Untitled

Sándið á Let There Be Rock er kannski flatara en á fyrstu tveimur plötum AC/DC. Kannski, segi ég, því það voru svolítið mikil læti í gymminu – ég hlustaði á plötuna (einsog tvær fyrstu) á hlaupabrettinu. En þetta hlaupabretti var ekki í rólegheitunum í Stúdíó Dan heldur einhverri teknórækt í Wembley í London. Sama hvað olli – hún náði ekki sömu heljartökum á mér og High Voltage og Dirty Deeds.

***

Sem er furðulegt. Því lagasmíðarnar eru ansi góðar. Dog Eat Dog, titillagið, Hell Ain’t a Bad Place to Be, Problem Child (sem birtist hér aftur) og hið stórfenglega – og sennilega dálítið siðferðislega vafasama – Whole Lotta Rosie (sem fjallar um tasmaníska konu í talsverðri yfirvigt sem mun hafa forfært Bon Scott kvöld eitt í Melbourne – og hlaut afar góða einkunn fyrir hvílubrögð) eru fyrsta flokks.

***

Problem Child birtist aftur á Let There Be Rock – í örlítið styttri útgáfu, en ég get ekki heyrt það hafi mörgu verið breytt annars. Þetta er áreiðanlega nákvæmlega sama hljóðblöndun annars. Sem ýtir stoðum undir þá kenningu að þótt hávaðinn í teknóinu hafi ekki heyrst í gegnum tónlistina þá hafi hann farið illa með sándið.

***

AC/DC dönsuðu annars alltaf á siðferðislegu línunni og voru kannski ekkert ásættanlegri þarna um miðjan áttunda áratuginn. Maður sér oft fyrir sér að umræðan hafi ekki verið jafn óvægin og eitthvað, en þetta eru auðvitað árin sem Tipper Gore og félagar eru að koma sér í stellingar til að ritskoða tónlist – nokkrum árum síðar kemur Parental Advisory miðinn og Walmart hættir að selja tónlist sem er svo merkt, allir fara að blípa dónaskapinn og úr verður þessi skringilega ameríska úrkynjun þar sem er bannað að segja shit en samhengi skiptir engu.

***

Fyrir utan trommarann Phil Rudd voru þetta samt allt frekar góðir drengir, vel að merkja. Ekki síst Angus greyið – sá andsetni – sem hefur varla smakkað áfengi um ævina, giftist æskuástinni fyrir hundrað árum, og er þekktur fyrir að láta sig bara hverfa þegar hann gengur af sviðinu. Hangir heima hjá sér og spilar á gítar, all by his lonesome.

***

Bon var auðvitað fyllibytta og hinir flestir frekar blautir, en sennilega ekkert meira en flestir tónlistarmenn – og alls ekki þannig að þeir hafi stært sig af því eða gert einhver lifandis ósköp úr því (einsog t.d. Guns). Malcolm hætti að drekka fyrir löngu samt. Phil var til alls konar vandræða, fyrst og fremst smávægilegra, og var rekinn úr sveitinni – fyrst í áratug og svo aftur um daginn. Brian er annálaður tedrykkjumaður og rólyndisfýr.

***

Titillag plötunnar fjallar um tilurð rokksins – það er sköpunarsaga þar sem til leiks mæta hvíti maðurinn og svarti maðurinn. Sá hvíti kemur með „schmaltz“ (óþarfa væmni) að borðinu og sá svarti leggur til blúsinn. Sennilega mætti leggja það þannig út að Bon sé að segja að rokktónlist fjalli um sársauka – sársauki svartra sé réttmætur en sársauki hvítra kannski fyrst og fremst sjálfsvorkunn. En það væri líka óþarflega pólitískur lestur. Sennilega vakti ekkert fyrir honum annað en að benda á staðreyndirnar. Hvít tónlist var seif og leiðinleg og hún var að drepa ungt hvítt fólk úr leiðindum. Og þá kom blúsinn og með honum búggí og djass og rokk og ról.

***

Overdose og Bad Boy Boogie eru óeftirminnilegar lagasmíðar – og Go Down er undir getu þótt viðlagið sé fínt. Það besta og versta við AC/DC er að þeir skuli alltaf fylgja skriðþunganum í eigin listsköpun – það gerir það að verkum að þeir miðla aldrei málum eða eltast við tískustrauma og það veitir tónlist þeirra ákveðna þyngd. En það gerir það líka að verkum að stundum fara þeir bara að þramma, framleiða til þess að framleiða, af alþekktu vinnusiðferði (Angus vaknaði alltaf sex á morgnana til að semja – og þeir sömdu yfirleitt á meðan að þeir túruðu, stoppuðu svo stutt til að taka upp, þoldu ekki dútl, og voru svo aftur farnir út að túra). Og þá er útkoman ekki alltaf jafn spennandi.

***

Vaknaði, segi ég, einsog hljómsveitin sé hætt. En hún er einsog Bjarni Ben, þessi hljómsveit, hún stendur allt af sér. En þeir hægðu nú eitthvað ferðina – eða tóku sér langar pásur milli langra túra – þegar þeir voru farnir að þéna almennilega á þessu.

***

En þetta er samt platan með Whole Lotta Rosie. Það verður aldrei af henni tekið. Og nei, ég veit ekkert hvort þetta er fallegt eða ljótt – þetta er algert brjálæði af löngun, hlutgervingu, fordómum, kærleika og hamslausum losta. Og sennilega er það bæði fallegt og ljótt og hugsanlega er það allt í lagi.

***

***

Þetta er líka fínt lag til að staldra við og bera saman söngvarana. Ég ætla ekkert að segja um það í bili – annað en að Axl og Bon eru eiginlega líkari týpur en Bon og Brian. Og þetta er eitt af þeim lögum – segir mér Wikipedia – sem þeir notuðu í áheyrnarprufurnar fyrir Brian.

***

***

Þetta er svo ekki frá því að Axl tók við í AC/DC heldur frá því þegar Angus kom og spilaði með Guns á Coachella – eftir að tilkynnt hafði verið að Axl myndi hlaupa í skarðið fyrir hinn heyrnarlausa Brian. Live-upptökurnar af Axl með AC/DC eru svo miklu síðri.

***

***

Axl er gamall AC/DC aðdáandi – sennilega fáir tónlistarmenn í meiri metum hjá honum, ef frá eru taldir Elton John og Freddy Mercury – og Guns spiluðu Whole Lotta Rosie iðulega live í gamla daga. Hér er að lokum upptaka frá gullöldinni.

***

#ACDC

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png