Untitled

Hér er allt að gerast. Íslendingar eru sviknir um nóbelsverðlaun á hverjum degi. Að minnsta kosti þessa vikuna.

***

Nema Snæbjörn. Það liggur við að maður ætti að senda honum blóm. En hann á sennilega fyrir sínum eigin blómum.

***

Ég kláraði leikritið – Hans Blævi – í gær og sendi á Óskabörn ógæfunnar sem ætla að setja þetta upp. Sennilega á ég reyndar eftir að breyta helling – kannski ekki í strúktúr en það þarf að stytta hér og þar og árétta hitt og þetta, reikna ég með – en þau eru allavega komin með eitthvað í hendurnar til þess að lesa saman.

***

Svona alveg án þess að taka afstöðu til Brexit eða Katalóníu eða uppgjörstilraunarinnar í Grikklandi um árið þá er áhugavert að sjá hversu kerfið er orðið gott í að standa vörð um sjálft sig – um status quoið. Sem sagt kapítalíska kerfið. Niðurstaðan frammi fyrir öllum stórum breytingum er: Ef þið ruggið bátnum tekur við óstöðvandi Mad Max kaos og svo svelta þeir í hel sem  ekki gerast útlagar eða eru drepnir af útlögum áður en þeir ná að svelta í hel. Einsog þeir sögðu í Star Trek: We are the Borg, resistence is futile.

***

Ég var mjög hrifinn af Never Let Me Go. Svo það sé bara sagt – hvað sem stendur hér fyrir neðan sat hún í mér, ég kvabba líka. Ég skrifaði þetta um hana þegar ég las hana (á blogg sem er horfið – þetta er eiginlega færsla á horfnu bloggi um færslu á öðru horfnu bloggi og svo hverfur þetta blogg):

***

Apríl – 2008

Í gærkvöldi kláraði ég Slepptu mér aldrei eftir Kazuo Ishiguro. Á sínum tíma pönkaðist ég eitthvað á fólki (Bjarti) fyrir að slá upp kommentinu “A masterpiece of craftsmanship”, sem hent var á lofti um þessa bók þegar hún kom út. Ég skrifaði um þetta á gamla bloggið mitt, Bjartur brást við (enda eldheitur Ishiguro maður) og loks dró nafniminn Guðmundsson mig inn í Víðsjá til að ræða sótthreinsaðar bókmenntir – sem ég vildi bera saman við sótthita bókmenntir Dostójevskís. Bloggið er löngu horfið, sem og úbbartsviðtalið, en á heimasíðu Bjarts segir m.a.:

“Eiríkur segir: “Ég hef það á tilfinningunni að sótthreinsaðar bókmenntir séu að verða vinsælli og vinsælli – “A masterpiece of craftsmanship” segir í dómi um nýjustu bók Ishiguro. “Send a copy to the Swedish Academy” – handbragðið nýtur svo mikillar virðingar að menn hugsa til þess með hjartað í buxunum að bækur þeirra verði óvart prentaðar með einni einustu bögu. En það gerist ekki, því eftir yfirlestra frá 40 manns, situr ekki einn einasti agnúi eftir. Sem er að einhverju leyti miður, því agnúar eru þrátt fyrir allt snertifletir.” Æ! Þvílíkt endemis rugl. Eru mannanna verk svo fullkomin að það þurfi að hafa áhyggjur af því?”

Nú er ég sumsé búinn að lesa bókina. Hún var fín, eins og ég vissi sosum, en óttalega sívílíseruð. Prótagónisti Ishiguros, Kathy, er voðalega meinlaus, og hugsun bókarinnar þar af leiðandi einhvern veginn, já, kannski er sótthreinsuð orðið sem ég er að leita að. Uppbygging og texti, meina ég. Það er margt í bókinni magnað, og margt sem hreyfir við manni – einna helst hversu allir í sögunni eru sáttir við örlög sín, hvernig veröldin er. Það er ógnvekjandi, því það er líka algerlega satt. Við lifum eins og hlýðnir hundar, og beitum svipunni óhikað á okkur sjálf.

Eitt atriði við bókina var þó verulega þreytandi, en það var stílbragð nokkuð sem jafnan er beitt til að gera sögur lífrænar, gera þær slíkar að útlit sé fyrir að einhver sé að segja stóra kaotíska sögu og hún sé ekki línuleg, passi ekki inn í ramma frásagnarinnar. Kazuo Ishiguro var alltaf að segja frá því sem var alveg að fara að gerast, því sem var á næstu grösum. Ég held það liggi við að allir kaflarnir séu þannig uppbyggðir – minnst er á hlut/atvik sem koma mun við sögu, og hvernig hluturinn/atvikið hafði áhrif á persónur bókarinnar og aðstæður þeirra, áður en sagt er frá því hver hluturinn/atvikið er. Ég er ekki með bókina með mér, og get því ekki tekið dæmi, nema skáldað (ég er minnislaus með afbrigðum, ef ég skyldi aldrei hafa minnst á það): “Ég veit ekki hvenær Gunnar hætti að haga sér illa, en það hafði kannski eitthvað að gera með bréfið sem hann fékk þá um haustið. Hann hafði verið óstýrilátur allt sumarið, en fréttirnar sem bárust með bréfinu virtust breyta skapferli hans, á einhvern hátt.” Ble ble. Seint og um síðir fær maður svo að vita að í bréfinu var Gunnari sagt að hann hafi verið ættleiddur, hann eigi tvíburabróður en foreldrar hans hafi látist í flugslysi.

Þetta er ágætis stílbragð, ekkert undan því að kvarta – fjarska fágað og sívíliserað, lávarðaútgáfan af cliffhangernum. En það mætti alveg fara sparlegar með það mín vegna, að minnsta kosti í einni bók.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png