top of page

Untitled

Kæri Snæbjörn.

Ég gleymdi víst alltaf að þakka fyrir blómin. Sennilega komu þau bara svona flatt upp á mig. Ég eyddi deginum í að dást að þeim og bresta út með: „Nei, sko! Ha ha!“ Blómin (takk fyrir þau!) komu líka alveg á réttum tíma, svo að segja, ekki alveg að tilefnislausu – þótt ekki hefði minn maður unnið nóbelinn (ég hélt með Sjón, lét berast með í æsingnum og er að lesa Codexinn – það er svakaleg bók) – því svo vildi til að rétt í þann mund sem mér barst þessi blómvöndur, já og okkur fjölskyldunni, þá fékk ég sem sagt þau skilaboð að franski útgefandinn Editions Metailie, hefði ákveðið að kaupa réttinn á skáldsögunni Gæsku – en þau hafa áður gefið út Heimsku og Illsku og bara gengið nokkuð vel. Ég var þess vegna þá þegar „festiv“ – í hátíðarskapi – og má segja að ég hafi verið að bíða eftir að einhver sendi mér blómvönd. Þetta gast þú auðvitað ekki vitað – og þó, þú hefur náttúrulega verið lengi í bókaútgáfu og kannski sér maður þetta bara fyrir þegar maður er „eldri en tvævetur“ í bransanum. Fyrir þetta fæ ég auðvitað böns af monní og útlit fyrir að ég eigi einmitt efni á blómum eitthvað fram eftir vetri. Húrra, yo!

Um kvöldið áttum við Nadja síðan svokallað „deitkvöld“ – ótengt réttindasölunni, þetta var ákveðið áður – en þá borðum við seint eftir að börnin eru farin í háttinn og Nadja má ekki vinna, annars vinnur hún flest kvöld, enda í 67% stöðu sem menntaskólakennari og það er miklu meira en flestir þola. Ég gerði spænskt tapas, meira og minna upp úr sjálfum mér. Kartöflueggjaköku, bakaða sveppi fyllta með geitaosti (úr costco!) og heimatilbúnu grænkálspestói, tannstöngla með ólífum (costco), manchego-osti (costco) og kirsuberjatómötum (nettó), súrdeigsbruschettu með karamellíseruðum lauk og geitaosti (costco) annars vegar og mozzarella (costco) og basiliku (bónus) hins vegar. Ég man ekki hvort það var eitthvað fleira þarna. Þetta var allavega mjög gott og ég sem sagt raðaði tapasinu í kringum blómvöndinn en þurfti svo að færa hann aðeins til hliðar, enda er hann svo stór að við sáum ekki hvort annað – og það er ekki alveg hægt á „deitkvöldi“, ekki einu sinni þótt vöndurinn sé fagur.

Í dag var svo síðbúin afmælisveisla fyrir krónprinsinn, Aram Nóa Norðdahl Widell – hann varð átta ára þann 3. september síðastliðinn – og vöndurinn var aftur í hávegum, á miðju langborðinu. Börnin fengu pylsur – grænmetis, merguez, vínar og beikon (allt úr Nettó) – rækjusalat og heimalagaðar súrar gúrkur, auk annars hefðbundins tillbehör á íslenskum pylsubar (gleymdi reyndar að kaupa remúlaði – sem hefði samt passað vel við vöndinn, bæði einhvern veginn danskt). Í eftirrétt var einhvers konar marensparadís – Nadja tók þetta að sér og ég sá ekki betur en að auk marens væri í þessu vanilluís, jarðarber, bláber og súkkulaðisósa. Þá var hægt að hræra út í það rjóma, hann stóð bara á borðinu – prinsinn vill ekki rjóma sjálfur, nefnilega. Við þetta tækifæri breiddum við svolítið úr vendinum svo stilkarnir standa langt út á borðsendana einsog spjót – hann er ekki síður tígulegur þannig.

Vonandi hafið þið fjölskyldan það gott í Espergærde.

Kær kveðja að vestan, Eiríkur og fjölskylda

PS. Ég taldi upp allan þennan mat ekki síst vegna þess að ég þykist vita að þú sért matmaður, einsog ég reyndar líka, en svo er auðvitað alls ekkert víst að þér finnist þá sjálfkrafa gaman að lesa upptalningar á mat. Ef svo er ekki biðst ég bara forláts og vona að þú hafir skemmt þér betur yfir þeim hlutum þessa bréfs sem ekki snúast um mat, nema í besta lagi óbeint, svo sem eftirskriftinni.

0 views0 comments

Recent Posts

See All

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page