ekki manneskjuna Hans Blævi fyrir látunum í hánum. Ólátunum. Látalátunum. Ég veit að hán er ekki manneskja af holdi og blóði heldur sögupersóna og ég veit að hán er ekki alltaf mjög sympatískt en ég hef samt lifað með hána í höfðinu í þrjú ár og mér þykir í raun ákaflega vænt um hána.

***

Ég hef áhyggjur af stafsetningarvillunum sem ég finn þegar búið er að prenta bókina.

***

Ég hef áhyggjur af staðreyndavillunum sem ég finn þegar búið er að prenta bókina.

***

Ég hef áhyggjur af því að það hafi orðið eftir einhverjar tímavillur.

***

Ég hef áhyggjur af því að skipið með upplaginu sökkvi á leiðinni frá Þýskalandi.

***

Ég hef áhyggjur af því að ég muni eyða svo miklu púðri í að svara fyrir þessa bók að ég finni ekkert andrými til þess að skrifa nýja.

***

Ég hef áhyggjur af því að enginn spyrji neins því enginn lesi bókina.

***

Ég hef áhyggjur af því að ég verði of mikið á ferðinni í haust og endi úttaugaður.

***

Og ég hef auðvitað áhyggjur af því að ég eigi eftir að gera út af við sjálfan mig með öllum þessum áhyggjum. Ég veit vel að ég ætti bara að hætta að hugsa um þetta – þetta er úr mínum höndum hvort eð er. Ég er kominn með glósur að næstu skáldsögu og ég hef nóg að gera í ljóðaþýðingum og Starafugli – bókabunkinn á náttborðinu er orðinn óhóflega stór og ég gæti alveg unað mér vel við að glamra á gítarinn fram að jólum án þess að svo mikið sem leiða hugann að neinu að þessu. Það er bara hægara sagt en gert.

2 views0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png