Untitled

Ég gaf mömmu eintakið mitt af Hans Blævi og hef ekkert hugsað um hána alla vikuna. Nú þarf ég bara að losna við bókafjöldann af skrifborðinu mínu og koma honum í einhvers konar hillu. En hvar á ég að hafa þessa hillu? Fyrir framan hinar hillurnar mínar?

***

Í næstu viku fer ég svo til Súðavíkur að taka upp hljóðbókina. Í millitíðinni skýst ég sem kennaramaki í kennaraferð til Lundúna. Þar ætla ég að sinna vistsporinu mínu og hafa áhyggjur af loftslagsmálum og sjá guadalúpísku blússveitina Delgrés spila. Ég ætla líka að kaupa mér heimskautahvítan Fender Telecaster smíðaðan í Mexíkó. Notaðan, sem ég fékk fyrir slikk, nokkurn veginn sama og ég fékk fyrir Epiphone SG-inn. Þá á ég tvo rafmagnsgítara – Gálknið, sem er biksvartur Gibson SG og þennan nýja, sem ég á eftir að nefna. Það má koma með tillögur í athugasemdum.

***

En þetta er ekki gítarblogg. Þetta er Hans Blævar- og samfélagsblogg. Kannski  ég breyti þessu samt í gítarblogg síðar. Það gæti verið gaman.

***

Heitir hann ekki Kristinn Sigurjónsson, kennarinn í HR sem var rekinn fyrir að segjast ekki vilja vinna með konum? Og það væri í raun ekki hægt að vinna með þeim – ef ég man rétt – þær væru óalandi og óferjandi. Mér finnst eina spurningin í því máli vera hvort maður eigi að hafa þolinmæði fyrir fíflum eða ekki. Og góð og gild rök fyrir báðu, finnst mér.

***

Framfylgi maður ekki ákveðnum stöðlum um lágmarkskurteisi er hætt við að maður endi í hálfgerðu barbarí. Þeir sem taka mjög djúpt í árinni – tala af ósanngirni, ljúga jafnvel, býsnast og andskotast – pólarísera umræðuna, ýta fólki út í horn og eitra þannig út frá sér. Ég er raunar alls ekkert viss um að þeir geri það með því afla skoðunum sínum vinsælda – þótt það verði alltaf smá stemning í kringum þá í fyrstu, þegar þeir lokka verstu rugludallana fram úr dagsljósinu – heldur með því að færa umræðuna yfir á hysterískt plan. Þetta endar einsog eitthvað smábarnarifrildi. „Það er ekki hægt að vinna með konum“ fær bara svarið „djöfull geta karlar verið ómerkilegir“ og svo framvegis. Ósannanlegar tilgátur um heiminn sem byggja ekki á öðru en gremju og beiskju gera ekki heiminn stærri, þær gera heiminn minni og fólkið sem verður fyrir þeim heimskara. Og skiptir engu máli hvaða „málstað“ þær tilgátur eiga að verja eða flytja.

***

Hins vegar held ég að manni sé bráðnauðsynlegt að eiga einhvers konar samneyti við fólk af öllu mögulegu sauðahúsi. Það er einhver stærsti hængur samtímans hversu erfitt við eigum með samlífi við fólk sem er á einhvern hátt öðruvísi en við eigum von á eða eigum að venjast. Vegna þess hreinlega að við höfum viðbjóð hvert á öðru – af öllum mögulegum ástæðum. Mér finnst ég reka mig á það æ ofan í æ. Kristinn Sigurjónsson, heiti þessi aumingjans maður þá það (ótrúlegt hvað maður getur látið eftir sér að fletta ekki hlutunum upp), er furðufugl, feyskinn karlpungur í útrýmingarhættu. Skoðanir hans á heiminum byggja ekki á samkennd, samstöðu eða kærleika – þær virðast aðallega byggjast á gremju og það vita það allir sem hafa þurft að fást við gremju, finna fyrir henni, að gremja sprettur af vanmáttarkennd og almennri vanlíðan.

***

Ég held við þurfum að horfast í augu við að þannig fólk – fólk sem ráfar um hugmyndaheim samtímans einsog smábörn í frekjukasti – er stór hluti af samfélaginu. Við tökum að vísu ekki jafn vel eftir því þegar það er nær okkur í skoðunum – og er það þó að mörgu leyti ekkert skárra, og sennilega kemur að því að tíðarandinn snýst gegn þeim líka þegar móralski pendúllinn sveiflast aftur til baka. Og þótt það sé alls ekki gott að fólki af þessu sé ekki mætt þá held ég það borgi sig hvorki að þrátta við það á þeirra eigin máli – með gremjuna að vopni – né heldur að gera það brottrækt. Þeim er miklu betur mætt með festu og kærleika – því, svo ég snúi upp á nýlegt húðflúr, þá eru karlar einmitt alls ekki rusl, heldur heilagir, einsog annað fólk.

2 views0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png