Untitled

Starafugl er farinn aftur á flug. Það er gleðiefni. Að vísu er fyrsta gagnrýni tímabilsins alls ekkert gleðiefni. Það er aldrei gaman að birta neikvæða rýni (með örfáum undantekningum). En neikvæða gagnrýnin hefur líka sinn stað, gegnir sínu hlutverki, og án hennar er merkingarlaust að tala um gæði í menningu. Svo verður auðvitað að taka með í reikninginn að gagnrýni er og á að vera persónulegt mat – helst með faglegri innsýn – en gæðamatið er alltaf súbjektíft, lesendur eru ólíkir, hafa ólíkar forsendur.

***

Og það skiptir vef um menningarrýni ótrúlega miklu máli að þau sem á hann skrifa geri það hreinskiptið og af nokkru hugrekki.

***

Í gær skrifaði ég stuttan pistil hér um að það ætti alls ekki að taka mark á mér. Því fylgdi löng og mikil umræða á Facebook, sem verður ekki endurflutt hér, nema til að árétta að líf án skáldskapar er ekkert líf.

***

Eitt af því áhugaverða við að gefa út sömu bókina í mörgum löndum eru allar ólíku spurningarnar sem maður fær. Nú keppast grískir blaðamenn við að spyrja mig hvort að kommúnismi og nasismi séu bara sitthvor hliðin á sama peningnum – og ég keppist við að svara því að slíkur þvættingur, slíkur reginmisskilningur á hugmyndafræði, baráttunni fyrir betra lífi og stjórnmálum, sé nú eiginlega ekki svaraverður (sem gerir ekki glæpi Stalíns eða húmorsleysi vinstrimanna neitt betri).

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png