Untitled

Við höfum mjög miklar áhyggjur af tilfinningum hvers annars og því hvernig við virðumst – ímynd okkar, sjálfsmynd. Kannski er það gott. Bensi segir eitthvað sem meiðir, Bjarni Ben segir eitthvað sem meiðir, Steingrímur Joð segir eitthvað sem meiðir. Ímynd þeirra býður skaða og þeir gera sitt besta til að bæta fyrir það með því að biðjast afsökunar. Nei, sennilega baðst Bjarni ekki afsökunar – en hann fór heldur ekki út fyrir hinn almennt ásættanlega orðaforða. Hann hastaði á 18 ára karlmann, nei fyrirgefiði, 18 ára barn, sem gagnrýndi hann harkalega. „Fyrirsátin í Versló“, köllum við það, og aldrei átti Bjarni Ben von á fyrirsát í Versló. Þegar mamma gekk í skólann var innritunareyðublöðum fyrir Sjálfstæðisflokkinn dreift í tímum. Þeir tímar eru greinilega liðnir.

***

Nema hvað. Við höfum áhyggjur af sjálfum okkur. Og áhyggjur af öðrum. Og áhyggjur af því að við virðumst bera í brjósti neikvæðar tilfinningar til annarra. Af því það kostar. Sindri Eldon, hinn orðhvassi fyrrum tónlistargagnrýnandi Reykjavík Grapevine – sem ég tók viðtal við um krítík fyrir nokkrum árum – skrifar opinbera afsökunarbeiðni á Facebook til þeirra tónlistarmanna sem hann skrifaði neikvætt um á sínum tíma – eða allavega þeirra sem hann sýndi hroka (það kemur ekki fram til hverra nákvæmlega afsökunarbeiðnin er – kannski allra sem hann skrifaði nokkru sinni um – mér finnst sennilegt að öll viðkvæmu egóin sem hann særði taki þetta til sín, viðkvæmum egóum finnst líka allt snúast um sig, einsog segir í laginu). Það fylgir reyndar sögunni að Sindri telji sig ekki hafa notið sannmælis sem tónlistarmaður vegna þessara skrifa – að hann hafi verið látinn gjalda þeirra. Um það er auðvitað ómögulegt að segja án þess að fá einhver konkret dæmi – það gæti alveg verið að fólki finnist tónlistin hans bara ekki skemmtileg og hann leiti orsakana þarna (einsog tónlistarmennirnir sem hann skrifaði um kenndu honum áreiðanlega um ófarir sínar). En hann virkar óneitanlega lúinn í þessari ræðu – einsog maður sem hefur einfaldlega gefist upp. Það er líka ótrúlega mikið álag sem felst í því að skrifa heiðarlegan og litríkan prósa um listaverk og fáir sem endast í því. Það get ég einfaldlega staðfest, bæði sem gagnrýnandi og ritstjóri.

***

Mér finnst (já mér finnst!) þetta allt heldur sjálfhverft. Einhvern tíma var því haldið fram við mig að sjálfhverfan – þessi brjálæðislega viðstöðulausa sjálfhverfa sem samtíminn er að kikna undan – væri bein afleiðing af heimspeki nýfrjálshyggjunnar, sem skilur ekkert nema einstaklinginn og hefur engin stærri samfélagsleg gildi. Það verður engin mergð, ekkert torg, enginn kór. Þannig hefur nýfrjálshyggjusamfélag engan respekt fyrir gagnrýni sem slíkri – hinni pólífónísku rödd ólíkra miðla, ólíkra gagnrýnenda, átaka um fagurfræðilegt mat – því hún getur ekki séð heildarmyndir og upplifir þessar stöku raddir því bara sem innlegg í eineltiskúltúr.

***

Þetta helst svo auðvitað í hendur við að gagnrýni fækkar svo að pólifóníukórinn verður að einum og einum hrópanda – geisladiskur fær kannski bara eina rýni, ljóðabók kannski eina (fyrir utan stjörnurnar frá mömmu á Goodreads) o.s.frv. Það verður enginn kór lengur, bara einn guðlegur gagnrýnandi sem tekur ákvörðun um endanleg gæði verksins. Sem er ekki heldur lengur afurð hópsins heldur hrein og tær tjáning sálar – gott ef ekki sálin hlutgerð, íkoníseruð – og öll gagnrýni á téða afurð því sambærileg við að níða niður listamanninn, pissa í skólatöskuna hans og hrækja á gröf móður hans.

***

Gagnrýni er auðvitað – einsog list – persónuleg tjáning. Ég á ekki við að hún verði slitin fullkomlega úr samhengi hins sjálfhverfa. En hún verður að eiga í einhvers konar sambandi við hið stóra  – við kúltúrinn. Og ég stend við það sem ég sagði einhvern tíma fyrir langa löngu, þegar ég var hrokafullur ungur maður (og sagði líka oft heimskulega og hrokafulla hluti – það er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að neita að vera hræddur) að maður þyrfti að læra að bera passlega blöndu af virðingu og vanvirðingu fyrir listinni, maður þyrfti að leyfa henni að hræra í sér á alla mögulega vegu. Því sá sem elskar einfaldlega listina og finnst allt frábært – „út frá því sem verkið ætlar sér sjálft“, einsog það heitir á átomatíkínni – gerir á endanum ekkert nema kitsch, ef viðkomandi er listamaður, og ef viðkomandi er gagnrýnandi varðar hann leið kitschsins að hjarta mannsins, sem svo visnar og deyr.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png