Untitled

Ég hef í nokkur ár ritstýrt Starafugli og ætla mér að gera það um ókomna tíð – hef tekið að líta á þetta sem langtímaverkefni, sennilega ævistarf, ætla í það minnsta að mæla það í áratugum (nema ég drepist óvænt, þá arfleiði ég Lomma og Hauk Má að þessu, svo það komi bara fram hér, ef þeir láta vefinn drabbast mun ég líta á það sem grófa vanvirðingu við minningu mína). Frá upphafi hefur stefnan verið að ýta undir afdráttarleysi í skrifum um menningu. Einsog Bubbi orðaði það á Facebook í morgun – þetta er upp á líf og dauða og verður að vera svo. Menning er ekki skraut fyrir borgarastétt sem er að drepast úr leiðindum, ekki dútl eða dundur – og maður á að taka skrifum um menningu jafn alvarlega, og sinna þeim af jafn miklu vægðarleysi, og maður sinni sjálfri listinni.

***

Ritdómar eiga að stefna að því að vera listaverk – ekki sjálfstætt listaverk, heldur afleitt (pun!) – og það er ekki frekar hlutlaust en fréttirnar. Það er alltaf einhver sem heldur á pennanum, þessi einhver á sér fortíð, hefur tiltekinn smekk, veit vissa hluti, veit ekki aðra, er svona í pólitík, þannig kynjaður, með þessar hneigðir o.s.frv. o.s.frv. og allt sem kemur málinu við á að liggja á borðinu.

***

Mér stendur (einsog þið heyrið) ekki á sama um menninguna – og er alltaf að reyna að pota í fólk og fá það til að skrifa fyrir vefinn. Ókeypis, sem er leiðinlegt, en ég sé enga ekonómíska vídd í þessu. Ég hef haft fjögur markmið síðustu misserin og náð einu (því fyrsta)

a) Að birta fleiri dóma um nýjar ljóðabækur b) Að birta fleiri dóma eftir konur c) Að birta fleiri dóma um myndlistarsýningar d) Að birta fleiri dóma um barnamenningu

***

Mér berast ekki margir neikvæðir dómar til birtingar. Algengasti neikvæði dómurinn sem ég fæ er tölvupóstur frá einhverjum sem fékk bók til umfjöllunar og er sirka svona: „Ég fílaði bókina illa og ég meikaði ekki að skrifa um hana, sorrí“. Yfirleitt, ef ég er ekki að tryllast úr stressi, reyni ég að hvetja manneskjuna til að skrifa samt – heiðarlegur neikvæður dómur er mikilvægur, og það er mikilvægt fyrir menninguna sem slíka að dómar séu ekki allir jákvæðir. Því það er bara lygi. Engum finnst allt frábært. Og vefur sem birtir bara frábærar umsagnir missir strax áhuga lesenda sinna og allt kredibilitet. Melting menningarafurða er að miklu leyti fólgin í einföldu gæðamati sem sprettur beint úr kviðnum, úr hjartanu. Þegar einhver spyr: hvernig fannst þér? svörum við ekki með langri greiningu – hún kemur kannski, en það fyrsta sem við svörum, grunnsvarið er: frábært! / glatað! / mja, veit ekki – og svo framvegis.

***

Og við gerum það auðvitað prívat. Við gerum þetta öll prívat. En á síðustu árum og hugsanlega áratugum finnst mér einsog fólk veigri sér meira og meira við því að segja skoðun sína opinberlega. Ég get best trúað að þetta snúist um þessa massífu meðvirkni sem Facebook æsir upp í okkur – að vilja ekki styggja neinn, vilja ekki búa til óvini að óþörfu, og svo hreinlega nenna ekki geislavirku ofanfallinu. Öllum helvítis þráðunum.

***

Viðbrögðin við neikvæðum dómi eru alltaf eins. (Og þetta á vel að merkja ekki bara við Starafugl, þetta á við um alla neikvæða dóma – og já, ég geri þetta líka þegar einhver fífl skrifa heimskulegan texta um bækurnar mínar). Þetta er ómálefnalegt. Ef þetta er vel skrifað – hressilega, með einhverju myndmáli til dæmis – þá er það líka rætið. Ef það er karl að skrifa um konu þjáist hann af einhvers konar kvenfyrirlitningu (nema hann langi hreinlega að ríða/drepa höfundinn – einsog einn gagnrýnenda Víðsjár fékk í hausinn fyrir 1-2 árum). Það hefur aldrei verið skrifuð nógu málefnaleg slátrun.

***

Sem höfundi verð ég reyndar að segja að ég vil frekar fá almennilega slátrun en svona linkulegt þetta var nú ágætt. Ég man eftir því þegar Geirlaugur heitinn Magnússon skrifaði um fyrstu ljóðabókina mína að þetta væri óttalegt skuggabox og spurði hvers vegna þessir bítnikkataktar væru ekki löngu dauðir að þá prentaði ég helvítis dóminn út (af netinu, ég bjó í Berlín og komst ekki í blaðið) og hengdi hann upp á vegg í stofunni. Í heilan vetur gekk ég aldrei svo framhjá textanum að hreytti því ekki í Geirlaug heitinn (sem þá var ennþá lifandi) að hann væri lúser. Það var mjög hressandi.

***

Að því sögðu geta bókadómar auðvitað verið ómálefnalegir. Og fullir af kvenfyrirlitningu. Og rætnir. En það er mjög ósennilegt að þeir séu það allir.

***

Bret Easton Ellis brást við því um árið þegar Buzzfeed ákvað að hætta að birta neikvæða dóma með því að skrifa greinina alræmdu „Generation Wuss“. Þar gerði hann því skóna að fólk (fætt 1989 og síðar) gæti ekki tekið gagnrýni. Það færi bara að væla. Það yrði bara allt brjálað. Þau væru alin upp af sínísku fólki sem hefði engu að síður ofverndað þau. Maður fengi alltaf verðlaunapening, alltaf klapp á bakið, allt sem maður gerði væri frábært – af því maður gerði það. Öll þessi ást – sem síðan breyttist í viðstöðulausan lækstorm, sem svo aftur nú er orðinn hjartastormur, undirtektareiður stormur o.s.frv.

***

En ég held þetta sé að nokkru leyti rangt hjá Ellis. Álagið er ekki nærri því jafn mikið og óttinn við álagið. Jújú, það er þreytandi að kýta á Facebook – en það er ekki nærri svo þreytandi að nokkur manneskja með lágmarkskjark ætti að láta það aftra sér frá því að sinna fagurfræðilegri skyldu sinni (og já, þetta er skylda – svo ég vitni aftur í Bubba, þetta er upp á líf og dauða).

***

Hugsanlega er fólk sem sagt almennt minna hrætt við neikvæð viðbrögð annarra en það er hrætt við að virðast neikvætt sjálft. Við óttumst ekki hatarann – við óttumst að einhver haldi að við séum hatarinn.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png