Untitled

Ég synti sextíu og þrjár ferðir í sundhöll Guðjóns Samúelssonar í kvöld. Laugin er nánast á dyraþrepinu hjá mér. Fallegasta sundhöll landsins. Og að sögn með þeim stystu. Hún er sextán metrar á lengd og sextíu og þrjár ferðir því það næsta sem maður kemst því að synda einn kílómetra, ef maður vill ekki stoppa á miðri leið. Í sjálfu sér gæti maður líka synt sextíu og tvær ferðir en þá væri maður undir kílómetranum – jafn langt undir og maður fer annars yfir – og það er erfiðara að muna töluna sextíu og tveir. Sextíu og þrír er jafn margar ferðir og það eru þingmenn í landinu. Því gleymir maður ekki svo glatt, sérstaklega ekki þegar það er svona stutt til kosningar.

***

Ég fór síðan í sánu. Rakaði mig. Fór aftur í sánu. Að venju var ég eini nakti maðurinn í sánunni. Mér gengur ekkert að venja sveitunga mína af þessu sundfatarugli – opna bréfið sem ég skrifaði vegna baðfatasturlunar þessarar er horfið af internetinu, út af því að bb.is endurnýjaði sig (og gamli.bb.is virðist ekki virka lengur) en það má lesa um þetta í endursögn Morgunblaðsins (ef maður man ekki neitt, það man auðvitað enginn neitt lengur, en þetta var stórmál og komst meira að segja í útlenska fjölmiðla).

***

En ég er nú sosum ekki að bögga fólk með þessu heldur. Sánan er heilagur staður – ekki staður fyrir bögg. Og það böggar mig enginn að ég skuli vera á rassinum.

***

Ég get ekki gert upp við mig hvað ég á að kjósa. VG, Pírata eða Samfylkingu, annað kemur tæpast til greina. Ég átta mig ekki á því hvernig landið liggur í kjördæminu, hverjir eru tæpastir – það getur skipt máli – en svo er maður óttalega hræddur við að atkvæðið manns verði síðan til þess að einhver bavíani annars staðar af landinu fari á þing.

***

Mér finnst ég vita miklu minna um hvar flokkarnir standa en ég vildi. Mér finnst ég fá mjög lítið af konkret svörum. Mikið af við viljum styrkja/efla/styðja allt sem er gott og skera upp stríðsör gegn því sem er slæmt. Og allir eru meira og minna sammála um hvað sé gott og hvað sé slæmt. Hægriflokkarnir sverja af sér einka(vina)væðingu og lofa einkaframtaki. Vinstriflokkarnir sverja af sér skattpíningu fátæklinga og lofa allri velferðinni sem enginn stóð skil á síðast. Bjarni Ben segist ætla að setja milljarðatugi í bankakerfið. Sennilega er hann að tala um að selja það – ég las ekki fréttina samt, sá bara fyrirsögnina.

***

Ég respektera auðvitað íhugunina – ég beinlínis vinn við að íhuga, í einhverjum skilningi. Og vinstrimenn eru íhugarar – þeir vilja skoða málin, ræða þau, taka til greina alla núansana. Ég fíla það. En svo sakna ég þess samt að það sé dúerar. Hægrimenn eru dúerar, þeir bara setja lög og gera hluti – storma áfram. Eina vandamálið er að þeir gera frekar vonlausa hluti. Þeir framkvæma hægristefnu, sem er glötuð og mun á endanum gera jörðina óbyggilega. Ég væri til í smá vinstri dúera. Mér sýnist þeir ekki í boði. Og kannski myndi ég bara skíta í mig af pirringi ef þannig fólk kæmist til valda – gersamlega æfur yfir allri vitleysunni sem það myndi framkvæma.

***

En ég er alveg frekar sínískur í pólitík. Sem þýðir ekki neitt. Fram fram fylking. Vaki vaki vaskir menn.

***

En hvaða spurningar eru það sem ég myndi vilja fá hrein og klár svör við – svona dúerasvör?

***

Ég gæti spurt um bókaskattinn – en það virðast allir sammála um að fella hann niður og hvers vegna ætti ég þá að spyrja um það? Ég gæti spurt kannski í staðinn hvernig í ósköpunum þeir hafa haldið hingað til að þetta væri góð hugmynd? Eða hvað hafi orðið þess valdandi að þeir skiptu um skoðun.

***

Kannski væri ágætt að fá einhvern orðavaðal um byggðamálin. Og fáein loforð. Ég á ekki við að það ætti að lofa tiltekinni vegagerð um Teigsskóg – en kannski loforð um að þetta yrði leyst á kjörtímabilinu. Ekki „vonandi finnst ásættanleg“ ble ble heldur bara „við fixum þetta. Byrjum að vinna að því á fyrsta degi og svo fixum við það.“

***

Svo mætti alveg lofa líka að leggja meira fé í rannsóknir á fiskeldi. Lofa lögum um eignarhald. O.s.frv.

***

Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu. Ég myndi helst vilja að einhver segði að það þyrfti að draga hana til baka. Kannski í þrepum – en sem sagt að heilsugæsla sé bara á forræði hins opinbera. Og hugsanlega fleira – ég reikna ekki með að fá mörg jákvæð svör – en a.m.k. grunnþjónustan.

***

Fjárfesting í landsneti. Byggja upp flutningskerfi raforku. Svara því bara skýrt og greinilega hvernig megi hringtengja Vestfirði – ef ekki er hægt að gera það án þess að virkja (t.d. Hvalá) þá þarf það einfaldlega að liggja fyrir. Það þarf plan – og ef það er ekki til plan þarf að setja plan um hvenær planið á að vera tilbúið. Deddlæn. Ef ég redda þessu ekki fyrir næsta haust segi ég af mér og einhver annar fær að vera forsætisráðherra. Þannig plan.

***

Hvað fleira skiptir mig máli? Háskólastarfsemi – og í guðanna bænum ekki bara á höfuðborgarsvæðinu. Ég get ekki ímyndað mér neitt verra en að kjósa óvart einhvern búra sem vill loka háskólasetrum úti á landi og þjappa öllu saman í einhvern ofurskóla á melunum (er ekki HÍ á „melunum“ – mér finnst ég allavega hljóma mjög reykvíkingslega þegar ég segi „melarnir“, ég sem rata ekki yfir Ingólfstorg án Google Maps).

***

Fella niður komugjöld á spítala. Hækka persónuafslátt og stuðla að launajöfnuði milli stétta. Niðurgreiða innanlandsflug (þjóðnýta Flugleiði). Halda áfram að styrkja innviði samgöngukerfisins. Leggja niður æfingaflug í borginni áður en Reykvíkingar missa vitið og stinga rýtingi í hjartað í Vatnsmýrinni. Burt með kvótakerfið – binda kvóta við tiltekin svæði á miðunum á tilteknum tímum (einsog stendur er bara gefinn út einn kvóti fyrir hverja fisktegund á alla landhelgina – fiskurinn er svo sópaður upp á 2-3 stöðum í kringum landið, sem er einsog það væri gefin út veiðileyfi á lax og svo sætu allir í kringum sömu 2-3 hylina).

***

En guð hvað maður verður leiður af að hugsa um þetta. Getur ekki einhver troðið upp í mig chilikjúklingi svo ég lifi leiðindin af?

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png