Untitled

Ég var ekki hrifinn af ljóðlist Sigurðar Pálssonar fyrstu tíu árin. Fyrstu tíu árin sem ég las hann, meina ég. Frá svona 1995 til 2005. Ég kann ekki beinlínis á því neina aðra útskýringu en að ljóðin hans höfðuðu ekki til mín – með fáum undantekningum. Ég var að leita að einhverju öðru, og það er líka alltílagi, manni þarf ekki alltaf að finnast allt frábært og sumt á bara sinn tíma. Ljóð Sigurðar komu til mín síðar.

***

Í dag les ég ljóðin hans á netinu – til dæmis þetta dásamlega ljóð á Starafugli – og ég skil ekkert í því hvers vegna ég missti af því sem ég missti af, því þetta er ekki bara góður skáldskapur heldur er í honum miklu meiri leikur og ærsl en ég hélt að væri þarna – og saknaði þá. En maður sér það sem maður sér og fáránlegt að sýta það að eiga eitthvað eftir – ég fékk nánast að frumlesa ljóðin hans tvisvar, fyrst gegn honum og svo með honum. Það er heldur ekkert til að skammast sín fyrir að vera seinþroska.

***

Manninn þekkti ég svo til ekki neitt. Það var rétt svo við hefðum hist og heilsast og skipst á fáeinum orðum. Sem er óvenjulegt. Ég þekki alveg fáránlega marga íslenska rithöfunda – svona miðað við að ég á ekki heima í Reykjavík (og þekkti þá fáa þennan stutta tíma sem ég dvaldist þar fyrir langalöngu). Og Sigurður þekkti held ég alla.

***

Það leyndi sér ekkert að hann var með allra næsustu náungum, og enn fremur hefur það ekki farið framhjá mér hvað hann – og þá meina ég persóna hans, maðurinn, kennarinn, flannörinn sem ég þekkti ekki – hefur haft mikil áhrif á alla þá sem hann þekktu. Því marga af þeim þekki ég. Sigurður er einn af þessum mönnum – og þeir eru ekki margir – sem allir dásömuðu.

***

Og skáldið heldur auðvitað áfram að sprengja í fólki heilana, vefja hjörtu þeirra í voðir og syngja sárum þeirra söngva, á meðan enn er lesið í þessum heimi.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png